Þetta eru bara börn

Frá Sýrlandi til Evrópu | 31. maí 2017

Þetta eru bara börn

Hún er ellefu ára gömul og kemur frá Sýrlandi. Vegna stríðsins í heimalandinu gat hún ekki gengið í skóla í fjögur ár þrátt fyrir að þrá fátt jafn heitt og það að læra.

Þetta eru bara börn

Frá Sýrlandi til Evrópu | 31. maí 2017

Mörg barna sem eru á flótta hafa jafnvel aldrei gengið …
Mörg barna sem eru á flótta hafa jafnvel aldrei gengið í skóla. mbl.is/Gúna

Hún er ellefu ára gömul og kemur frá Sýrlandi. Vegna stríðsins í heimalandinu gat hún ekki gengið í skóla í fjögur ár þrátt fyrir að þrá fátt jafn heitt og það að læra.

Hún er ellefu ára gömul og kemur frá Sýrlandi. Vegna stríðsins í heimalandinu gat hún ekki gengið í skóla í fjögur ár þrátt fyrir að þrá fátt jafn heitt og það að læra.

Í tæpt ár hefur hún búið í Grikklandi ásamt foreldrum sínum og þremur systkinum. Eldri bróðir hennar er kominn til Þýskalands og fjölskyldan hefur óskað eftir því að fá að sameinast honum þar.

En biðin er löng og þau hafa verið flutt á milli flóttamannaskýla aftur og aftur þetta tæpa ár sem þau hafa dvalið í landinu.

Á einhverjum stöðum hefur þessi unga stúlka getað sótt tíma í ensku og grísku en ekki hefur verið um hefðbundna skólagöngu að ræða. Loks kom að því að hún fékk tækifæri til þess að sækja tíma ásamt fleiri börnum sem eru á flótta. Hún var alsæl og líkaði mjög vel við kennarann þrátt fyrir tungumálaerfiðleika.

Mikilvægt er að gæta þess að fjölskyldum sé ekki sundrað …
Mikilvægt er að gæta þess að fjölskyldum sé ekki sundrað á flóttanum. AFP

En eftir mánuð var fjölskyldunni tilkynnt að þau þyrftu að flytja eina ferðina enn og nú dvelja þau í allt öðrum landshluta. Hún fékk ekki einu sinni tækifæri til þess að kveðja kennarann sinn.

 300 þúsund börn ein á flótta

Þetta er meðal þess sem börn á flótta þurfa að ganga í gegnum. En þessi stúlka er samt sem áður heppin því hún er með fjölskyldu sinni, ólíkt mörgum öðrum börnum sem koma til Grikklands og Ítalíu.

Alls voru 300 þúsund börn ein á flótta á árunum 2015 og 2016, samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þau voru 66 þúsund talsins á árunum 2010 og 2011. Mörg þeirra barna sem koma til Ítalíu og Grikklands sjóleiðina eru ein á ferð því að börn flýja örbirgð líkt og fullorðnir og mikil hætta er á því að þau sem ekki eygja von um að fá hæli sem flóttamenn hverfi einfaldlega af yfirborði jarðar.

Ekki er óalgengt að smyglarar tengist glæpahópum sem selja börnin í vændi og þrælkun í Evrópu.

Reynt er að halda uppi kennslu fyrir börn í flóttamannabúðum …
Reynt er að halda uppi kennslu fyrir börn í flóttamannabúðum og skýlum á Lesbos. AFP

Nýleg rannsókn leiðir í ljós að 75% allra ungmenna á aldrinum 14-17 ára sem hafa komið til Ítalíu yfir Miðjarðarhafið með smyglurum hefur verið haldið gegn vilja sínum og þau látin vinna kauplaust meðan á flóttanum frá heimalandinu stóð.

 Glíma við margvíslegan vanda

Þær Mariela Michailidou og Katerina Kitidi hjá UNICEF í Grikklandi segja að samkvæmt grískum lögum eigi öll börn á aldrinum 5-15 ára rétt á skólagöngu og að allir skólar eigi að bjóða upp á nám fyrir börn með sérþarfir. En vegna efnahagskreppunnar er þessu alls ekki svo farið og engin úrræði eru í boði í mörgum skólum, segir Kitidi við blaðamann Morgunblaðsins á Lesbos. Þar vísar hún til þess að stór hluti flóttabarna glímir við alls konar erfiðleika enda ekki að ástæðulausu sem þau neyddust til þess að flýja heimalandið. Stríð, ofbeldi og hungur eru nánast daglegt brauð á heimaslóðum þeirra.

 Aldrei áður gengið í skóla

„Mörg þeirra hafa aldrei notið skólagöngu, bæði vegna stríðsins í Sýrlandi og ástandsins í Afganistan og Pakistan,“ segir Kitidi, en UNICEF reynir að veita börnum og ungmennum á öllum aldri einhverja fræðslu.

Í sumum tilvikum eru foreldrar barnanna vart af barnsaldri, en UNICEF hefur til að mynda stutt við bakið á flóttafjölskyldu þar sem móðirin og eiginkonan er 16 ára gömul en faðirinn og eiginmaðurinn tvítugur.

Þau eiga sex mánaða gamalt barn auk þess sem sex ára gömul systurdóttir móðurinnar er einnig í þeirra umsjá.

„Öll fjölskyldan er í raun á skólaaldri í okkar huga,“ segir Michailidou. Hún segir að því sé stundum þannig farið að foreldrar unglingsstúlkna telji að betra sé að gefa dætur sínar í hjónabönd en að þær eigi á hættu að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi eða öðru á flóttanum. „En þetta eru bara börn,“ bætir hún við.

mbl

Búðir og skýli fyrir flóttafólk á Lesbos eiga aðeins að vera tímabundin úrræði en vegna skorts á úrræðum á meginlandinu er flóttafólkið á Lesbos í 7-15 mánuði. Þær Michailidou og Kitidi segja að í mörgum tilvikum sé mjög erfitt fyrir börn sem fullorðna að aðlagast aðstæðum á Lesbos, þar sem þau vita að þetta er aðeins tímabundið úrræði.

„Þau velta fyrir sér hvers vegna þau séu yfir höfuð að leggja þetta á sig, þar sem úrræðið er aðeins tímabundið. Náminu hér lýkur kannski jafn skyndilega og það hófst. En ekkert bendir til þess að biðtíminn sé að styttast og því er allt útlit fyrir að þau muni búa við þessar aðstæður áfram,“ segir Michailidou.

Antonios Zeimpekis, framkvæmdastjóri mannúðarsamtakanna Iliahtida (NGO), sem reka átta heimili fyrir börn og fjölskyldur á flótta á Lesbos, segir að miðað sé við að ekki séu fleiri en sextán börn á flótta á hverju heimili sem Iliahtida rekur og þá séu starfsmennirnir 14 talsins, en þeir vinna á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn.

mbl

Reynt er að koma börnum á svipuðum aldri fyrir á sama stað og eins er horft til þess hvaðan þau koma. Ekki bara til þess að einfalda túlkaþjónustu heldur til þess að tryggja að ólíkum hópum sé ekki att saman. Börnin og unglingarnir komi nefnilega víða að þrátt fyrir að flest þeirra séu frá Sýrlandi, Pakistan, Írak og Afganistan.

Iliahtida nýtur stuðnings frá Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), en eitt af heimilunum átta er rekið í nafni UNICEF.

Þrátt fyrir að íbúar Lesbos hafi almennt tekið flóttafólkinu sem þangað hefur komið vel er það ekki algilt og segir Zeimpekis að til þess að tryggja bætt samskipti við heimamenn séu flestir starfsmenn Iliahtida frá Lesbos, en mikið atvinnuleysi er meðal kennara og þeirra sem vinna við umönnun á eyjunni, líkt og alls staðar í Grikklandi.

Á vegum samtakana er rekin þrenns konar starfsemi, en alls er rými fyrir 155 börn og unglinga á aldrinum 11 til 18 ára hjá Iliahtida á Lesbos.

Í öðrum úrræðum á vegum Iliahtida á Lesbos er rými fyrir 400 manns; bæði einstaklinga á aldrinum 18 til 23 ára og síðan fjölskyldur. Þegar blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Zeimpekis fyrr í mánuðinum var fullt út að dyrum í hverju athvarfi en unnið er að því að fjölga rýmum í 600 á næstu mánuðum.

mbl

„Með því að ráða fólk til starfa hjá okkur sem býr hér á Lesbos sýnum við stuðning við samfélagið hér. Það er mikilvægt þegar atvinnuástandið er jafn slæmt og verið hefur undanfarin ár vegna efnahagskreppunnar. Í öðru lagi búa flestir skjólstæðingar okkar í íbúðum sem stóðu auðar. Með því að leigja þær sköpum við eigendum þeirra tekjur. Í þriðja lagi kaupum við nánast allt sem við þurfum hér á Lesbos. Þetta er mjög mikilvægt og jákvætt fyrir alla, held ég,“ segir Zeimpekis, en hann hefur búið á Lesbos frá árinu 2002.

Annað sem hann segir mikilvægt varðandi samskipti flóttafólks, sem hefur margt verið mun lengur á Lesbos en það ætlaði, og heimamanna er að fjölskyldur búa í íbúðum úti um allt.

„Við leigjum ekki heilu fjölbýlishúsin eins og við vitum að er gert sums staðar. Með því komum við í veg fyrir að þau verði auðveld skotmörk rasista. Þetta eykur líka líkurnar á að flóttafólkið kynnist nágrönnum og dregur úr líkum á hatri. Því hatur byggir yfirleitt á fáfræði. Þú óttast það sem þú þekkir ekki en um leið og þú kynnist fólki hverfur hræðslan,“ segir Zeimpekis.

Hann segir að fólk eigi ekki að láta reiði sína, til að mynda vegna efnahagsástandsins, bitna á flóttafólki heldur miklu frekar á stjórnvöldum, sem ekki hafi alltaf staðið vörð um hagsmuni þjóðarinnar.

mbl

Að sögn Zeimpekis reyna samtökin að auka samskipti á milli flóttafólks og heimamanna.

„Flestir þeirra sem eru á flótta eru fórnarlömb stríðs og það er mikilvægt að fólk hér geri sér grein fyrir því. Þetta eru ekki glæpamenn heldur fólk sem hefur gengið í gegnum hörmungar og þarf á stuðningi að halda.“

Alls starfa 190 manns hjá Iliahtida á Lesbos og um 300 í Norður-Grikklandi, þar sem samtökin reka nokkur heimili fyrir flóttafólk.

Stór hluti þeirra flóttamanna sem búa á heimilum sem Iliahtida rekur eru ungir karlar. Margir þeirra segjast vera yngri en átján ára þegar þeir koma til Lesbos og skrá sig inn í landið þrátt fyrir að vera eldri. Einfaldlega vegna þess að þá telji þeir líklegra að fá hjálp og heimild til þess að setjast að í Evrópu. Zeimpekis segir að þeir séu sjaldan sendir í aldursgreiningu, svo sem á tönnum líkt og gert er víða, enda tímafrekt og kostnaðarsamt og samtökin vilji frekar nýta peningana í að styðja við bakið á flóttafólki.

 Einfaldlega mannvonska

„Þeir þurfa líka á hjálp að halda hvort heldur sem þeir eru 16 ára eða 18 ára. Við reynum að hýsa aldurshópinn 18-23 ára saman og kennum þeim að standa á eigin fótum. Til að mynda að elda, þrífa og þvo þvott. Aftur á móti er sorglegt að hugsa til þess að þar sem kunnátta þeirra í grísku og mjög oft ensku er afar takmörkuð eiga þeir litla möguleika í grísku samfélagi. Því það er nánast vonlaust að fá vinnu ef fólk talar hvorki grísku né ensku. Að minnsta kosti vinnu sem krefst þess að fólk tjái sig. Á sama tíma er slegist um hvert starf sem losnar, þannig að staða þeirra er oft slæm og veldur þeim vonbrigðum. En við getum ekki hent fólki út á gaddinn þegar það verður 18 ára. Það er einfaldlega mannvonska,“ segir Zeimpekis og bætir við að sjálfsbjargarviðleitnin hafi komið fólkinu til Evrópu og það beri að meta.

„Á sama tíma verðum við að koma fram við þá sem karlmenn en ekki drengi. Það er heimskulegt að ímynda sér að ungir menn, sem hafa kannski þurft að bjarga sér í fimm ár, fari eftir reglum eins og að fara að sofa fyrir klukkan 22 á kvöldin.“

Flestir þeirra flóttamanna sem koma til Evrópu koma til Ítalíu og Grikklands. Yfir 60 þúsund flóttamenn eru í Grikklandi um þessar mundir og frá áramótum hafa yfir 1.500 manns drukknað á flóttanum, flestir á sjóleiðinni milli Ítalíu og Líbíu.

mbl

Þrátt fyrir tilmæli Evrópusambandsins um að ríki ESB deili ábyrgðinni á komu flóttafólks er enn verið að senda flóttafólk sem hefur komist lengra inn í Evrópu aftur til þessara tveggja ríkja á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Viðmælendur Morgunblaðsins eru sammála um að erfitt sé að sjá önnur ríki líta undan og láta Grikki og Ítali bera ábyrgðina vegna legu sinnar.

Hætti að tala eftir viðskilnað við foreldra

Fjölmörg dæmi eru um að fjölskyldur á flótta hafi sundrast á leiðinni til Evrópu, stundum við komuna til lands úr sjávarháska. Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur starfað víða við hjálparstarf, segir að eitt af því mikilvægasta sem fólk verði að hafa í huga sé að gæta þess að sundra ekki fjölskyldum, sama á hverju dynur, því slíkt geti haft ófyrirséðar afleiðingar.

Farzad, sem er átta ára og frá Afganistan, er dæmi um barn sem hefur upplifað þá skelfingu að verða viðskila við foreldra sína. Þrátt fyrir að aðeins hafi verið um stuttan tíma að ræða ber hann enn merki þess, tveimur árum síðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur Farzad ekki sagt eitt einasta orð eftir að hann varð viðskila á flótta í blindbyl á landamærum Tyrklands árið 2015.

Farzad dvelur í Kara Tepe-flóttamannabúðunum í Myrtilene á Lesbos með föður sínum og bróður.

Að sögn föður hans varð drengurinn ekki viðskila við þau lengur en í 20 til 30 mínútur en hann glímir enn við afleiðingarnar.

Farzad, faðir hans, Jalil, og bróðir hans, sem er 22 ára, Awalmir, eru í Kara Tepe en móðir Farzad, Uzma, og 18 ára gamall bróðir hans, Rafiq, eru komin til Þýskalands.

Þegar þau voru komin að landamærum Tyrklands Íransmegin í fylgd smyglara var veðrið mjög slæmt og lítið sem ekkert skyggni. Smyglararnir sem þau höfðu greitt fyrir að koma þeim til Tyrklands voru á vanbúnum bíl og gekk illa að halda honum á fjallveginum.

Smyglarinn tilkynnti upp úr þurru að þau yrðu að yfirgefa bílinn, þar sem lögreglan væri á eftir þeim. Þegar þau komu út úr bílnum henti hann farangri þeirra út á eftir hópnum. Í glundroðanum varð fjölskyldan viðskila. Uzma og Rafiq fóru í eina átt en Farzad, faðir hans og Awalmir aðra.

Vegna veikinda Jalil sóttist ferðin seint og þurfti Awalmir að bera föður sinn í hríðinni. Skyndilega áttuðu þeir sig á að þeir höfðu týnt Farzad.

Þeir sneru við og gáfu sig fram við lögregluna og urðu afar fegnir þegar kom í ljós að lögreglan hafði fundið Farzad.

„Þennan dag hætti Farzad að tala,“ segir Jalil. Í leikskólanum í flóttamannabúðunum blandar hann ekki geði við önnur börn en fram að þessum afdrifaríka degi hafði ekkert amað að. Farzad var ósköp venjulegur drengur. Það tók fimm tilraunir fyrir þá að komast til Lesbos en mæðginin komust til Þýskalands. Þar bíða þau eftir því að fjölskyldan fái að sameinast að nýju en það hefur ekki enn tekist.

PIKPA flóttamannabúðirnar á Lesbos eru opnar búðir sem eru reknar …
PIKPA flóttamannabúðirnar á Lesbos eru opnar búðir sem eru reknar af sjálfstæðum hjálparsamtökum. Guðrún Hálfdánardóttir
mbl.is