Surtur talinn í sérflokki

Bjórmenning | 25. ágúst 2017

Surtur talinn í sérflokki

„Ég er mjög stoltur af þessum verðlaunum, sérstaklega miðað við samkeppnina sem er í þessari tegund af bjórum,“ segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá Borg brugghúsi.

Surtur talinn í sérflokki

Bjórmenning | 25. ágúst 2017

Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari í Borg brugghúsi, er ánægður með verðlaunin …
Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari í Borg brugghúsi, er ánægður með verðlaunin sem Surtur 8.2 hlaut í flokki tunnuþroskaðra bjóra á hátíðinni World Beer Awards nýverið. Er hátíðin mjög virt í þessum geira. Ljósmynd/Þröstur Már Bjarnason

„Ég er mjög stoltur af þessum verðlaunum, sérstaklega miðað við samkeppnina sem er í þessari tegund af bjórum,“ segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá Borg brugghúsi.

„Ég er mjög stoltur af þessum verðlaunum, sérstaklega miðað við samkeppnina sem er í þessari tegund af bjórum,“ segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá Borg brugghúsi.

Bjórinn Surtur 8.2 var á dögunum valinn besti bjórinn í flokki tunnuþroskaðra bjóra á World Beer Awards.

World Beer Awards er alþjóðleg verðlaunahátíð og nýtur mikillar virðingar. Formaður dómnefndar er Adrian Tierney-Jones, sem þykir mikill „gúrú“ í bjórheiminum og hefur skrifað um bjór í miðla á borð við Daily Telegraph og Sunday Times auk þess að senda frá sér bækur.

Surtur hlýtur verðlaunin í flokki tunnuþroskaðra bjóra og er sá flokkur undirflokkur bragðbættra bjóra á verðlaunahátíðinni. Surtur 8.2 var settur á markað hér á landi þegar þorri gekk í garð. Hann er af Imperial Stout-gerð og fékk að þroskast á bourbon-tunnum í sex mánuði. Hann er 14,5% að styrkleika.

Valgeir kveðst afar ánægður með að hafa náð í gegn í þessum flokki.

„Þarna hafa verið margir af bestu bjórum í heimi, bjórar sem brugghúsin leggja mesta vinnu í. Það eru margar bombur í þessum geira.“

Mikil þróun hefur orðið í bjórmenningu hér á landi síðustu ár. Fjöldi handverksbrugghúsa hefur sprottið fram og úrval gæðabjórs hefur aukist til muna. Borg brugghús hefur verið í sérflokki í Imperial Stout-bjórum, þessum stóru dökku bjórum sem jafnan eru settir á markað á þorra.

„Þessi verðlaun eru ekki síst viðurkenning á því starfi sem við höfum unnið í þessum stíl. Við höfum náð fram ákveðinni sérhæfingu. Þessi verðlaunabjór er til að mynda útgáfa númer tvö af Surti nr. 8 en alls höfum við gert átta mismunandi útgáfur af þeim bjór. Í fljótu bragði held ég að við höfum gert um tíu bjóra sem eru tunnuþroskaðir. Umfangið hefur líka aukist. Í fyrsta skiptið sem við prófuðum þetta vorum við með tvær tunnur. Svo þegar við gerðum Surt á þessu ári vorum við með 20 tunnur. Akkúrat núna erum við með bjór í þroskun á um 110 tunnum í ýmsum útgáfum og á ýmsum stigum.“

Næsti tunnuþroskaði bjórinn sem lítur dagsins ljós verður jólabjór Borgar, Hurðaskellir. Hann verður 9% Imperial Porter-bjór sem fær að þroskast á rúgviskítunnum.

„Erum að gera eitthvað rétt“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bjórar frá Borg brugghúsi eru sigursælir á World Beer Awards, en árið 2013 unnu bjórarnir Myrkvi nr. 13, Úlfur nr. 3 og Bríó til verðlauna í keppninni. Árið 2015 hlaut svo Sólveig nr. 25 gullverðlaun í flokki sterkra hveitibjóra.

„Við erum augljóslega að gera eitthvað rétt. Það er gott að meta sig við markaðinn. Þrátt fyrir áframhaldandi sprengju í bjórheiminum sýna þessi verðlaun að við erum að þróast með. Við erum á fullum krafti í nýsköpun,“ segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá Borg brugghúsi.

Í næsta mánuði verður tilkynnt hver fær lokaverðlaun World Beer Awards. Þá kemur í ljós hvort Surtur 8.2 sigrar í flokki bragðbættra bjóra.

mbl.is