Geirmundur Kristinsson hafði víðtækar heimildir til lánveitinga í krafti starfs síns sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík. Þetta er meðal þess sem fram hefur komið við skýrslutökur vitna í dag, en aðalmeðferð máls á hendur honum fer nú fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Geirmundur Kristinsson hafði víðtækar heimildir til lánveitinga í krafti starfs síns sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík. Þetta er meðal þess sem fram hefur komið við skýrslutökur vitna í dag, en aðalmeðferð máls á hendur honum fer nú fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Geirmundur Kristinsson hafði víðtækar heimildir til lánveitinga í krafti starfs síns sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík. Þetta er meðal þess sem fram hefur komið við skýrslutökur vitna í dag, en aðalmeðferð máls á hendur honum fer nú fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Frétt mbl.is: Baðst undan spurningum fyrir dómi
Guðlaugur Grétar Grétarsson, sem gegndi starfi fulltrúa sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík á árunum 2007 og 2008, var einn þeirra sem kallaður var til vitnisburðar.
Sagðist hann ekki muna sérstaklega eftir að hafa millifært 100 milljón krónur til félagsins Duggs frá Sparisjóðnum í Keflavík. Sagði Guðlaugur þó greinilegt að hann hefði komið að millifærslunni, enda sýndu skjöl málsins fram á það.
Geirmundur er meðal annars ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum með lánveitingum til einkahlutafélaga, þar á meðal félaginu Duggi 100 milljóna króna yfirdráttarlán.
Aðspurður af verjanda Geirmundar við aðalmeðferð í dag sagðist Guðlaugur telja að lánaheimildir sparisjóðsstjórans hefðu á umræddum tíma verið í hlutfalli við eiginfé bankans. Þá taldi hann sparisjóðsstjórann hafa haft mjög víðtækar heimildir til lánveitinga á þessum árum.
Sagðist Guðlaugur um tíma hafa átt aðkomu að félaginu Víkum, sem til umfjöllunar er í málinu þar sem Geirmundur er talinn hafa misnotað aðstöðu sína þegar hann framseldi stofnbréf í sparisjóðnum frá Víkum til einkahlutafélagsins Fossvogshyls í lok árs 2007, án þess að nokkuð endurgjald kæmi fyrir.
Guðlaugur sagðist þó ekki hafa átt aðkomu að félaginu á þeim tíma sem um ræðir. Þá sagðist hann ekki þekkja til félagsins Fossvogshyls.
Kristján Gunnar Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, var einnig kallaður til vitnisburðar. Hann sat í stjórn sjóðsins og gegndi starfi stjórnarformanns síðustu misserin áður en hann sameinaðist Landsbankanum.
Kristján sagðist reka minni til að sparisjóðsstjóri hefði haft þá stöðu að mega veita lán að hámarki 15% af eigin fé sparisjóðsins. Bætti hann við að sú heimild hefði verið mjög rúm miðað við uppblásna eiginfjárstöðu sjóðsins, eins og hann orðaði það.
Sagði hann stjórnina oft hafa spyrt hverjir stæðu á bak við þau fyrirtæki sem til væri lánað fé, enda hefðu nafngiftirnar í mörgum tilfellum verið afar frumlegar. „Oft þurfti mikilla útskýringa við,“ sagði Kristján.
„Mér fannst upphæðirnar oft háar, en þá var rifjað upp hverjar heimildir starfsmanna væru.“ Síðar hefðu reglur breyst og heimildirnar skertar, að hans sögn.
Kristján sagðist telja að Geirmundur hefði á þessum tíma farið fyrir hóp, nokkurs konar óformlegri lánanefnd starfsmanna. „Hann sagði okkur frá því að þau fóru yfir þetta, starfsmenn sparisjóðsins, með Geirmundi. Við fengum engar fundargerðir heldur var þetta í föstum skorðum á þeim tíma.“
Eftir að formleg lánanefnd hafi verið skipuð sagðist hann aðspurður ekki telja annað en að allar lánveitingar hefðu farið í gegnum hana. Þá sagðist hann ekki geta munað hvort hann hefði haft vitneskju um lánveitingu til félagsins Duggs.
„Ég myndi nú halda að þetta hefði átt að koma með formlegum hætti inn í stjórnina og rætt þar.“
Kristján sagðist þá ekki þekkja Geirmund af öðru en að hann væri strangheiðarlegur maður.
„Ég ætla honum ekkert illt.“
Aðspurður sagði Kristján málefni dótturfélags sparisjóðsins, Víkna, ekki hafa verið á könnu stjórnarinnar. Upplýsingar um félagið hefðu þó verið reifaðar reglulega á stjórnarfundum.
Sagði hann stjórn sparisjóðsins hafa getað komið í veg fyrir viðskipti með stofnfjárbréf sjóðsins, ef illur vilji lægi að baki þeim. Í framkvæmd hefði fólki þó verið frjálst að hafa viðskipti með þau og aðeins hefðu tilkynningar um slíkt verið lagðar fram á stjórnarfundum.
Kristján sagði þá son Geirmundar hafa verið fenginn til að vera í forsvari fyrir félagið Fossvogshyl, og að inn í það hefðu verið settar eignir og stofnfjárbréf. Sagði hann það hafa bætt eiginfjárhlutfall sparisjóðsins að hafa stofnfjárbréf í hans eigu, inni í dótturfélagi sjóðsins.
„Við margfórum yfir þetta fyrirkomulag á stjórnarfundum. Þetta hafði auðvitað áhrif á stöðuna og þetta leit betur út fyrir okkur að þessar eignir væru þarna. Þetta er svosem ekkert nýtt á Íslandi.“
Þá sagði hann að honum hefði verið tjáð að Fossvogshylur væri í eigu sparisjóðsins.
Fram kemur í ákærunni að sama dag og stofnfjárbréfin voru skráð á Fossvogshyl hafi félagið verið framselt, frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte til sonar Geirmundar, Sverris Geirmundssonar.