Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis sýnir hjarta úr gulli á HönnunarMars sem hún gerði í samráði við Guðbjörgu Ingvarsdóttur í Aurum.
Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis sýnir hjarta úr gulli á HönnunarMars sem hún gerði í samráði við Guðbjörgu Ingvarsdóttur í Aurum.
Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis sýnir hjarta úr gulli á HönnunarMars sem hún gerði í samráði við Guðbjörgu Ingvarsdóttur í Aurum.
Hvers vegna skiptir HönnunarMars máli?
„Hönnunarmars skiptir máli því þá taka aðilar í hönnunarumhverfinu sig til og sýna stöðuna á því sem er í gangi og hvað er í gerjun. Ég sjálf myndi vilja breikka hlutverk HönnunarMars og hafa hann vettvang sköpunar á öllum sviðum en það þarf að sjálfsögðu að setja mörkin einhvers staðar en ég tel að við getum breikkað hann til muna. Nýsköpun og umhverfi hennar er okkar stærsta tækifæri og mesti vaxtarmöguleiki inn í framtíðina og við eigum að efla þessa hátíð og margfalda.“
Hvað finnst þér mikilvægt við að halda hátíð sem þessa?
„Hátíðin er sýningargluggi út í heim þar sem við getum varpað því út að hverju við erum að vinna hérlendis. Auðvitað er hún einnig hátíð okkar Íslendinga, og ekki síst fagfólksins innan geirans, en hún er frábær leið til þess að beina athygli heimsins hingað í augnablik svo fólk sjái þá frábæru gerjun og frjóu hugmyndavinnu sem á sér stað.“
Þú hefur yfirleitt tekið þátt með einhverjum hætti, ekki satt? Hvernig verður þessu háttað í ár?
„Já, ég hef nú yfirleitt verið með enda finnst mér það einhvern veginn vera hluti af því að tilheyra hönnunarsamfélaginu hér heima, þó svo ég starfi aðallega erlendis. Það er mjög mismunandi hvernig ég hef tekið þátt, allt frá stórum sýningum til minni uppákoma þar sem einhver spuni hefur stýrt verkinu. Í ár tek ég höndum saman við Guðbjörgu gullsmið og hönnuði í Aurum. Mér hefur lengi verið hjartfólgið málefni líffæragjafar og við tókum hjarta sem ég hef hannað í raunstærð úr gleri og minnkuðum það niður í men. Úr varð „hjarta úr gulli“ og munum við einungis gera 12 stykki úr 24 karata gulli. Allur ágóði þessara mena rennur í styrkjarsjóð hjartveikra barna enda er okkur báðum hjartfólgið að nota hönnunartungumálið til að vekja athygli á mikilvægum málefnum og að styrkja þau.“
Hvað finnst þér mest spennandi þegar kemur að íslenskri hönnun?
„Ég er núna gríðarlega spennt fyrir öllu sem er andstæða þess sem við teljum hina hefðbundnu hönnun. Þá meina ég til dæmis upplifunarhönnun eða þjónustuhönnun og margt slíkt. Mér finnst frábært þegar fólki tekst að mynda samfélag eða nýja hefð í kringum hlut eða þjónustu eins og til dæmis flothettuna. Við erum söguþjóð og ég tel okkur frábær hugmyndaskáld til þess að búa til heilu heimana og hluti tengda þeim. Þar erum við einhvern veginn frjórri en frændur okkar Skandinavar. Við eigum enga hönnunarsögu að ráði, eða allavega ekki rótgróna sögugrind sem við teljum okkur bera skylda til að virða og þ.a.l. höfum við meira frelsi. Við þurfum að nýta okkur það og hafa hugrekki til þess.“
Hvaða hönnunargrip dreymir þig um að eignast?
„Ég á nú orðið flest sem mig hefur dreymt um. Mig vantar helst að losna við hluti. En ætli mig langi ekki næst í skemmtilegt vélmenni!“