Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, bar í dag vitni í Aurum-málinu sem flutt er í annað skiptið fyrir héraðsdómi. Sagði hann að miðað við samningaviðræður á sínum tíma hefði hann talið að fyrirtækið Damas frá Dubai hefði verið búið að samþykkja verðmat á Aurum upp á um 100 milljón pund. Viðræðurnar í framhaldinu hefðu tengst því hverjir ættu að sitja í stjórn og innkaupamálum félagsins.
Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, bar í dag vitni í Aurum-málinu sem flutt er í annað skiptið fyrir héraðsdómi. Sagði hann að miðað við samningaviðræður á sínum tíma hefði hann talið að fyrirtækið Damas frá Dubai hefði verið búið að samþykkja verðmat á Aurum upp á um 100 milljón pund. Viðræðurnar í framhaldinu hefðu tengst því hverjir ættu að sitja í stjórn og innkaupamálum félagsins.
Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, bar í dag vitni í Aurum-málinu sem flutt er í annað skiptið fyrir héraðsdómi. Sagði hann að miðað við samningaviðræður á sínum tíma hefði hann talið að fyrirtækið Damas frá Dubai hefði verið búið að samþykkja verðmat á Aurum upp á um 100 milljón pund. Viðræðurnar í framhaldinu hefðu tengst því hverjir ættu að sitja í stjórn og innkaupamálum félagsins.
Umrætt kaupverð er eitt af grunnatriðum dómsmálsins, en saksóknari telur að verðið hafi verið ofmetið og hefur gefið undir það að talan hafi í raun komið frá Baugi, sem á þessum tíma var stærsti hluthafi Aurum. Með því hafi grundvöllur verið gerður undir hærri lánveitingu frá Glitni banka þar sem 2,2 milljarðar runnu til seljanda umfram skuldir sem gera átti upp og einn milljarður áfram til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem er einn hinna ákærðu í málinu.
Ákærðu í málinu hafa aftur á móti sagt verðmatið vera eðlilegt og jafnvel vanmetið, til dæmis út frá væntingum um breytingar á rekstrinum ef til samlegðaráhrifa við rekstur Damas kæmi. Damas rak á þessum tíma skartgripaverslanir og framleiðslu en Aurum var sterkast í úrasölu. Hafa meðal annars fyrrverandi stjórnendur Aurum talið mikla möguleika í meiri skartgripasölu samhliða kaupum Damas á 30% hlut í Aurum.
Það var félagið Fons sem var að selja bréfin í Aurum, en Pálmi Haraldsson, eigandi Fons, og Jón Ásgeir, stjórnarformaður og einn eiganda Baugs, voru nánir viðskiptafélagar. Sem fyrr segir átti að selja Damas bréfin, en Glitnir lánaði aftur á móti félaginu FS38, dótturfélagi Fons, sex milljarða til að kaupa bréf Fons og átti svo að selja þau áfram til Damas.
Damas hætti aftur á móti við kaupin og hefur komið fram að stjórnendur þess töldu verðið of hátt. Verjendur ákærðu og stjórnendur í Baugi hafa aftur á móti bent á að á þeim tíma sem Damas hafi ákveðið að halda ekki áfram með kaupin hafi Lehman Brothers verið nýfallinn og fleiri bankar í vandamálum. Því hafi ekki verið óeðlilegt að kaupendur héldu að sér höndum.
Gunnar sagði við vitnaleiðslu í dag að almennt hefði verið erfiðast í samningaviðræðum við væntanlega kaupendur að ná samkomulagi um verð. Forsvarsmenn Damas hafi aftur á móti frá byrjun verið nokkuð sáttir við 100 milljóna verðlagningu á félaginu og haldið áfram út frá þeim forsendum. „Ég var ekki í neinum vafa að við myndum klára viðskiptin,“ sagði Gunnar. Rifjaði hann einnig upp síðasta fund hans með forsvarsmönnum Damas þar sem hann sagði að í lok fundar hefði hann talið að samningur um kaupin væri klár sem þyrfti bara samþykki stjórnar Damas.
Saksóknari hefur ítrekað spurt ákærðu og vitni í málinu um tölvupóst sem sendur var af Jóni Ásgeiri þar sem hann ræddi um hvað þyrfti að gera varðandi lánveitingar vegna málsins. Þar kemur meðal annars fram að með viðskiptunum verði gerð upp „öll mál vegna PH og Stím og allar skuldbindingar PH við Glitni þá komnar í lag“. Gunnar var einn þeirra sem fengu viðkomandi póst, en hann sagðist ekki vita hvað þarna væri átt við. PH er Pálmi Haraldsson.
Þá gat Gunnar heldur ekki svarað fyrir tvö bréf sem send voru 2. og 4. maí 2008 frá Jóni Ásgeiri til hans. Á þeim tíma hækkar lánsfjárhæðin úr fjórum milljörðum upp í sex milljarða. Gunnar sendi tillögur um málið áfram 6. maí til Lárusar Welding, bankastjóra Glitnis, en Gunnar sagði það hafa verið vegna fundar með Jóni Ásgeiri og Pálma þar sem hann hefði tekið niður punkta og verið beðinn um að senda áfram. Sagðist Gunnar aftur á móti ekki þekkja nákvæmlega til upphæðanna sem þar komu fram eða hvernig tillögurnar hefðu komið til.