Boðar skýrslu um tölvuárásir

Boðar skýrslu um tölvuárásir

Donald Trump heitir því að gefa út skýrslu innan þriggja mánaða í tengslum við ásakanir um að tölvuárásir Rússa á meðan kosningabaráttan stóð sem hæst í Bandaríkjunum í fyrra.

Boðar skýrslu um tölvuárásir

Forsetakosningar í Bandaríkjunum 2016 | 13. janúar 2017

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna og Vladimir Putin forseti Rússlands.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna og Vladimir Putin forseti Rússlands. AFP

Donald Trump heitir því að gefa út skýrslu innan þriggja mánaða í tengslum við ásakanir um að tölvuárásir Rússa á meðan kosningabaráttan stóð sem hæst í Bandaríkjunum í fyrra.

Donald Trump heitir því að gefa út skýrslu innan þriggja mánaða í tengslum við ásakanir um að tölvuárásir Rússa á meðan kosningabaráttan stóð sem hæst í Bandaríkjunum í fyrra.

Trump hét þessu á Twitter en hann hefur birt nokkrar færslur á Twitter í morgun þar sem hann talar um lygafréttir sem skáldaðar eru upp af óþverrum í pólitískum tilgangi.

Leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa sakað Rússa um að hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna með því að brjótast inn í tölvur demókrata.

Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur svarað óstaðfestum ásökunum, sem komið hafa fram í fjölmiðlum vestra, um að rússneskir leyniþjónustumenn hefðu safnað upplýsingum, sem gætu skaðað hann, og að aðstoðarmenn hans hefðu haft leynileg samskipti við fulltrúa stjórnvalda í Kreml. Talsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta sagði að ekkert væri hæft í þessum ásökunum og að markmiðið með þeim væri „augljóslega að skaða tengslin“ milli landanna tveggja.

Í gær sagði Trump að James Clapper, sem er framkvæmdastjóri National Intelligence, hefði hringt í sig og fordæmt upplognar og skáldaðar fréttir um rússneskar skýrslur um Trump sem var lekið til fjölmiðla fyrr í vikunni.

Clapper hefur hins vegar sagt að hann hafi upplýst Trump um að enn sem komið er hafi ekki verið lagt mat á áreiðanleika fréttanna, segir BBC.


Í frétt Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í gær var farið yfir málið, viðbrögð Trumps og Rússa.

„UPPSPUNNAR FRÉTTIR – ALGERAR PÓLITÍSKAR NORNAVEIÐAR,“ tísti Trump á Twitter um ásakanirnar. „Rússar hafa aldrei reynt að hafa áhrif á mig. ÉG TENGIST Á ENGAN HÁTT RÚSSLANDI — ENGIR SAMNINGAR, ENGIN LÁN, EKKI NEITT!“ sagði hann. „Leyniþjónustustofnanirnar hefðu aldrei átt að leyfa að þessum uppspunnu fréttum yrði lekið. Síðasta skotið á mig. Búum við í Þýskalandi nasismans?“

CNN-sjónvarpið og The New York Times sögðu að ásakanirnar kæmu fram í tveggja síðna samantekt sem yfirmenn bandarískra leyniþjónustustofnana og alríkislögreglunnar FBI hefðu afhent Trump og Barack Obama, fráfarandi forseta, í vikunni sem leið. Hermt er að leiðtogar repúblikana og demókrata á þinginu og formenn leyniþjónustunefnda þess hafi einnig fengið samantektina.

 Skjöl frá fyrrverandi njósnara

Samantektin byggist á 35 síðna trúnaðarskjölum sem bandaríski fréttavefurinn BuzzFeed hefur birt á netinu. Hermt er að skjölin komi frá fyrrverandi njósnara bresku leyniþjónustunnar MI6 sem starfaði lengi í Rússlandi en rekur núna njósnafyrirtæki. Keppinautar Trumps í forkosningum repúblikana fengu fyrst fyrirtækið til að afla upplýsinga um tengsl hans við Rússa og það hélt rannsókninni áfram fyrir demókrata eftir að hann varð forsetaefni repúblikana. CNN segir að bandarískar leyniþjónustustofnanir hafi kannað starfsemi breska leyniþjónustumannsins fyrrverandi og komist að þeirri niðurstöðu að hún væri nógu trúverðug til að láta sumar af ásökunum hans fylgja með þeim upplýsingum sem Trump og Obama voru veittar. The New York Times segir að leyniþjónustustofnanirnar hafi komist að þeirri niðurstöðu að ásakanirnar séu svo alvarlegar að ástæða sé til að rannsaka þær. Ákveðið hafi því verið að greina Obama, Trump og leiðtogum þingsins frá rannsókninni.

 „Gullregn“ í forsetasvítu

Leyniþjónustustofnanirnar hafa ekki staðfest upplýsingarnar sem koma fram í skjölunum og BuzzFeed segir að í þeim séu nokkrar augljósar staðreyndavillur. Í sumum tilvikum sé ógerningur að sannreyna ásakanirnar.

Í skjölunum segir að stjórnvöld í Rússlandi hafi haft samskipti við Trump í að minnsta kosti fimm ár og stutt hann með það að markmiði að valda klofningi og ágreiningi meðal vestrænna samstarfsríkja Bandaríkjastjórnar.

Sagt er að rússneskir leyniþjónustumenn hafi einsett sér að afla upplýsinga um einkalíf og fjármál hans, m.a. „kynferðislegan öfuguggahátt“, með það fyrir augum að geta notað þær síðar til að „kúga hann“ til hlýðni eða hafa áhrif á stefnu hans. Trump er sagður hafa gist í forsetasvítu Ritz Carlton-hótelsins í Moskvu þar sem hann hafi vitað að Obama og eiginkona hans gistu þegar þau voru í opinberri heimsókn í Rússlandi. Fullyrt er að rússnesku leyniþjónustumennirnir hafi falið hljóðnema og myndavélar í svítunni og tekið myndir af Trump gamna sér með vændiskonum. Hann hafi fengið þær til að búa til svokallað „gullregn“ með því að pissa fyrir framan hann í rúminu.

 Trump sagður hafa samþykkt tölvuinnbrot Rússa

Í skjölunum er því einnig haldið fram að rússneskir embættismenn hafi boðið Trump arðvænlega viðskiptasamninga, að því virðist til að múta honum, en hann hafi afþakkað það. Fullyrt er að fulltrúar Trumps og rússneskir embættismenn hafi átt nokkra leynilega fundi á síðasta ári fyrir forsetakosningarnar 8. nóvember. Ennfremur er því haldið fram að Rússar hafi brotist inn í tölvukerfi demókrata og lekið upplýsingum til að hafa áhrif á forsetakosningarnar „með fullri vitneskju og samþykki Trumps“ og nánustu samstarfsmanna hans. Markmiðið hafi verið að hjálpa Trump í kosningabaráttunni og hann hafi endurgoldið aðstoðina með því að beina athyglinni frá hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu með yfirlýsingum sínum um varnarskuldbindingar Bandaríkjanna og NATO gagnvart Eystrasaltsríkjum og Austur-Evrópulöndum.

Á meðal þeirra sem fullyrt er að hafi átt fundi með rússneskum embættismönnum er lögmaður og ráðgjafi Trumps, Michael Cohen, sem er sagður hafa farið til Prag í ágúst eða september sl. til að ræða við fulltrúa Pútíns. Cohen neitaði þessu í yfirlýsingu á Twitter. „Ég hef aldrei á ævinni farið til Prag,“ sagði hann.



mbl.is