Auður Bjarnadóttir hefur kennt meðgöngujóga í heil 17 ár, en sjálf kynntist hún því þegar hún gekk með yngsta son sinn. Auður hafði þá nýlokið jógakennaranámi og var búsett í Bandaríkjunum.
Auður Bjarnadóttir hefur kennt meðgöngujóga í heil 17 ár, en sjálf kynntist hún því þegar hún gekk með yngsta son sinn. Auður hafði þá nýlokið jógakennaranámi og var búsett í Bandaríkjunum.
Auður Bjarnadóttir hefur kennt meðgöngujóga í heil 17 ár, en sjálf kynntist hún því þegar hún gekk með yngsta son sinn. Auður hafði þá nýlokið jógakennaranámi og var búsett í Bandaríkjunum.
„Ég var að kenna almennt jóga þegar ég varð barnshafandi og lá fárveik í ógleði í tvo mánuði. Svo dröslaðist ég loks út úr húsi í svo frábært meðgöngujóga í Seattle. Ég átti dásamlega tíma, gott nám, og fæddi strákinn minn þar fyrir 17 árum. Segja má að þetta hafi verið jógafæðing, en ég var alsæl að geta andað barninu mínu í heiminn í öryggi. Þótt ég hafi átt tvö börn áður, og ágætar fæðingar, var þetta allt annað. Ég var meðvituð, yfirveguð og bjó yfir innra trausti til líkamans. Ég vissi að líkaminn kunni þetta, sem var magnað. Ég hugsaði með mér að þessu yrði ég að miðla og fór síðan að kenna þegar strákurinn minn var nokkurra mánaða gamall,“ segir Auður, en hvað merkir hugtakið jógafæðing?
„Ég nota gjarnan þessi orð: anda, slaka, treysta. Að anda rólega og slaka tekur konur úr óttanum, en með því móti eru þær að opna farveginn. Ef konan er hrædd spennist legið og allur líkaminn. Þá geta þær verið lengur að fara í gegnum hríðina auk þess sem það getur verið erfiðara að takast á við hana. Konur þurfa að læra að treysta líkamanum. Ef þær þurfa að dansa, eða gera eitthvað skrýtið, ættu þær að láta það eftir sér. Þetta er þeirra fæðing,“ segir Auður sem ekki einungis miðlar af eigin reynslu í jógatímum, því hún les gjarnan upp fæðingarsögur kvenna sem hafa stundað jóga hjá henni.
„Þá er ég ekki alltaf eins og rispuð plata að tala um sama hlutinn, heldur fæ ég innblástur frá öðrum konum. Ég er náttúrlega komin með fjársjóð af mögnuðum fæðingarsögum eftir þessi 17 ár. Það væri gaman að gefa þær út, og kalla ég hér með eftir útgefanda,“ segir Auður og hlær.
Auður segist alsæl að fá að starfa á þessum vettvangi, enda sé það afar gefandi. En hvers vegna ættu þungaðar konur að skella sér í meðgöngujóga?
„Í fyrsta lagi til að geta átt eins góða fæðingu og þeim er unnt. Ég tala svolítið eins og trúboði, en ég er með reynslu og á svo margar góðar sögur. Ég get ekki lofað verkjalausri tveggja tíma fæðingu, það er ekki hægt. Hingað til hefur þó engin kona sagt að jóga hjálpi ekki. Jafnvel þótt fæðingin hafi endað í keisara. Það er til að mynda sagt að þær konur sem stunda jóga fái síður fæðingarþunglyndi. Maður lærir að vera æðrulaus, en kyrrlát móðir er vitur móðir. Stundum eru konur hræddar þegar þær koma í jógatíma til mín en fara síðan fullar af tilhlökkun inn í fæðinguna. Margar koma jafnvel til mín í margar meðgöngur, sem er mjög gaman,“ segir Auður og bætir við að hún tvinni alltaf svolitla fræðslu saman við tímana sína. Mesta áherslu leggur hún þó á að kenna svokallaða úthafsöndun.
„Við þjálfum ákveðna öndun í þessum tímum og þótt hún komi fyrir í öðrum tímum er hún miðjan í meðgöngujóga. Hún heitir úthafsöndun, eða ujay, þar sem andað er eins og hafið. Því dýpri og rólegri sem öndunin er, því betra. Það á þó við um alla, því að í streituástandi eru allir með grynnri öndun,“ bendir Auður á.
„Samdráttur er skortur á blóðflæði, en um leið og við aukum súrefnisflæði með djúpri öndun aukum við blóðflæði. Þannig geta konur hjálpað bylgjunni, eins og ég vil frekar kalla hríðirnar. Með því að vera slakar og rólegar geta konur flýtt fæðingunni og gert hana léttari. Í spennu og ótta er hætt við að fæðingin verði bæði lengri og erfiðari.“
Auður bendir einnig á að jóga geti ekki einungis gagnast konum í fæðingunni sjálfri, því meðgangan geti bæði orðið ánægjulegri og auðveldari.
„Þetta er gott fyrir grindina og konur finna fyrir meiri vellíðan á meðgöngunni. Þær teygja á og losa um kálfana, bakið og mjaðmirnar svo eitthvað sé nefnt. Síðan er gott að koma inn í afdrep þar sem konur eru mjúkar, þar sem þær eru að hugsa um sjálfar sig og bumbubúann. Það skiptir rosalega miklu máli að vera áminntur um að hlusta á líkamann, því stundum æða konur áfram og ætla bara að hvíla sig þegar kemur að 38. viku,“ segir Auður.
Það er ansi misjafnt hvenær konur kjósa að mæta í meðgjöngujóga, en margar bíða þar til farið er að sjást töluvert á þeim. Sumar byrja þó fyrr, eða í kringum 14. til 16. viku. Margar konur stunda svo jóga alveg fram að fæðingu.
„Sumar koma svolítið seint, en ég segi betra seint en aldrei. Þær eiga nefnilega von á að koma í vellíðunarhreiður þar sem þær geta látið spennu og þreytu leka úr sér.“
Aðspurð hvort það sé eitthvað sem þungaðar konur ættu að varast þegar kemur að jóga segir Auður að ekki sé æskilegt að barnshafandi konur skelli sér í krefjandi stöður sem þær kunna ekki skil á. Þá bendir hún einnig á að alltaf skuli hlusta á líkamann.
„Barnshafandi konur gera ekki ákveðnar öndunaræfingar. Þess vegna er gott að mæta í svolítið verndað umhverfi og vera ekki að ofgera sér. Þetta er ekki tíminn til að reyna of mikið á sig. Við gerum þó stundum æfingar til þess að æfa úthaldið og styrkja taugakerfið. Það styrkist nefnilega ekkert án þess að við reynum á það,“ segir Auður og bætir við að stemningin í tímum sé einstaklega ljúf og konur tengist gjarnan sterkum böndum.
„Oft eru konur farnar að spjalla saman á göngunum eftir tíma og finna að þær eiga miklu meira sameiginlegt en þær töldu fyrst. Í mömmujógahópnum var til dæmis ein sem bauð heim á dögunum. Nú eru þær komnar með klúbb, farnar að hittast heima hjá hver annarri með börnin. Það skapast vinahópar, sem er yndislegt. Það er nefnilega þannig að vinkonurnar eru ekki endilega á sama stað, þær nenna hugsanlega ekki að tala um prump, rop og bleiur,“ segir Auður að endingu létt í bragði.