Íbúar Suður-Súdan eru að týna tölunni. Þeir eru að deyja úr hungri. Hungursneyðin sem nú geisar er af mannavöldum.
Íbúar Suður-Súdan eru að týna tölunni. Þeir eru að deyja úr hungri. Hungursneyðin sem nú geisar er af mannavöldum.
Íbúar Suður-Súdan eru að týna tölunni. Þeir eru að deyja úr hungri. Hungursneyðin sem nú geisar er af mannavöldum.
Í dag var formlega lýst yfir hungursneyð en það hefur ekki verið gert í heiminum síðan árið 2011. Ástandið er misjafnt eftir landshlutum en verst er það í Unity-ríki í norðurhluta landsins. Um fimm milljónir manna leggjast svangar til hvílu dag hvern. Um 100.000 manns eru í hættu á að deyja úr hungri. Ástandið gæti versnað til muna á næstu mánuðum verði ekkert að gert.
Flýja grimmd og leita vonar.„Þegar hungursneyð er lýst formlega yfir þýðir það að fólk er farið að deyja úr hungri,“ segir í yfirlýsingu þriggja stofnanna, UNICEF, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hefur ástandið ekki verið verra frá því blóðug borgarastyrjöld hófst í landinu fyrir meira en þremur árum.
Suður-Súdan er yngsta ríki heims. Borgarastríðið sem þar hefur geisað í meira en þrjú ár á sér pólitískar rætur og hófst eftir að forsetinn Salva Kiir ásakaði andstæðing sinn Riek Machar um að vera að undirbúa valdarán.
Í ágúst árið 2015 náðist friðarsamkomulag. Það entist þó stutt og í júlí í fyrra hófust átökin af hörku að nýju, m.a. í höfuðborginni Juba.
Tvær þjóðir deila í landinu, Dinkar, sem eru stuðningsmenn Kiir, og Nuerar sem styðja Machar. Átök hafa brotist út víðs vegar um landið og fleiri þjóðarbrot orðið þátttakendur í borgarastyrjöldinni.
Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að ástandið geti jafnast á við þjóðarmorð. Engin merki um frið eru sjáanleg.
Unity-ríki er ríkt af olíu. Nuerar eru þar fjölmennastir og ríkið er fæðingarstaður Machars. Þar hafa deilurnar og átökin verið hvað hörðust og hefur svæðið ýmist verið á valdi ríkisstjórnarinnar eða uppreisnarmanna.
Margir samverkandi þættir hafa skapað hungursneyðina, að sögn Isaiah Chol Aruai, forstjóra Hagstofu Suður-Súdan. Stríðið eigi þar stærstan þátt því það hafi orsakað hátt matarverð, efnahagskreppu, minni matarframleiðslu og auk þess ógnað lífsviðurværi og tækifærum íbúanna almennt. Allt þetta hefur orðið til þess að 4,9 milljónir íbúa landsins búa við hungur eða um 42% þjóðarinnar.
„Þetta vandamál er af mannavöldum,“ segir Eugene Owusu, yfirmaður mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan. Hann segir þá staðreynd hrikalega. „Allir þessir þættir hafa verið til staðar um tíma og við vissum öll að við værum að stefna í meiri háttar matvælaskort.“
Hjálparstarfsmenn fá ekki að vinna starf sitt í friði í landinu. Á þá hefur verið ráðist og þeir rændir. Hópur þeirra varð frá að hverfa í september í fyrra þar sem átök mögnuðust skyndilega.
Ástandið versnar hratt og spár mannúðarsamtaka og stofnana gera ráð fyrr að í júlí verði um 5,5 milljónir íbúa hungraðar, verði ekkert að gert.
„Margar fjölskyldur eru komnar að þolmörkum og hafa reynt allar leiðir til að komast af,“ segir Serge Tissot, talsmaður FAO í Suður-Súdan.
Íbúarnir eru bændur upp til hópa og stríðið hefur haft gríðarleg áhrif á störf þeirra og uppskeru alla. Skepnurnar hafa drepist og verkfærum þeirra hefur verið stolið.
Þessi manngerða hungursneyð bætir gráu ofan á svart í þessum heimshluta því mörg lönd, s.s. Úganda, Kenía og Malaví, hafa glímt við þurrka síðustu tvö ár sem raktir eru til loftslagsbreytinga.
Hungursneyð braust síðast út í heimshlutanum árið 2011 og felldi þá 260 þúsund Sómali. Horfur í því landi eru daprar um þessar mundir og talin er hætta á annarri hungursneyð þar í ár bregðist rigning á regntímanum enn einu sinni.