Finnur til með öllum sem sitja á þingi

Stjórnarsamstarfi slitið | 18. september 2017

Fullt hús á fundi Samfylkingarinnar í Gerðubergi

Fullt hús er á fundi Samfylkingarinnar í Gerðubergi að sögn Margrétar Tryggvadóttur, bókmenntafræðings og fyrrverandi þingmanns. Á fundinum eru flokksmenn Samfylkingarinnar að ræða næstu skref og komandi alþingiskosningar.

Fullt hús á fundi Samfylkingarinnar í Gerðubergi

Stjórnarsamstarfi slitið | 18. september 2017

Margrét Gauja Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Eva Baldursdóttir og Sigríður Ingibjörg …
Margrét Gauja Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Eva Baldursdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir Samsett mynd

Fullt hús er á fundi Samfylkingarinnar í Gerðubergi að sögn Margrétar Tryggvadóttur, bókmenntafræðings og fyrrverandi þingmanns. Á fundinum eru flokksmenn Samfylkingarinnar að ræða næstu skref og komandi alþingiskosningar.

Fullt hús er á fundi Samfylkingarinnar í Gerðubergi að sögn Margrétar Tryggvadóttur, bókmenntafræðings og fyrrverandi þingmanns. Á fundinum eru flokksmenn Samfylkingarinnar að ræða næstu skref og komandi alþingiskosningar.

Margrét hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún hyggist gefa kost á sér í komandi kosningum en segist vera að hugsa málið. Margrét var stödd á fundinum þegar mbl.is náði tali af henni og sagði ekkert hafa verið ákveðið varðandi það hvernig staðið yrði að framboðslistum Samfylkingarinnar. „Það eru kjördæmaráðin sem ráða þessu og að því er ég best veit hefur ekkert kjördæmaráðanna fundað.“

Að sögn Margrétar á frétt Hringbrautar um að ákveðið hafi verið að ýta fyrrverandi forystumönnum út í kuldann ekki við nein rök að styðjast, það séu kjördæmaráðin sem ákveða hvernig staðið verður að framboðslistum í hverju kjördæmi fyrir sig. 

Frétt Hringbrautar: Fyrrverandi forystumönnum ýtt út í kuldann

Eva Baldursdóttir sem skipaði annað sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður lýsti yfir áhuga sínum á að gefa kost á sér á komandi alþingiskosningum en benti á að ekkert hefði verið ákveðið um hvernig málum yrði hagað varðandi kosningarnar. „Ég geri nú ráð fyrir að uppstilling verði ofan á sökum þess hve stuttur tími er til kosninga en ég hef áhuga á að bjóða mig fram.“

Margrét Gauja Magnúsdóttir, sem skipaði 2. sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum sagðist í samtali við mbl.is ekki hafa gert upp hug sinn varðandi framboð. „Ég er ekkert sérstaklega spennt fyrir prófkjöri og í raun sé ég ekki að það komi til með að gefast einhver tími til að fara í prófkjör en það verður bara að koma í ljós hvað kjördæmaráðin gera, það er náttúrlega ekkert hægt að bjóða sig fram ef það verður stillt upp á listann. Þetta hefur allt gerst mjög hratt og þetta er ákvörðun sem maður tekur ekki einn í einhverju tómarúmi þannig að ég er bara ekki búin að ákveða þetta, en ef það verður óskað eftir mínum kröfum þá mun ég íhuga það alvarlega.“

„Þetta er ógeðslegt vesen“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hyggst ekki bjóða sig fram í komandi kosningum. „Ég er ennþá alveg rammpólitísk en ég er ekki á leið í framboð til Alþingis.“ Sigríður Ingibjörg skipaði efsta sæti í Reykjavík norður í kosningunum í fyrra en hlaut ekki kjör. „Ég er búin að starfa í hagdeild Alþýðusambands Íslands síðan þá og elska það frelsi sem ég hef öðlast. Ég finn til með öllum sem sitja á þingi. Hef alveg ótrúlega samúð með þeim öllum, þetta er ógeðslegt vesen þrátt fyrir að það hafi verið algjör forréttindi að fá að sitja á Alþingi og hafa áhrif á hvernig samfélagið mótast. Ég er búin og hyggst ekki gefa kost á mér aftur.“

Fyrr í dag sagði Valgerður Bjarnadóttir að hún hygðist ekki gefa kost á sér í komandi þingkosningum en í síðustu kosningum skipaði hún þriðja sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður. 

Ekki náðist í Össur Skarphéðinsson, Árna Pál Árnason eða Helga Hjörvar við vinnslu fréttarinnar

Landsfundi frestað

Samfylkingin hefur frestað landsfundi sínum sem var fyrirhugaður dagana 27. til 28. október í ljósi fyrirhugaðra kosninga hinn 28. október en framkvæmdastjórn flokksins mun boða til flokkstjórnarfundar föstudaginn 6. október næstkomandi. Í tilkynning frá Samfylkingunni kemur fram að undirbúningur fyrir kosningarbaráttuna sé þegar hafinn. 

Húsfyllir í Gerðubergi á fundi Samfylkingarinnar um stjórnmálaástandið.
Húsfyllir í Gerðubergi á fundi Samfylkingarinnar um stjórnmálaástandið. Skjáskot/Twitter
mbl.is