Á ekki afturkvæmt til Íraks

Frá Sýrlandi til Evrópu | 30. september 2017

Á ekki afturkvæmt til Íraks

Mohammed Salam al-Taie kom heldur óvenjulega leið til Íslands þar sem hann kom hingað frá Kína. Þar hafði hann búið í nokkur ár. Ekki var óhætt fyrir hann að snúa aftur til Íraks og því sá hann tvo kosti í stöðunni. Sækja um alþjóðlega vernd í Kanada eða Íslandi. Á leiðinni til Kanada millilenti hann á Keflavíkurflugvelli og sótti um hæli hér.  Útlendingastofnun veitti Mohammed fyrr á árinu dvalarleyfi af mannúðarástæðum og hefur hann leyfi til þess að dvelja hér í fjögur ár.

Á ekki afturkvæmt til Íraks

Frá Sýrlandi til Evrópu | 30. september 2017

Mohammed Salam al-Taie er menntaður fjarskiptaverkfræðingur frá Írak.
Mohammed Salam al-Taie er menntaður fjarskiptaverkfræðingur frá Írak. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mohammed Salam al-Taie kom heldur óvenjulega leið til Íslands þar sem hann kom hingað frá Kína. Þar hafði hann búið í nokkur ár. Ekki var óhætt fyrir hann að snúa aftur til Íraks og því sá hann tvo kosti í stöðunni. Sækja um alþjóðlega vernd í Kanada eða Íslandi. Á leiðinni til Kanada millilenti hann á Keflavíkurflugvelli og sótti um hæli hér.  Útlendingastofnun veitti Mohammed fyrr á árinu dvalarleyfi af mannúðarástæðum og hefur hann leyfi til þess að dvelja hér í fjögur ár.

Mohammed Salam al-Taie kom heldur óvenjulega leið til Íslands þar sem hann kom hingað frá Kína. Þar hafði hann búið í nokkur ár. Ekki var óhætt fyrir hann að snúa aftur til Íraks og því sá hann tvo kosti í stöðunni. Sækja um alþjóðlega vernd í Kanada eða Íslandi. Á leiðinni til Kanada millilenti hann á Keflavíkurflugvelli og sótti um hæli hér.  Útlendingastofnun veitti Mohammed fyrr á árinu dvalarleyfi af mannúðarástæðum og hefur hann leyfi til þess að dvelja hér í fjögur ár.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Að sögn Mohammed fór hann til Kína árið 2010 vegna ótryggs ástands í heimalandinu. Ástandið þar hafi lítið batnað eftir að Saddam Hussein var tekinn af lífi. Að minnsta kosti fyrir þá sem ekki eru hluti af spilltri yfirstétt landsins. Mikil pólitísk spilling viðgangist og þeir sem vogi sér að andmæla eigi á hættu að verða teknir af lífi.

Mohammed, sem er menntaður verkfræðingur, kenndi við tækniháskólann í Bagdad og varð það á að láta skoðanir sínar í ljós. Hann segir að annað hafi ekki verið hægt enda allt of algengt að einstaklingar fengju prófgráður án þess að hafa lokið námi á fullnægjandi hátt við skólann sem veitti þeim brautskráningarskírteinið.

Vegna pólitískrar og peningalegrar stöðu sinnar gátu þeir fengið stimpil frá einkaháskólum um að þeir hefðu lokið námi. Síðan gátu þeir farið út í atvinnulífið eða inn í stjórnsýsluna og haldið áfram að eyðileggja líf okkar hinna. „Við vitum jafnvel um þingmenn á íraska þinginu sem eru með falsaðar prófgráður frá háskólum en enginn segir neitt því það gæti kostað þig lífið,“ segir Mohammed.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mohammed Salam sótti um hæli hjá lögreglunni …
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mohammed Salam sótti um hæli hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hann segir þetta ekki snúast um trúarbrögð heldur miklu frekar græðgi. „Stöðuveitingar fara eftir því hvaða tengsl þú hefur. Á sama tíma og þessir menn ráða yfir gríðarlegum fjármunum er ekkert lagt í innviði landsins og margir búa við mjög bág kjör,“ segir Mohammed.

Hann segir vígasamtökin Ríki íslams ráða og al-Qaeda hafa mikil völd í Írak þannig að fólk er hvergi óhult. Hann lenti meðal annars tvisvar í árásum í Bagdad enda sjálfsvígsárásir og önnur tilræði algengar í borginni.

„Ástæðan fyrir því að ég endaði í Kína var sú að ég vildi komast sem lengst í burtu frá þessu öllu. Ég vil kenna og hef þráð það allt mitt líf – að vera háskólakennari. Ég hef glímt við fötlun í fótum frá fæðingu og því ljóst alla tíð að ég gæti ekki unnið erfiðisvinnu. Ég lagði metnað minn í að standa mig vel í skóla og gat því valið úr skólum í Kína til þess að stunda nám. Í Kína lenti ég hins vegar í umferðarslysi og er ég enn að glíma við meiðslin sem ég varð fyrir. 

Fyrsta árið var ég í kínverskunámi og lagði mig hart fram til þess að fá styrk til náms. Eftir að ég lauk MA-námi fjarskiptaverkfræði velti ég fyrir mér hvað ég gæti gert. Mér stóð til boða styrkur til þess að stunda doktorsnám í Kína en ég vissi að ég átti mér enga framtíð þar. Það fær enginn hæli í Kína og vonlaust að fá stöðu þar við mitt fag.

Ég á ekki afturkvæmt til heimalandsins og því fór ég að skoða hvert ég gæti farið. Kanada kom helst til greina og eitthvert Evrópuland sem tæki vel á móti fólki eins og mér og ég væri öruggur. Því fólk sem hefur barist með Ríki íslams eða trúir á skoðanir samtakanna er víða að finna en Ísland er öruggt land. Eins skipti máli hversu gott loftslagið er á Íslandi og hér býr velmenntað fólk. Ég keypti því farmiða til Kanada því ég vildi helst fara þangað en keypti miða með viðkomu á Íslandi. Þegar ég kom til Íslands ákvað ég að sækja um hæli hér og ég var svo lánsamur að íslensk yfirvöld samþykktu að veita mér alþjóðlega vernd,“ segir Mohammed.

Bílsprengjur og sjálfsvígsárásir eru tíðar í Írak.
Bílsprengjur og sjálfsvígsárásir eru tíðar í Írak. AFP

„Víðines skelfilegur staður“

Þar sem hann kom frá Kína og var með gilt vegabréf og alla pappíra í lagi var hann sendur á hótel eftir að hafa sótt um hæli  hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli. Þar dvaldi hann í rúma viku en þaðan fór hann í Víðines sem Útlendingastofnun hafi á leigu á þeim tíma.

„Víðines var skelfilegur staður. Vegna fötlunar minnar á ég erfitt með gang og Víðines er ekki í alfaraleið og því þurfti maður að ganga 4 km til að komast í strætó og þetta var að vetrarlagi.

Þetta var hræðilegt og ég fæ hroll við tilhugsunina um dvöl mína þarna. Maturinn var vart mönnum bjóðandi og ekkert tillit tekið til trúar fólks enda var maturinn sennilega ekki ætlaður fólki af ólíkum trúarbrögðum.

Fólk sem er á flótta er ekki á flótta að ástæðulausu. Íslensk stjórnvöld komu þessu fólki fyrir á stað þar sem þú hittir enga aðra en þá sem voru í sömu sporum og þú. Ekkert nema auðn um hávetur. Á meðan ég dvaldi þar hellti einn flóttamaðurinn yfir sig bensíni og kveikti í. Hann dó í desember í fyrra. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig okkur hinum leið sem vorum þarna þegar þetta gerðist,“ segir Mohammed.

Útlend­inga­stofn­un tók Víðines á leigu síðasta haust eft­ir að veggjal­ús kom upp í hús­næði sem stofn­un­in var með í Bæj­ar­hrauni. Voru um fjöru­tíu hæl­is­leit­end­ur flutt­ir upp í Víðines. Á sama tíma hafði hælisumsóknum fjölgað mjög sem þýddi að lengri tíma tók að afgreiða umsóknir. 

Víðines fyrir ári.
Víðines fyrir ári. mbl.is/Árni Sæberg

Árið 2016 voru umsóknir um vernd á Íslandi rétt um 1130 eða rúmlega þrisvar sinnum fleiri en árið áður. Um 60% umsækjenda komu frá tveimur löndum, Makedóníu og Albaníu. Niðurstaða fékkst í um 980 umsóknum, fleiri en nokkru sinni áður, en meðalafgreiðslutími umsókna var styttri en árið á undan eða 80 dagar.

Upp­haf­leg­ur leigu­samn­ing­ur um Víðines var til þriggja mánaða, en samn­ing­ur­inn var síðan fram­lengd­ur. Honum var sagt upp í sumar og hafa engir hælisleitendur dvalið þar síðan í lok júní.

Útlendingastofnun er með samning við þrjú sveitarfélög varðandi þjónustu við hælisleitendur. Reykjavík hefur skuldbundið sig til að þjónusta allt að 200 umsækjendur um alþjóðlega vernd, Reykjanesbær 70 og Hafnarfjarðarbær 15.

Ef skyndileg fjölgun verður á umsóknum er hægt að semja um fleiri rými við sveitarfélögin, samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun.

Úrræði á vegum Útlendingastofnunar eru: Arnarholt 100 rými, Bæjarhraun 70 rými og Ásbrú 80-90 rými. Auk þess sem rekin eru smærri úrræði  á höfuðborgarsvæðinu.

Mohammed Salam er mikill námsmaður og örugglega ekki langt í …
Mohammed Salam er mikill námsmaður og örugglega ekki langt í að íslenska bætist í hóp þeirra tungumála sem hann talar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikill stuðningur frá Rauða krossinum

Mohammed dvaldi í einn mánuð í Víðinesi en fékk síðan flutning þar sem það reyndist honum of erfitt að búa þar. Var það að læknisráði sem hann fékk húsnæði annars staðar þar sem hann annaðist sjálfur eldamennsku og annað. Þar var hann hins vegar með herbergisfélaga sem átti í verulegum erfiðleikum og eiginlega ekki húsum hæfur segir Mohammed. Versta var að honum var úthlutað svefnpláss í efri koju sem var nánast ógjörningur fyrir hann að komast í og úr vegna fötlunar.

„En ég get ekki kvartað – ég ákvað það sjálfur að koma hingað. Ísland sóttist ekki eftir mér heldur var það ég sem sóttist eftir að koma hingað. Ég hef því bara bitið á jaxlinn og tekið þessu með jafnaðargeði. Því hér er ég öruggur um líf mitt,“ segir Mohammed sem hefur leigt herbergi með aðgang að eldhúsi frá því hann fékk tímabundið skjól hér.

Frá Írak fyrr í mánuðinum.
Frá Írak fyrr í mánuðinum. AFP

„Rauði krossinn reyndist mér mjög vel og starfsmenn þar hafa veitt mér ótrúlega aðstoð og stuðning. Starfið sem er unnið þar er ómetanlegt. Þau aðstoðuðu mig við að finna herbergi eftir að ég fékk hæli í febrúar, þremur mánuðum eftir komuna til Íslands. Ég er ekki með aðgang að baðaðstöðu en ég hef ekki fjármagn til þess að leigja dýrara húsnæði en þetta því ég hef þurft á talsverði læknisaðstoð að halda og fór einnig í röntgen sem kostar sitt. Ég reyni að láta enda ná saman og er að vonast til þess að finna einhverja vinnu. Það hefur ekki gengið upp þrátt fyrir tugi umsókna því ég get því miður ekki unnið erfiðisvinnu né heldur þar sem ég þarf að standa mikið eða ganga um,“ segir Mohammed.

Draumurinn er að fara í doktorsnám

Tvisvar til þrisvar í viku tekur hann þátt í starfi Rauða krossins sem segir að þetta skipti hann miklu máli. Þar starfar hann sem sjálfboðaliði við að aðstoða fólk sem er að sækja um hæli hér. Rauði krossinn sé með opið hús fyrir hælisleitendur á tveimur stöðum, í Efstaleiti og í Reykjanesbæ.

„Fólk er velkomið þangað og getur fengið aðstoð varðandi ýmis mál, segir Mohammed og bætir við: „Ég tala ensku, arabísku, persnesku og fleiri tungumál. Jafnvel kínversku en það hefur lítið reynt á þá kunnáttu frá því ég kom hingað,“ segir Mohammed og hlær.

Hann þekki hér fáa og eigi í raun enga vini hér á landi. Draumurinn sé að komast í doktorsnám á Íslandi og verða hluti af háskólasamfélaginu. Einn þeirra sem hefur aðstoðað Mohammed er Sigurjón Unnar Sveinsson, lögmaður Öryrkjabandalagsins, en hann hefur meðal komið á sambandi við Háskóla Íslands. Þar hafi menn tekið vel í þessa málaleitan hans þannig að Mohammed er bjartsýnn á framhaldið.

„Ég hef eytt allri minni ævi í nám og innan veggja skóla. Ég mun vonandi kynnast Íslendingum síðar meir. Fólki sem er með svipuð áhugamál og starfa á sama sviði og ég er sérhæfður í. Því þrátt fyrir að hér sé búsett fólk frá Mið-Austurlöndum þá er ekki hægt að setja samansem merki við alla. Ekkert frekar en að allir Íslendingar séu vinir. Lífið er bara ekki þannig.

Ríki íslams eru glæpasamtök ekki trúarsamtök.
Ríki íslams eru glæpasamtök ekki trúarsamtök. AFP

Ég er heppinn því það eru ekki allir jafnheppnir og ég. Í fyrsta lagi að fá hæli og í öðru lagi á svo stuttum tíma. Þar skipti máli að ég tala ensku og þurfti því ekki túlkaþjónustu að halda sem flýttu ferlinu og eins eru fingraför mín hvergi á skrá annars staðar í Evrópu og því var ekki hægt að skýla sér á bak við Dyflinnarreglugerðina og reka mig úr landi,“ segir Mohammed.

Ríki íslams eru glæpasamtök ekki trúarsamtök

Mohammed segist upplifa sig öruggan á Íslandi enda vart hægt að finna öruggara land fyrir fólk sem hefur lent í andstöðu við vígasamtök eins og Ríki íslams eða al-Qaeda.

„Því margir þeirra sem berjast með þessum samtökum eru ekki frá ríkjum eins og Írak og Sýrlandi heldur Evrópubúar.  Ríki íslams á ekkert sameiginlegt með íslam eða trúarbrögðum líkt og margir halda fram. Þeirra helstu fórnarlömb eru múslímar og baráttumál þeirra brjóta gegn öllu því sem við múslímar trúum. Þetta eru glæpasamtök og morðingjar. Ekkert annað. Þetta er hugmyndafræði sem gengur gegn öllu því sem öll trúarbrögð boða. Hvort sem það er íslam, kristni eða hvað sem er,“ segir Mohammed.

Fjölskylda Mohammeds er enn að hluta í Írak og fékk hún lítinn frið eftir að Mohammed náði að forða sér úr landi. Systir hans og mágur, sem starfaði fyrir bandarísk yfirvöld í Írak, fengu hæli í Bandaríkjunum og munu væntanlega aldrei snúa aftur til Írak. Síðan hefur fjölskyldan smátt og smátt verið að forða sér úr landi. Bróðir hans fór til Rússlands til þess að læra rússnesku og komst þannig í burtu og annar bróðir hans býr í Evrópu. Því miður veit Mohammed ekki hvar hann er því hann glímir við erfiðleika og er því sífellt á faraldsfæti. „Þetta er sárt því þetta er litli bróðir minn. Ég vona bara að hann verði ekki sendur aftur til Írak aftur.“

Mohammed segist sakna akademíunnar en ár er liðið síðan hann var síðast hluti af því samfélagi. „Vonandi þarf ég ekki að bíða mikið lengur. Því þar nýtast hæfileikar mínir. Ekki í einu herbergi þar sem ég reyni að láta tímann líða,“ segir Mohammed sem stefnir á íslensku fyrir útlendinga við Háskóla Íslands.

Hann telur að það nám muni nýtast honum betur en þeir íslenskuáfangar sem hann hafi tekið hingað til hér á landi í málaskóla Mímis.

mbl.is/Kristinn Garðasson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is