Með fjársjóð af mögnuðum fæðingarsögum

Börn og uppeldi | 24. september 2017

Með fjársjóð af mögnuðum fæðingarsögum

Auður Bjarnadóttir hefur kennt meðgöngujóga í heil 17 ár, en sjálf kynntist hún því þegar hún gekk með yngsta son sinn. Auður hafði þá nýlokið jógakennaranámi og var búsett í Bandaríkjunum. 

Með fjársjóð af mögnuðum fæðingarsögum

Börn og uppeldi | 24. september 2017

Auður Bjarnadóttir.
Auður Bjarnadóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Auður Bjarna­dótt­ir hef­ur kennt meðgöngujóga í heil 17 ár, en sjálf kynnt­ist hún því þegar hún gekk með yngsta son sinn. Auður hafði þá ný­lokið jóga­kenn­ara­námi og var bú­sett í Banda­ríkj­un­um. 

Auður Bjarna­dótt­ir hef­ur kennt meðgöngujóga í heil 17 ár, en sjálf kynnt­ist hún því þegar hún gekk með yngsta son sinn. Auður hafði þá ný­lokið jóga­kenn­ara­námi og var bú­sett í Banda­ríkj­un­um. 

„Ég var að kenna al­mennt jóga þegar ég varð barns­haf­andi og lá fár­veik í ógleði í tvo mánuði. Svo dröslaðist ég loks út úr húsi í svo frá­bært meðgöngujóga í Seattle. Ég átti dá­sam­lega tíma, gott nám, og fæddi strák­inn minn þar fyr­ir 17 árum. Segja má að þetta hafi verið jóga­fæðing, en ég var al­sæl að geta andað barn­inu mínu í heim­inn í ör­yggi. Þótt ég hafi átt tvö börn áður, og ágæt­ar fæðing­ar, var þetta allt annað. Ég var meðvituð, yf­ir­veguð og bjó yfir innra trausti til lík­am­ans. Ég vissi að lík­am­inn kunni þetta, sem var magnað. Ég hugsaði með mér að þessu yrði ég að miðla og fór síðan að kenna þegar strák­ur­inn minn var nokk­urra mánaða gam­all,“ seg­ir Auður, en hvað merk­ir hug­takið jóga­fæðing?

„Ég nota gjarn­an þessi orð: anda, slaka, treysta. Að anda ró­lega og slaka tek­ur kon­ur úr ótt­an­um, en með því móti eru þær að opna far­veg­inn. Ef kon­an er hrædd spenn­ist legið og all­ur lík­am­inn. Þá geta þær verið leng­ur að fara í gegn­um hríðina auk þess sem það get­ur verið erfiðara að tak­ast á við hana. Kon­ur þurfa að læra að treysta lík­am­an­um. Ef þær þurfa að dansa, eða gera eitt­hvað skrýtið, ættu þær að láta það eft­ir sér. Þetta er þeirra fæðing,“ seg­ir Auður sem ekki ein­ung­is miðlar af eig­in reynslu í jóga­tím­um, því hún les gjarn­an upp fæðing­ar­sög­ur kvenna sem hafa stundað jóga hjá henni.

„Þá er ég ekki alltaf eins og rispuð plata að tala um sama hlut­inn, held­ur fæ ég inn­blást­ur frá öðrum kon­um. Ég er nátt­úr­lega kom­in með fjár­sjóð af mögnuðum fæðing­ar­sög­um eft­ir þessi 17 ár. Það væri gam­an að gefa þær út, og kalla ég hér með eft­ir út­gef­anda,“ seg­ir Auður og hlær.

Kyrr­lát móðir er vit­ur móðir

Auður seg­ist al­sæl að fá að starfa á þess­um vett­vangi, enda sé það afar gef­andi. En hvers vegna ættu þungaðar kon­ur að skella sér í meðgöngujóga?

„Í fyrsta lagi til að geta átt eins góða fæðingu og þeim er unnt. Ég tala svo­lítið eins og trú­boði, en ég er með reynslu og á svo marg­ar góðar sög­ur. Ég get ekki lofað verkjalausri tveggja tíma fæðingu, það er ekki hægt. Hingað til hef­ur þó eng­in kona sagt að jóga hjálpi ekki. Jafn­vel þótt fæðing­in hafi endað í keis­ara. Það er til að mynda sagt að þær kon­ur sem stunda jóga fái síður fæðing­arþung­lyndi. Maður lær­ir að vera æðru­laus, en kyrr­lát móðir er vit­ur móðir. Stund­um eru kon­ur hrædd­ar þegar þær koma í jóga­tíma til mín en fara síðan full­ar af til­hlökk­un inn í fæðing­una. Marg­ar koma jafn­vel til mín í marg­ar meðgöng­ur, sem er mjög gam­an,“ seg­ir Auður og bæt­ir við að hún tvinni alltaf svo­litla fræðslu sam­an við tím­ana sína. Mesta áherslu legg­ur hún þó á að kenna svo­kallaða út­haf­sönd­un.

„Við þjálf­um ákveðna önd­un í þess­um tím­um og þótt hún komi fyr­ir í öðrum tím­um er hún miðjan í meðgöngujóga. Hún heit­ir út­haf­sönd­un, eða ujay, þar sem andað er eins og hafið. Því dýpri og ró­legri sem önd­un­in er, því betra. Það á þó við um alla, því að í streitu­ástandi eru all­ir með grynnri önd­un,“ bend­ir Auður á.

„Sam­drátt­ur er skort­ur á blóðflæði, en um leið og við auk­um súr­efn­is­flæði með djúpri önd­un auk­um við blóðflæði. Þannig geta kon­ur hjálpað bylgj­unni, eins og ég vil frek­ar kalla hríðirn­ar. Með því að vera slak­ar og ró­leg­ar geta kon­ur flýtt fæðing­unni og gert hana létt­ari. Í spennu og ótta er hætt við að fæðing­in verði bæði lengri og erfiðari.“

Auður bend­ir einnig á að jóga geti ekki ein­ung­is gagn­ast kon­um í fæðing­unni sjálfri, því meðgang­an geti bæði orðið ánægju­legri og auðveld­ari.

„Þetta er gott fyr­ir grind­ina og kon­ur finna fyr­ir meiri vellíðan á meðgöng­unni. Þær teygja á og losa um kálf­ana, bakið og mjaðmirn­ar svo eitt­hvað sé nefnt. Síðan er gott að koma inn í af­drep þar sem kon­ur eru mjúk­ar, þar sem þær eru að hugsa um sjálf­ar sig og bumbu­bú­ann. Það skipt­ir rosa­lega miklu máli að vera áminnt­ur um að hlusta á lík­amann, því stund­um æða kon­ur áfram og ætla bara að hvíla sig þegar kem­ur að 38. viku,“ seg­ir Auður.

Betra seint en aldrei

Það er ansi mis­jafnt hvenær kon­ur kjósa að mæta í meðgjöngujóga, en marg­ar bíða þar til farið er að sjást tölu­vert á þeim. Sum­ar byrja þó fyrr, eða í kring­um 14. til 16. viku. Marg­ar kon­ur stunda svo jóga al­veg fram að fæðingu.

„Sum­ar koma svo­lítið seint, en ég segi betra seint en aldrei. Þær eiga nefni­lega von á að koma í vellíðun­ar­hreiður þar sem þær geta látið spennu og þreytu leka úr sér.“

Aðspurð hvort það sé eitt­hvað sem þungaðar kon­ur ættu að var­ast þegar kem­ur að jóga seg­ir Auður að ekki sé æski­legt að barns­haf­andi kon­ur skelli sér í krefj­andi stöður sem þær kunna ekki skil á. Þá bend­ir hún einnig á að alltaf skuli hlusta á lík­amann.

„Barns­haf­andi kon­ur gera ekki ákveðnar önd­un­aræf­ing­ar. Þess vegna er gott að mæta í svo­lítið verndað um­hverfi og vera ekki að of­gera sér. Þetta er ekki tím­inn til að reyna of mikið á sig. Við ger­um þó stund­um æf­ing­ar til þess að æfa út­haldið og styrkja tauga­kerfið. Það styrk­ist nefni­lega ekk­ert án þess að við reyn­um á það,“ seg­ir Auður og bæt­ir við að stemn­ing­in í tím­um sé ein­stak­lega ljúf og kon­ur teng­ist gjarn­an sterk­um bönd­um.

„Oft eru kon­ur farn­ar að spjalla sam­an á göng­un­um eft­ir tíma og finna að þær eiga miklu meira sam­eig­in­legt en þær töldu fyrst. Í mömm­ujóga­hópn­um var til dæm­is ein sem bauð heim á dög­un­um. Nú eru þær komn­ar með klúbb, farn­ar að hitt­ast heima hjá hver ann­arri með börn­in. Það skap­ast vina­hóp­ar, sem er ynd­is­legt. Það er nefni­lega þannig að vin­kon­urn­ar eru ekki endi­lega á sama stað, þær nenna hugs­an­lega ekki að tala um prump, rop og blei­ur,“ seg­ir Auður að end­ingu létt í bragði.

mbl.is