Vissi ekki ástæðu ummæla sinna

SpKef-málið | 7. október 2016

Vissi ekki ástæðu ummæla sinna

Fyrrverandi endurskoðandi Sparisjóðsins í Keflavík sagðist fyrir dómi í dag ekki vita af hverju hann lét þau ummæli falla, í símtali árið 2011, að sonur sparisjóðsstjórans, Sverrir Geirmundsson, ætti engan hlut í félaginu Fossvogshyl.

Vissi ekki ástæðu ummæla sinna

SpKef-málið | 7. október 2016

Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, er ákærður fyrir umboðssvik.
Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, er ákærður fyrir umboðssvik. mbl.is/Sverrir

Fyrrverandi endurskoðandi Sparisjóðsins í Keflavík sagðist fyrir dómi í dag ekki vita af hverju hann lét þau ummæli falla, í símtali árið 2011, að sonur sparisjóðsstjórans, Sverrir Geirmundsson, ætti engan hlut í félaginu Fossvogshyl.

Fyrrverandi endurskoðandi Sparisjóðsins í Keflavík sagðist fyrir dómi í dag ekki vita af hverju hann lét þau ummæli falla, í símtali árið 2011, að sonur sparisjóðsstjórans, Sverrir Geirmundsson, ætti engan hlut í félaginu Fossvogshyl.

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Geirmundi Kristinssyni, fyrrverandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík, hélt áfram í dag.

Fyrir dóminn var leiddur sem vitni Páll Grétar Steingrímsson löggiltur endurskoðandi, sem sá um endurskoðun Sparisjóðsins í Keflavík fram til 2008.

Var hann fenginn til vitnisburðar um félagið Fossvogshyl, en að því er fram kemur í ákæru var það framselt syni Geirmundar, Sverri Geirmundssonar, sama dag og í það voru færð stofnfjárbréf að verðmæti tæplega 700 milljóna króna, úr dótturfélagi sparisjóðsins, Víkum.

Bað Sverri um að setjast í stjórn

Sagði Páll, líkt og áður hefur komið fram, að Fossvogshylur hafi í fyrstu verið svokallað skúffufélag í eigu Deloitte.

„Á lokametrunum við endurskoðun ársins 2007 kom fram beiðni frá Geirmundi um að fengið yrði frá þeim félag,“ sagði Páll en sagðist ekki muna hverjum félagið hefði þá verið framselt.

Hann hefði svo beðið Sverri um að setjast í stjórn félagsins, en báðir unnu þeir hjá Deloitte á þeim tíma. Hins vegar sagðist hann ekki muna eftir því hvernig hann hefði kynnt félagið fyrir Sverri, þ.e. hver væri eigandi þess. Félagið hefði þá verið laust við eignir þegar framsalið átti sér stað.

Spurður hver hefði ráðið yfir félaginu sagðist hann þó ekki vita það. Sparisjóðurinn hefði hins vegar greitt allan kostnað sem hlaut af rekstri þess.

Svo fór að sparisjóðurinn rann inn í Landsbankann árið 2011.
Svo fór að sparisjóðurinn rann inn í Landsbankann árið 2011. mbl.is/Víkurfréttir

Ekkert endurgjald fékkst fyrir bréfin

Sagðist hann þá þekkja til framsalssamnings, sem síðar var gerður til að færa félagið í eigu Sverris, og að hann teldi að Sverri hefði verið kunnugt um efni samningsins.

Spurður hvaða ástæða hefði verið fyrir því, að stofnfjárbréf í eigu Víkna voru færð í félagið Fossvogshyl á sama tíma, sagðist hann ekki vita það með vissu. „En ég hef hugsað það lengi.“

Vilji hefði þó staðið til þess að færa stofnfjárbréfin út úr samstæðu sparisjóðsins, mögulega til að bæta stöðu hans út á við.

Fram kemur í bókhaldi Víkna að ekkert endurgjald fékkst fyrir bréfin sem færð voru í Fossvogshyl, en skuld vegna þessa var færð í bækur Víkna.

„Átti engan hlut að máli“

Borin var að lokum undir Pál upptaka af símtali árið 2011 þar sem hann segir Sverri aldrei hafa átt hlut í félaginu. „Hann átti ekkert, átti engan hlut að máli,“ var meðal þess sem verjandi Geirmundar hafði eftir Páli úr upptökunni.

Sagðist Páll ekki vita af hverju hann hefði látið þessi orð falla.

mbl.is