Leiðréttingin heppnaðist „frábærlega“

Leiðréttingin heppnaðist „frábærlega“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að leiðréttingin hafi heppnast frábærlega vel. Hún hafi jafnframt aldrei verið hugsuð sem tekjujöfnunaraðgerð. „Þegar vel er að gáð má sjá að við höfum náð langtum meiri árangri en aðrir sem sitja eftir með miklar skuldir hjá heimilum víða um Norðurlöndin,“ sagði Bjarni í umræðu á Alþingi um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

Leiðréttingin heppnaðist „frábærlega“

Skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar | 21. febrúar 2017

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að leiðréttingin hafi heppnast frábærlega vel. Hún hafi jafnframt aldrei verið hugsuð sem tekjujöfnunaraðgerð. „Þegar vel er að gáð má sjá að við höfum náð langtum meiri árangri en aðrir sem sitja eftir með miklar skuldir hjá heimilum víða um Norðurlöndin,“ sagði Bjarni í umræðu á Alþingi um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að leiðréttingin hafi heppnast frábærlega vel. Hún hafi jafnframt aldrei verið hugsuð sem tekjujöfnunaraðgerð. „Þegar vel er að gáð má sjá að við höfum náð langtum meiri árangri en aðrir sem sitja eftir með miklar skuldir hjá heimilum víða um Norðurlöndin,“ sagði Bjarni í umræðu á Alþingi um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

Hann talaði um þau rök sem voru að baki ákvörðuninni um að ráðast í leiðréttinguna. Meðal annars voru þau efnhagsleg vegna hárrar skuldsetningar heimila sem dró úr krafti í efnahagslífinu.

„Þetta var aldrei hugsað sem tekjujöfnunaraðgerð. Þetta hlaut að vera aðgerð sem var beint að þeim sem skulduðu.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var málshefjandi. Hún var á meðal þeirra sem óskuðu eftir skýrslunni 15. október 2015. Talaði hún um að það væri í raun sérstakt umræðuefni hversu langan tíma tók að setja þessa 8 blaðsíðna skýrslu saman, eða 19 mánuði.

„Einhverjir hafa sagt að það hafi ekki verið þörf á þessari skýrslu en það var tekin ákvörðun um að dreifa hátt í 80 milljörðum til landsmanna. Það er full ástæða til að ræða hvernig til tókst,“ sagði hún og nefndi að þau 10% landsmanna sem höfðu hæstar tekjur fengu um 30% af þeim 72 milljörðum sem var veitt í aðgerðinni.  

Katrín benti á aldursskiptinguna í leiðréttingunni. Þeir einstaklingar sem eru 56 ára og eldri hafi fengið 26,4 milljarða af hinum 72 milljörðum. „Unga fólkið sat eftir og við þingmenn fáum stanslaust bréf, spurningar og fyrirspurnir frá ungu fólki sem er að glíma við húsnæðismarkaðinn núna. Það bíður eftir að úrræði líti dagsins ljós á leigumarkaði eða á eignamarkaði.“

Hún bætti við að ekkert sé minnst á stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaðnum í stjórnarsáttmálanum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Viktor Orri Valgarðsson, þingmaður Pírata, tók til máls á eftir Bjarna og sagði mikilvægt að Alþingi fái að taka afstöðu til vinnubragða síðustu ríkisstjórnar. „Fyrir mér voru alþingiskosningarnar 2013 keyptar kosningar,“ sagði hann og spurði í leiðinni hvort leiðréttingin setji ekki fordæmi um að 17% hækkun húsnæðisverðs síðasta árs verði einnig leiðrétt. Hvort þau sem ekki hafi átt húsnæði fái ekki peninga til baka frá ríkisstjórninni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins sem var forsætisráðherra þegar leiðréttingin var framkvæmd, kvaðst sammála því að skýrslan hefði átt að vera birt mun fyrr.

Sigmundur Davíð taldi að verið væri að afvegaleiða umræðuna og að nálgunin væri fráleit. „Uppleggið hjá málshefjanda er þetta: 16 ára unglingur býr í heimahúsi. Hann er í skóla, ekki með neinar tekjur, ekki með lán og ekki með húsnæði. Hann fékk ekkert út úr skuldaleiðréttingunni en hjón með fjögur börn sem eru í tvöfaldri vinnu þau fengu miklu meira en unglingurinn,“ sagði hann og nefndi að Vinstri grænir  og „félagar þeirra“ tali um réttlæti og sanngirni. Á sama tíma virðist sem þá skorti skilning á því í hvað þeim hugtökum felst.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að leiðréttingin hafi verið dýru verði keypt. Núna sé að koma í ljós í skoðanakönnunum að fólk sé óánægt með hvernig gæðunum er skipt.

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði að fjármunir hafi verið teknir úr ríkissjóði og notaðir til tekjuhæstu einstaklinganna í samfélaginu. „Milljarðar og milljarðatugir fóru til tekjuhæstu laganna í samfélaginu. Hundruð fjölskyldna sem borguðu auðlegðarskatt fengu niðurfærslu skulda sinna,“ sagði Steingrímur.

Hann sagði ekki hægt að bera leiðréttinguna saman við greiðslu vaxtabóta eða 110% leiðina eins og Bjarni Benediktsson nefndi í sinni ræðu.

„Ráðstöfun opinberra fjármuna verður að standast kröfur um jafnræði og sanngirni og það gerði þessi aðgerð ekki. Hún er félagslegur píramídi á hvolfi,“ sagði hann og bætti við að skýrslan sjálf væri hneyksli.

Smári McCarthy.
Smári McCarthy. mbl.is/Eggert

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sagði að rúmlega 21 milljarður króna hafi endað í vösum 30% ríkustu Íslendinganna í leiðréttingunni.

„Þeir peningar sem voru færðir úr ríkissjóði í vasa mestmegnis ríks fólks skiluðu sér að langstærstum hluta til þess helmings þjóðarinnar sem hafði mestar tekjur,“ sagði hann. „Þessi stefna er kommúnismi fyrir hina ríku en kapítalismi fyrir hina fátæku.“

Hann hélt áfram: Við verðum að halda því til haga að þetta er ekki leiðrétting. Við verðum að kalla þetta einkavæðingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, sem er það sem þetta var.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að leiðréttingin sé ein farsælasta aðgerð sem ráðist hefur verið í fyrir íslensk heimili. Um sé að ræða sannkallaða millistéttaraðgerð.

„Hver var staðan árið 2009? Það gleymist nefnilega oft að skuldir heimilanna voru komnar í 126% af landsframleiðslu,“ sagði Lilja.

„Ég veit að það er stundum svolítið sárt fyrir Vinstri græna að rifja upp 110% leiðina,“ sagði hún og nefndi að um 1% heimilanna hafi fengið um helming þeirrar niðurfærslu. „Meðalleiðréttingin í leiðréttingunni var 1,2 milljónir. Leiðréttingin var almenn aðgerð.“

Hún bætti við að hagur heimilanna hafi sjaldan verið betri en nú. Skuldir heimilanna hafi ekki verið lægri í aldarfjórðung.

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson héldu blaðamannafund í desember …
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson héldu blaðamannafund í desember 2014 þar sem skuldaleiðréttingin var kynnt. mbl.is/Ómar

Katrín Jakobsdóttir tók aftur til máls og sagðist undrandi á því að fulltrúar Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafi ekki tekið þátt í umræðunni. Hún talaði um að leiðréttingin hafi verið ójafnaðaraðgerð. „Þeir sem fengu mest voru þeir sem voru með hæstu tekjurnar og mestar eignir. Það snýst ekki um að afvegaleiða umræðuna heldur að horfa á staðreyndir.“

Bjarni Benediktsson tók síðastur til máls og sagði það ekki trufla sig að fjármunir fari frá ríkissjóði til heimila í landinu. „Hér er fullyrt að bróðurpartur aðgerðanna hafi farið til ríkasta fólksins, þetta er alrangt. Ef við skoðum það mengi sem fékk hlutdeild í þessari aðgerð þá fóru 24% til heimila með innan við 4 milljónir í árstekjur, 19% til heimila með 4-6 milljónir í árstekjur. Meirihlutinn fór til heimila sem voru með árstekjur undir 8 milljónum króna,“ sagði hann.

Bjarni nefndi einnig að fjölmargt hafi verið gert í húsnæðismálum undanfarin ár og vísaði gagnrýni Katrínar á bug hvað það varðaði.

mbl.is