Sagði ekki orð í tvö ár

Frá Sýrlandi til Evrópu | 27. nóvember 2016

Sagði ekki orð í tvö ár

Áður en stríðið hófst voru þau hamingjusöm fjölskylda í Damaskus en stríðið hefur eyðilagt allt, segir Hiba Al Jarki, sem kom hingað til lands í janúar. Fjölskyldan missti allt og upplifði hluti sem eru eiginlega of skelfilegir til þess að hægt sé að tala um þá. Enda hætti dóttir hennar að tala. 

Sagði ekki orð í tvö ár

Frá Sýrlandi til Evrópu | 27. nóvember 2016

Hiba Al Jaraki, Maria, Maher Al Habbal, Sara og Raiseh …
Hiba Al Jaraki, Maria, Maher Al Habbal, Sara og Raiseh Agha búa í Reykjavík og eru ánægð með dvölina á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áður en stríðið hófst voru þau hamingjusöm fjölskylda í Damaskus en stríðið hefur eyðilagt allt, segir Hiba Al Jarki, sem kom hingað til lands í janúar. Fjölskyldan missti allt og upplifði hluti sem eru eiginlega of skelfilegir til þess að hægt sé að tala um þá. Enda hætti dóttir hennar að tala. 

Áður en stríðið hófst voru þau hamingjusöm fjölskylda í Damaskus en stríðið hefur eyðilagt allt, segir Hiba Al Jarki, sem kom hingað til lands í janúar. Fjölskyldan missti allt og upplifði hluti sem eru eiginlega of skelfilegir til þess að hægt sé að tala um þá. Enda hætti dóttir hennar að tala. 

Hiba Al Jarki er 32 ára mannréttindalögfræðingur frá Damaskus í Sýrlandi. Hún og fjölskylda hennar eru meðal þeirra Sýrlendinga sem hingað hafa flúið undan stríðinu í heimalandinu. Stríði sem hófst í mars 2011, í sama mánuði og yngri dóttir þeirra hjóna, Sara, fæddist.

Systurnar Maria og Sara eru ánægðar í skólanum. Maria er …
Systurnar Maria og Sara eru ánægðar í skólanum. Maria er komin í grunnskóla en Sara er enn í leikskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lífið gekk sinn vanagang í Damaskus líkt og annars staðar í Sýrlandi fyrir stríð. Sama fjölskyldan hafði verið við völd í fjóra áratugi og réð öllu. Skipti engu um hvað málið snerist. Ekkert gerðist nema með leyfi frá fjölskyldu forsetans. Fjölskyldan stýrði olíulindum landsins og önnur verðmæt fyrirtæki voru í eigu einhvers innan fjölskyldunnar. Almenningur var vel menntaður en fékk hins vegar ekki að ráða því sjálfur hvar hann starfaði eða við hvaða símafyrirtæki hann skipti. Sú ákvörðun var í höndum stjórnvalda. 

Sýrland er lýðræðisríki ólíkt Sádi-Arabíu og að sögn Hibu hafa Sýrlendingar ekki áhuga á því að verða einræðisríki eins og Sádi-Arabía en þeir vilja að lýðræðið starfi eðlilega. Þannig var það ekki í Sýrlandi. Uppreisnin um miðjan mars 2011 spratt upp úr þessu „ólýðræði“.

Slakað á heima í stofu, systurnar Sara og Maria.
Slakað á heima í stofu, systurnar Sara og Maria. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk fór út á götur borga og bæja og krafðist mannréttinda og frelsis. Eitthvað sem þykir eðlilegt í lýðræðisríki, ekki blóð og ofbeldi heldur eðlilegt líf. En ekki í Sýrlandi.

Í fyrstu voru mótmælin að mestu látin óáreitt, að minnsta kosti á yfirborðinu, en svo var farið að skjóta á fólk sem vogaði sér að láta skoðanir sínar í ljós. Sagan er líka miklu lengri því fyrir stríð voru fangelsin líka full af fólki sem hafði vogað sér að vera í andstöðu í stjórnvöld. Fólk sem einfaldlega hvarf. Stríðið í Sýrlandi er í raun ekki stríð við vígasamtökin Ríki íslams heldur stríð sem forseti landsins fór í gegn eigin þjóð. Fólki sem var búið að fá nóg af kúgun og harðstjórn Assad-fjölskyldunnar.

Mæðgur, Maria, Hiba Al Jaraki, Sara og Raiseh Agha.
Mæðgur, Maria, Hiba Al Jaraki, Sara og Raiseh Agha. Eggert Jóhannesson

Nánast heil kynslóð karla horfin

Meðal þess sem Hiba starfaði við var að leita að fólki sem hafði horfið og segir hún að það vanti nánast heila kynslóð karlmanna í Sýrlandi. Eftir standi gamalmenni og börn. Ungir karlar finnast vart í landinu lengur.

Ástandið versnaði dag frá degi, hermenn út um allt sem fóru á milli heimila að leita að óæskilegu fólki. Á tveggja mánaða fresti bönkuðu þeir upp á og leituðu hátt og lágt á heimilum fólks. Þeir sem áttu einhver verðmæti urðu að afhenda þau. Ef reynt var að malda í móinn var viðkomandi einfaldlega fangelsaður eða drepinn á staðnum. Börnin lærðu fljótt að horfa niður og helst að hverfa inn í sig sjálf. Reyna að verða ósýnileg.

Maher Al Habbal hitti ekki dætur sínar í á annað …
Maher Al Habbal hitti ekki dætur sínar í á annað ár því þær urðu eftir í Sýrlandi ásamt móður sinni þegar hann lagði af stað í hættulegt ferðalag í þeirri von að geta bjargað lífi fjölskyldunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttinn daglegur gestur

Loftárásir hófust á hverfið sem Hiba bjó í ásamt eiginmanninum, Maher Al Abbal, og dætrum þeirra, Mariu og Söru árið 2012. Óttinn varð daglegur gestur, börn gátu ekki farið út úr húsi því það var of hættulegt.

Snemma að morgni einn daginn vöknuðu þau við hávaðann frá sprengjunum en engin viðvörun var send út til íbúa þá frekar en fyrri daginn. Ekkert varað við því að þessa nótt ætluðu stjórnvöld sér að drepa íbúana í þessu hverfi.

Maria og Sara með ömmu sinni, Raiseh Agha, en hún …
Maria og Sara með ömmu sinni, Raiseh Agha, en hún sameinaðist fjölskyldunni nýverið á Íslandi. Maðurinn hennar lést í Sýrlandi fyrir tveimur mánuðum síðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ein taska rúmaði allt þeirra líf

Hiba segir að þetta hafi verið skelfilegt og eiginlega ólýsanlegt. Hún greip dæturnar hvora undir sinn handlegginn og Maher tók töskuna sem þau voru alltaf með tilbúna við rúmið. Ein taska sem þyrfti að rúma allt þeirra líf. Það eina sem þau gætu tekið með sér ef þau þyrftu að flýja. Nokkrum mínútum síðar var heimili þeirra farið, aðeins rústirnar eftir.

Hiba segir að enginn sem ekki hafi upplifað þetta geti ímyndað sér hvernig það er að upplifa svona hluti. Þegar allt leikur á reiðiskjálfi á heimilinu og þú veist ekki hvort þetta er þín síðasta stund og ekki bara þín heldur allrar fjölskyldunnar. Hiba segir að það lýsi kannski óðagotinu ágætlega að hún hafi gripið farsímann sinn af borðinu og tekið með á flóttanum út úr húsinu. Það var ekki fyrr en síðar um daginn að hún uppgötvaði að það var ekki síminn sem hún hafði tekið með heldur tækið sem notað er til þess að kveikja á gasinu.

Þær eru ánægðar með að hafa fengið ömmu til sín …
Þær eru ánægðar með að hafa fengið ömmu til sín til Íslands, Maria, Raiseh Agha og Sara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lík eins og hráviði á götunni

Allt of hættulegt var að fara á bílnum enda bíll auðveldara skotmark en fjölskylda á hlaupum þannig að þau tóku á rás og hlupu og hlupu. Allt í kringum þau lá dáið fólk eins og hráviði. Hús rústir einar. Hún minnist þess að maður sem lá í götunni hafi spurt þau hvort það væri eitthvað athugavert við hann því það horfðu allir svo undarlega á hann. Þau gátu ekki sagt neitt því þau vissu að þessu maður var að deyja, höfuðkúpan var að mestu horfin og aðeins nokkrar mínútur eftir í lífi þessa manns. Það eina sem þau gátu gert var að hlaupa áfram. Þetta var í lok ágúst 2012, einu og hálfu ári eftir að stríðið hófst.

„Að þurfa að halda áfram og virða hjálparbeiðni deyjandi fólks að vettugi er eitthvað sem maður gleymir aldrei á meðan maður lifir. Lyktin, reykurinn og hryllingurinn. Þetta hverfur aldrei,“ segir Hiba.

Hér má sjá aðra fjölskylduna, föðurinn Maher Al Habbal, eiginkonu …
Hér má sjá aðra fjölskylduna, föðurinn Maher Al Habbal, eiginkonu hans Hibu og dæturnar Sara og Maria. Ljósmynd/Rauði Krossinn

Fjölskyldan flutti á heimili móður hennar, Raiseh Agha, í öðru hverfi Damaskus og þar voru þau í tvö mánuði. Þá var farið að sprengja það hverfi og flóttinn hófst á nýjan leik.

Meðal þeirra sem sennilega jafna sig aldrei er Maria dóttir Hibu og Maher. Hún sá of mikið, segir Hiba en Maria hætti að tala í tvö ár. Ekki orð bara höfuðhreyfingar þegar hún svaraði fólki, já eða nei. Hiba og Maher reyndu allt til þess að fá bestu mögulegu þjónustu fyrir dóttur sína innanlands en að lokum ákvað Hiba að fara með hana á sjúkrahús í nágrannaríkinu Líbanon þar sem heilbrigðisþjónusta er allt önnur enda ekki stríðshrjáð land um þessar mundir. 

Svona er umhorfs í borginni þeirra í Sýrlandi. Enda sjá …
Svona er umhorfs í borginni þeirra í Sýrlandi. Enda sjá þau ekki fyrir sér að geta nokkurn tíma flutt til Sýrlands aftur. AFP

Ekkert pláss í flóttamannabúðunum og þau óvelkomin alls staðar

Spurð hvort þær mæðgur hafi farið í flóttamannabúðir í Líbanon segir Hiba að svo hafi ekki verið enda ekkert pláss fyrir þær þar. Íbúar í Líbanon hafi í raun verið búnir að fá nóg af þessum nágrönnum sínum frá Sýrlandi sem komu yfir landamærin. Líbanon er lítið land og erfitt að fá vinnu og húsnæði. Talið er að þar sé um ein og hálf milljón flóttamanna frá Sýrlandi en íbúar Líbanon voru innan við 4,4 milljónir árið 2011. 

Hún segir að það hafi hins vegar verið sárt að upplifa það að vera óvelkomin. Þegar stríðið hófst í Líbanon á sínum tíma hafi Sýrlendingum þótt eðlilegt að opna heimili sín fyrir fólki á flótta. Á hennar heimili hafi fólk þaðan fengið bæði húsaskjól og fæði án þess að þurfa að greiða eyri fyrir það. Gestrisni sé sjálfsögð í þeirra huga. Þetta sé í raun það sama og hafi mætt sýrlenskum flóttamönnum alls staðar. Landamærum helst skellt í lás og vandamálið sagt einhverra annarra. „Við erum að tala um fólk, hvar er mannúðin?“ spyr Hiba.

Skór sýrlensks drengs sjást hér við hliðina á líki hans …
Skór sýrlensks drengs sjást hér við hliðina á líki hans í líkhúsinu en hann lést í loftárás stjórnarhersins á bæinn Douma í útjaðri höfuðborgarinnar, Damaskus á föstudaginn. AFP

Að sögn Hibu átti hún persónulega auðvelt með að komast til og frá Sýrlandi vegna ferðapappíra sem hún hafði vegna starfs síns. Hið sama hafi átt við um dæturnar. Hún hafi því farið ítrekað með Mariu til læknis í Líbanon. En þetta hafi verið mjög kostnaðarsamt en skilað árangri því tveimur árum síðar fór Maria að tala aftur.

Árið 2013 fóru þau að íhuga leið fyrir fjölskylduna til að komast í burtu frá stríðinu og að Maher færi einn af stað en þar sem þau áttu enga peninga þá lagði hann ekki upp í ferðalagið fyrr en árið 2014. Það kostaði hann 4 þúsund Bandaríkjadala, um hálfa milljón króna, að fá heimild til þess að fara til Alsír en bróðir hans býr þar. Frá Sýrlandi fór Maher til Líbanon, Jórdaníu, Alsír og svo að lokum til Líbíu.

Það borgar sig að hlaupa hratt þegar farið er út …
Það borgar sig að hlaupa hratt þegar farið er út í Sýrlandi enda loftárásir daglegt brauð. AFP

Hiba segir að Líbía sé skelfilegt land að öllu leyti. Enginn sé öruggur þar – og síst þeir sem eru á flótta og ætli sér að reyna að komast frá Líbíu til Evrópu. Í 20 daga var hann í felum ásamt hópi fólks og þau fengu lítið sem ekkert að borða og gátu aldrei farið út úr húsi. Það voru smyglararnir sem Maher hafði keypt far með yfir Miðjarðarhafið sem földu flóttafólkið í Líbíu. Þeir hafi átt að sjá um að færa hópnum eitthvað að borða en til að mynda hafi það bara alveg gleymst tvo daga í röð og það voru mörg börn í hópnum. Enginn vissi neitt – var búið að gleyma þeim eða yfirgefa þau?

AFP

Ekki tók betra við þegar í bátinn var komið. Báturinn var mjög gamall og lítill. Alls var 300 manns komið fyrir um borð en báturinn rúmaði mesta lagi 70. „Þú getur rétt ímyndað þér hvernig þetta var,“ segir Hiba.  

Eftir þriggja eða fjögurra klukkutíma siglingu kom í ljós að báturinn var bilaður og hringdu stjórnendur um borð í sína menn í landi til þess að láta þá vita að vélin væri biluð. Þeir helltu vatni í vélina sem þýddi aðeins eitt – báturinn sökk. En stjórnendur flóttabátsins voru fljótir að láta sig hverfa og Hiba segir að Maher hafi horft á þá agndofa hverfa út fyrir sjóndeildarhringinn.

AFP

Sálræn sár hverfa seint

Maher var einn fárra sem voru í björgunarvesti og meðal ferðafélaga hans var lítil stúlka sem hann hafði reynt að styðja í bátnum. Hún var sannfærð um að þetta væri sín síðasta stund og grátbað Maher um að taka sig með. Hann gat ekki hugsað sér að skilja hana eftir til að deyja og synti með hana í fanginu en eftir tvo tíma í sjónum var hún hætt að hreyfa sig og tala, hún var dáin. Hann reyndi árangurslaust að lífga hana við og hann varð að skilja hana eftir á reki í sjónum. Fyrstu mánuðina á eftir gat hann ekki minnst á þetta og þegar Maher komst hingað til Íslands var hann illa farinn á sálinni. Hann hefur hins vegar fengið góða sálræna aðstoð á Íslandi og er farinn að geta talað um hluti sem hann upplifi en það gat hann ekki fyrr en eftir langan tíma og mikla hjálp.

Særður sýrlenskur drengur bíður eftir læknishjálp í Douma, austur af …
Særður sýrlenskur drengur bíður eftir læknishjálp í Douma, austur af Damaskus eftir loftárásir stjórnarhersins í Sýrlandi. AFP

Eftir fjögurra tíma sund komst Maher loks að landi en um tíma vildi hann bara deyja og var í raun nánast farinn yfir móðuna miklu. Hvað það var sem vakti hann veit hann ekki en það var eitthvað sem gaf honum þrek til þess að ná landi þar sem hann sá ljóstýru frá vita.

Þar tók við 20 daga bið á nýju en hann vildi ekki fara aftur til Sýrlands þrátt fyrir að Hiba hafi grátbeðið hann um að koma aftur þeim. Hún vildi frekar að þau myndu deyja saman þar heldur en að vita af honum í votri gröf Miðjarðarhafsins. En það kom ekki til greina í huga Maher. Hann vildi reyna að komast sem lengst frá Sýrlandi sem á þessum tíma var orðið helvíti á jörð. Hann hringdi á hverjum morgni til þess að athuga hvort fjölskyldan væri á lífi. Hann vildi vernda okkur og það tók skelfilega á hann að vita af mér og dætrum okkar enn í Sýrlandi. En ég varð að vinna svo ég gæti borgað húsaleigu og framfleitt okkur. Það var ekkert annað í boði.“

Frá borginni Palmyra eftir Ríki íslams.
Frá borginni Palmyra eftir Ríki íslams. AFP

Sá flótti tókst betur og var honum bjargað á land af ítölsku strandgæslunni. Þar héldu erfiðleikarnir áfram því ítölsk yfirvöld kröfðu hann um fingraför. Var það undir því yfirskyni að kanna hvort hann væri á skrá sem glæpamaður sem hann var ekki. Maher vildi hins vegar ekki setjast að á Ítalíu enda hefði verið vonlaust fyrir hann að fá fjölskylduna til hans þar. Aðbúnaður flóttafólks er skelfilegur á Ítalíu og fátt sem bíður þeirra annað en gatan. En þeir fengu fingraför hans að lokum. Það var gert með því að láta hann afklæðast og vera í herbergi með fleiri nöktum mönnum og inn í herbergið komu lögreglumenn með hunda. Maher ákvað að gefa þeim fingraför sín eftir þetta.

Mannúðarsamtökin Amnesty International gáfu nýverið út skýrslu um hvernig tekið er á móti flóttamönnum á Ítalíu þar sem öllum ráðum er beitt til þess að þvinga fólk til að láta fingraför sín.

Skýrsla Amnesty International

Samkvæmt tilmælum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem kynnt voru árið 2015, er ítölskum stjórnvöldum skylt að taka fingraför allra flóttamanna sem koma til landsins. Þeir sem vilja hins vegar sækja um hæli í öðru Evrópuríki, ef til vill vegna þess að ættingjar þeirra eru þar fyrir, eiga hagsmuna að gæta að forðast slíka skráningu vegna hættunnar á að verða endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Vegna þrýstings frá löndum og stofnunum Evrópusambandsins hafa ítölsk stjórnvöld gripið til þvingunaraðgerða til ná fingraförum fólks. Amnesty International skráði fjölda frásagna um varðhald af geðþóttaástæðum og óhóflega valdbeitingu til þvinga karlmenn, konur og börn, sem eru nýkomin til landsins, að láta fingraför sín í té.

Synjað um hæli á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar

Maher Al Habbal, sem er 38 ára gamall og klæðskeri að mennt, fór inn á netið eftir að hann kom til Ítalíu og fór að leita að mögulegum stað fyrir sig og fjölskyldu sína. Þegar hann leitaði að friðsælum stað kom Ísland upp, hér væri enginn her og engin olía sem gæti kynnt undir ófrið. Hann tók því stefnuna á Ísland og kom hingað til lands í nóvember 2014 og sótti um hæli.

Honum var synjað um hæli af Útlendingastofnun á grundvelli þess að hafa látið yfirvöldum í té fingraför sín. Kærunefnd útlendingamála sneri hins vegar ákvörðun Útlendingastofnunar við á grundvelli þess að hann væri svo illa haldinn af áfallastreituröskun eftir flóttann þannig að mannúðarsjónarmið réðu för í ákvörðun kærunefndarinnar. 

RÚV hefur fjallað um mál Mahers og flótta hans yfir hafið en á vef RÚV í júlí 2015 kom fram að Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun um að senda hann til Ítalíu þar sem Ítalía var talin bera ábyrgð á hælisumsókninni á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar svokölluðu. „Kærunefnd útlendingamála hefur nú fellt þá ákvörðun úr gildi og hefur gert Útlendingastofnun að taka málið til efnislegrar meðferðar,“ segir Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá hælisteymi RKÍ, í samtali við RÚV í júlí 2015. 

Eftir að Maher var veitt hæli hófst barátta hans fyrir því að fá fjölskylduna til Íslands og er Hiba afar þakklát Rauða krossinum fyrir þeirra aðstoð allt frá því að Maher kom hingað.

Í janúar 2016 sameinaðist fjölskyldan á Íslandi, en þá voru liðnir um átján mánuðir síðan Maher hitti eiginkonu sína og dætur, Mariu og Söru. Móðir Hibu, Raiseh Agha, kom síðan til þeirra fyrir tæpum tveimur mánuðum en faðir Hibu lést fyrir tveimur mánuðum í Sýrlandi.

„Þeir eyddu sögunni“

Fjölskyldan hefur komið sér fyrir og býr í lítilli íbúð í fjölbýlishúsi. Þau eru bæði komin með vinnu og Maria er í skóla og Sara er á leikskóla. Þeim líður vel hérna á Íslandi og segir Hiba að Íslendingar megi ekki gleyma því hvað þeir hafi það gott miðað við svo marga aðra. Hér sé ekkert stríð og hér fái allir að ganga í skóla.

Í Sýrlandi eru nánast engir skólar starfandi og Hiba á ekki von á því að þau muni nokkurn tíma flytja aftur til Sýrlands. Heimalandsins sem er rústir einar eftir tæplega sex ára stríð. Sögufrægar minjar sem marka upphaf heimssögunnar eru orðnar að dufti og væntanlega muni hvorki þeim hjónunum né dætrunum endast ævin til þess að sjá Sýrland rísa upp úr öskustónni á nýjan leik. „Þeir eyddu sögunni. Fornminjar sem eru jafnvel 12 þúsund ára gamlar voru eyðilagðar. Við getum ekki snúið aftur.“

Hún minnir á Líbíu. Þar sé ástandið eiginlega verra eftir fall einræðisherrans og samt er eyðileggingin mun minni þar heldur en í Sýrlandi. Hiba á tvo bræður og tvær systur sem búa í Damaskus og er í miklu sambandi við þau en vandamálin eru gríðarleg. Sprengingar og skotárásir eru daglegt brauð. Börnin eru hungruð og þjást af alls konar sjúkdómum, bæði líkamlegum og andlegum. Fjöldi fólks er aflimað eftir stríðið. Það er enginn staður öruggur og börn eru berskjölduð enda mörg án foreldra og búa á götum úti og reyna að framfleyta sér með betli eða götusölu.

„Við erum bara venjuleg friðsöm fjölskylda sem vill ekki taka þátt í stríði eða öðrum blóðsúthellingum. Við viljum njóta frelsis sem á að felst í lýðræðinu,“ segir Hiba Al Jaraki sem er ánægð á Íslandi og finnst jafnvel veðrið fínt, svona fyrir utan rokið, segir hún og hlær þegar blaðamaður fer að kvarta yfir veðráttunni. 

mbl.is