„En nú er barnið mitt komið“

Suður-Súdan | 12. júní 2017

„En nú er barnið mitt komið“

Faðmlagið varir lengi og er tilfinningaþrungið. En það er einnig hálfundarlegt því Jorgina, sem grætur með ekka, þekkir varla son sinn Emmanuel sem hefur stækkað mikið frá því hún sá hann síðast. Stríðið í Suður-Súdan aðskildi þau. Nú eru liðin þrjú og hálft ár frá því að mæðginin sáust síðast. 

„En nú er barnið mitt komið“

Suður-Súdan | 12. júní 2017

Emmanuel Samuel er orðinn sautján ára. Ungi maðurinn hitti nýverið …
Emmanuel Samuel er orðinn sautján ára. Ungi maðurinn hitti nýverið móður sína á ný eftir rúmlega þriggja ára aðskilnað. AFP

Faðmlagið varir lengi og er tilfinningaþrungið. En það er einnig hálfundarlegt því Jorgina, sem grætur með ekka, þekkir varla son sinn Emmanuel sem hefur stækkað mikið frá því hún sá hann síðast. Stríðið í Suður-Súdan aðskildi þau. Nú eru liðin þrjú og hálft ár frá því að mæðginin sáust síðast. 

Faðmlagið varir lengi og er tilfinningaþrungið. En það er einnig hálfundarlegt því Jorgina, sem grætur með ekka, þekkir varla son sinn Emmanuel sem hefur stækkað mikið frá því hún sá hann síðast. Stríðið í Suður-Súdan aðskildi þau. Nú eru liðin þrjú og hálft ár frá því að mæðginin sáust síðast. 

Þau hafa bæði verið á flótta frá því að stríðið braust út. Emmanuel er orðinn sautján ára og er hátt í tveir metrar á hæð. Hann er ekki lengur litli drengurinn sem Jorgina hélt í fangi sínu fyrir nokkrum árum. 

Mæðginin eru meðal þúsunda fjölskyldna sem stríðið í Suður-Súdan sundraði. Um 3,7 milljónir manna hafa neyðst til að flýja heimili sín frá því að stríðið braust út í desember árið 2013.

Það ár gekk Emmanuel í skóla í borginni Malakal í norðurhluta landsins, skammt frá landamærunum að Súdan. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í nágrenninu í bænum Kodok.

Emmanuel Samuel faðmar móður sína. Síðast þegar hún hélt utan …
Emmanuel Samuel faðmar móður sína. Síðast þegar hún hélt utan um hann var hann mun minni. AFP

Á aðfangadag, aðeins örfáum dögum eftir að blóðugt borgarastríð braust út milli stuðningsmanna Salva Kiir forseta og þeirra sem styðja varaforsetann fyrrverandi, Riek Machar, neyddist Emmanuel til að flýja undan átökum í Malakal. „Ég gekk til Kodok. Það tók mig tvo daga. Þegar ég kom þangað fór ég til fjölskyldunnar minnar,“ segir hann. Nokkrum dögum síðar var hann sendur á markaðinn til að kaupa mat. „Þegar ég sneri aftur heim voru foreldrar mínir og ættingjar farnir.“

Orðrómur hafði heyrst í litla bænum um að árás væri yfirvofandi. Einmitt þegar Emmanuel var í burtu á markaðnum þorði fjölskylda hans ekki annað en að flýja í skyndi ásamt flestum öðrum íbúum bæjarins. 

 „Ég beið heima í þrjá daga. En enginn kom,“ rifjar Emmanuel upp. Hann sneri því aftur til Malakal. Þar fékk hann þær fréttir að foreldrar hans hefðu náð að flýja til höfuðborgarinnar Juba. 

Fjarskyldur ættingi Emmanuels gaf honum peninga svo hann gæti keypt sér far með flutningaflugvél til Juba. Þegar þangað var komið komst hann í samband við konu sem heitir Lena Ngor sem tilheyrði sama þjóðarbroti og hann. 

„Ég hringdi í hann og sagðist ætla að leita að ættingjum hans. Þegar mér tókst það ekki bauð ég honum að búa hjá okkur,“ segir Lena Ngor sem er fyrrverandi blaðamaður. 

Emmanuel Samuel ræðir við Celine Croon, starfsmann Rauða krossins, sem …
Emmanuel Samuel ræðir við Celine Croon, starfsmann Rauða krossins, sem aðstoðaði hann við að finna fjölskyldu sína. AFP

Emmanuel flutti því inn í tjald í garði hennar. Hann gat ekki gengið í skóla því að Ngor átti fjögur börn og hafði ekki efni á því að borga skólagjöldin fyrir hann. 

Það var svo í mars sem Emmanuel fékk veður af því að fjölskyldan hans hefði snúið aftur til heimabæjarins Kodok. Rauði krossinn, sem vinnur að fjölskyldusameiningum í landinu, bauð fram aðstoð sína. Snemma í júní höfðu samtökin þegar skráð 1.800 manns þetta árið sem höfðu orðið viðskila við fjölskyldur sínar. Það er tvöfaldur sá fjöldi sem skráður var allt árið í fyrra. 

Cleine Croon, starfsmaður Rauða krossins, segir að í um helmingi tilfella takist að koma fjölskyldumeðlimum í samband við hver annan. Í enn færri tilvikum takist hins vegar að sameina fjölskyldurnar. Ekki er óhætt að ferðast um stóran hluta Suður-Súdan og því aðeins hægt að halda sambandi í gegnum síma í flestum tilvikum. 

Til stóð að Emmanuel hitti fjölskyldu sína fyrr á þessu ári. Af því varð ekki því stjórnarherinn gerði áhlaup í norðurhluta landsins, m.a. á þorpið Kodok, þar sem fjölskylda Emmanuels bjó. Móðir hans var meðal þeirra sem flúðu undan ofbeldinu. 

 En loks kom þó að því að Emmanuel sneri aftur heim. „Ég á eftir að sakna hans. Hann hefur hjálpað mér,“ segir Lena Ngor um brottför frænda síns. 

Flóttamannabúðirnar í Aburok í Suður-Súdan þar sem fjölskyldan var sameinuð …
Flóttamannabúðirnar í Aburok í Suður-Súdan þar sem fjölskyldan var sameinuð á ný. AFP

Emmanuel tókst snemma í júní að komast til Aburoc þar sem um 10 þúsund flóttamenn halda til. Í útjaðri þorpsins hitti hann loks móður sína á ný. „Ég hélt að ég myndi ekki hitta hann aftur,“ segir móðirin, Jorgina Pagam. „En nú er barnið mitt komið og allt slæmt hverfur. Ég er svo hamingjusöm.“

Jorgina ætlar að leita hælis í nágrannalandinu Súdan. Þar vonast hún til þess að Emmanuel geti hafið skólagöngu sína á ný. 

Framtíð Emmanuels er langt frá því tryggð. Hann hefur þurft að fullorðnast hratt, fjarri fjölskyldu sinni. Og nú er hann orðinn flóttamaður á ný. 

mbl.is