Rosemary Atieno Odhiambo og Paul Ramses Oduor búa í Hafnarfirði ásamt börnum sínum tveimur, Fidel Smára, sem er 9 ára og Rebekkah Chelsea sem er 7 ára. Börnin þeirra eru bæði fædd á Íslandi en Rosemary og Paul eru bæði frá Naíróbí í Kenýa og höfðu þekkst lengi áður en þau komu hingað til lands. Mál þeirra var mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni árið 2008 þegar Paul var fluttur í lögreglufylgd úr landi. Sú velvild sem þau fundu hjá Íslendingum gerði líf þeirra bærilegt á dimmum dögum í þeirra lífi.
Rosemary Atieno Odhiambo og Paul Ramses Oduor búa í Hafnarfirði ásamt börnum sínum tveimur, Fidel Smára, sem er 9 ára og Rebekkah Chelsea sem er 7 ára. Börnin þeirra eru bæði fædd á Íslandi en Rosemary og Paul eru bæði frá Naíróbí í Kenýa og höfðu þekkst lengi áður en þau komu hingað til lands. Mál þeirra var mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni árið 2008 þegar Paul var fluttur í lögreglufylgd úr landi. Sú velvild sem þau fundu hjá Íslendingum gerði líf þeirra bærilegt á dimmum dögum í þeirra lífi.
Rosemary Atieno Odhiambo og Paul Ramses Oduor búa í Hafnarfirði ásamt börnum sínum tveimur, Fidel Smára, sem er 9 ára og Rebekkah Chelsea sem er 7 ára. Börnin þeirra eru bæði fædd á Íslandi en Rosemary og Paul eru bæði frá Naíróbí í Kenýa og höfðu þekkst lengi áður en þau komu hingað til lands. Mál þeirra var mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni árið 2008 þegar Paul var fluttur í lögreglufylgd úr landi. Sú velvild sem þau fundu hjá Íslendingum gerði líf þeirra bærilegt á dimmum dögum í þeirra lífi.
Hann fékk síðar að snúa aftur til Íslands þar sem eiginkona hans og nýfæddur sonur biðu. Þau fengu pólitísk hæli á Íslandi árið 2010 og hafa frá þeim tíma búið í Hafnarfirði þar sem þau una hag sínum vel.
Paul kom fyrst til Íslands skömmu fyrir áramótin 2004/2005 sem skiptinemi á vegum samtakanna AUS, Alþjóðleg ungmennaskipti og kynntist þannig starfi ABC-barnahjálpar.
Rosemary kom hingað árið 2007 en hún var skiptinemi í Svíþjóð á þeim tíma. Hún hefur búið hér síðan um áramótin 2007/2008.
Paul fór aftur til Kenýa þar sem hann starfaði meðal annars fyrir ABC-barnahjálp. Þar tók hann þátt í stjórnmálastarfi og bauð sig fram fyrir hönd stjórnmálaflokks sem tapaði í borgarstjórnarkosningunum í Naíróbí árið 2007. Hann var handtekinn og beittur skelfilegum pyntingum í haldi lögreglu. Hann glímir enn við bakmeiðsli eftir pyntingarnar en hryggjarliðir losnuðu og getur hann ekki lengur unnið við þjónustustörf sem hann vann við í mörg ár hér á landi. Paul flúði til Íslands um áramótin 2007/2008.
Rosemary kom frá Svíþjóð í heimsókn til Pauls á Íslandi en þau höfðu gengið í hjónaband nokkru áður í Kenýa. Hún sneri ekki aftur til Svíþjóðar vegna þess hve alvarleg staða Pauls var eftir að hann komst hingað.
„Bæði andlegt og líkamlegt ástand hans var hræðilegt og þótti ekki óhætt fyrir hann að vera einn,“ segir Rosemary.
Rauði krossinn óskaði eftir því við Útlendingastofnun að hún fengi að vera hjá honum hér á landi. Hún var á þessum tíma þunguð af syni þeirra, Fidel.
Paul Ramses óskaði eftir hæli á Íslandi í ársbyrjun 2008 og fljótlega eftir það sótti Rosemary einnig um hæli hér á landi en hún með dvalarleyfi í Svíþjóð til tveggja ára. Þau segja að fulltrúar Útlendingastofnunar hafi sótt það fast að Rosemary yfirgæfi landið og í hverri viku var hringt í Rosemary og hún spurð hvenær hún ætlaði að koma sér úr landi.
Þau segja bæði að þeim hafi strax liðið vel hér á landi fyrir utan þessi þessi símtöl sem Rosemary fékk alltaf á sama tíma í hverri viku frá Útlendingastofnun. Paul hafði búið hér lengi og átti hér vini og kunningja, meðal annars í Fíladelfíu þar sem hann sótti samkomur.
Starfsfólk í heilbrigðiskerfinu sinnti þeim mjög vel og eru þau hjón afar þakklát í þeirra garð. Rosemary fékk afar góðan stuðning á meðgöngunni. Undir lok maí 2008 fæddist Fidel Smári og nokkrum vikum síðar var Paul fluttur úr landi af íslenskum yfirvöldum.
Viku áður en Paul var vísað úr landi hafði Rauði krossinn samband við hann og lögreglan. Hann vildi frekar fara til Rauða krossins þar sem starfsfólkið þar hafði verið þeim afar hjálplegt alla tíð. Paul skrifaði undir skjöl þar sem óskað var eftir því að mál þeirra yrði tekið fyrir á Íslandi. Rosemary var mjög veikburða eftir fæðinguna og sinnti Paul henni og nýfæddum syni. Þau segja að litli drengurinn hafi verið þeim efst í huga á þessum tíma og það sem skipti þau öllu máli að sinna honum.
Fyrsti dagur júlímánaðar 2008 rennur þeim ekki úr minni en þann dag fór Paul á skrifstofu Þjóðskrár Íslands að sækja fæðingarvottorð Fidels. „Ég sagði Rosemary að ég yrði í einhverja tvo tíma en þegar ég var að fara frá Þjóðskrá og var kominn að Fíladelfíu hringdi lögreglan í mig. Ég var spurður hvar ég væri og ég sagði þeim það. Lögreglumaðurinn bað mig um að koma á lögreglustöðina við Hlemm þar sem ég var handjárnaður,“ segir Paul.
Paul segist ekki hafa verið neitt annað á sér en síma og fæðingarvottorðs Fidels. Eftir einhverja stund var ákvörðunin um brottvísun lesin upp fyrir hann. „Mér var sagt að ég væri handtekinn og yrði fluttur úr landi til Ítalíu. Ég bað um að fá að tala við lögfræðing minn og lögreglan samþykkti það strax.
Hann hringdi í Katrínu Theodórsdóttur lögfræðing og hún ræddi bæði við lögreglu auk fleiri til þess að reyna að koma í veg fyrir að Paul yrði sendur úr landi.
Paul og Rosemary rifja upp eitt sem situr í þeim eftir þennan sólarhring. Þegar Paul bað um að fá að hitta konu sína. „Lögreglan tók illa í þá málaleitan og spurðu Paul hvort hún væri íslensk. Nei, hún er frá Afríku. Er hún svört spurðu þeir þá. Já hún er frá Kenýa. Nei við viljum ekki svartar konur hingað. Þær eru til vandræða, gera allt vitlaust og jafnvel afklæðast,“ segir Paul að lögreglumaðurinn hafi sagt við hann. Rosemary og Paul segjast enn verða kjaftstopp þegar þau hugsa til þessara ummæla sem féllu um Rosemary.
Síðar þennan dag fékk Rauði krossinn heimild til þess að fara með Paul heim til Rosemary og Fidel Smára. Þar fékk hann að taka með sér föt og ýmislegt annað, svo sem tölvu. Þaðan var farið með hann aftur á lögreglustöðina þar sem hann gisti um nóttina. Seint um kvöldið komu vinir þeirra frá kirkju hvítasunnusafnaðarins, Fíladelfíu, og báðu með Paul á lögreglustöðinni. Paul segist aldrei gleyma þeirri stund og hversu vel menn eins og Vörður Leví Traustason, sem þá var forstöðumaður Fíladelfíu, reyndust þeim.
Lögreglan tjáði Paul á lögreglustöðinni að fyrirskipun um að Paul yrði vísað úr landi strax hafi komið til Útlendingastofnun úr dómsmálaráðuneytinu en að sögn Paul var ekki einu sinni búið að boða hann í viðtal hjá Útlendingastofnun á þessum tíma. Honum var boðið að áfrýja niðurstöðu Útlendingastofnunar en það breytti því ekki hann yrði fluttur úr landi morguninn eftir.
„Fyrirskipunin sem lögreglan hafði fengið var að fara með Paul Ramses úr landi og það strax,“ segir Paul. Mál Rosemary og Fidels yrði tekið fyrir síðar.
Paul var fluttur með flugi fyrst til Þýskalands og þaðan til Rómar. Var það í fyrsta skipti sem Paul kom til Ítalíu en þegar hann kom til Íslands fór hann um London og því ekki vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Á Evrópuvefnum segir svo um reglugerðina: „Dyflinnarreglugerðin, með síðari breytingum, felur í sér viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða Schengen-ríki beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar sem einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkja Schengen-svæðisins. Þannig er stjórnvöldum heimilað að senda viðkomandi hælisleitanda aftur til þess Schengen-ríkis sem hann kom fyrst til. Í nýjustu Dyflinnarreglugerðinni er þó kveðið á um að ekki megi senda hælisleitanda aftur til ríkis þar sem hætta er á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og bann hefur verið lagt við flutningum hælisleitenda til Grikklands næstkomandi tvö ár. Hægt er að áfrýja öllum ákvörðunum um flutning og á meðan beðið er eftir niðurstöðu í slíkum áfrýjunarmálum hefur hælisleitandi rétt á að vera áfram í því ríki sem hann er staddur þá stundina.“
Í yfirlýsingu sem Útlendingastofnun sendi á fjölmiðla 4. júlí 2008 kom fram að Ítalir hafi veitt Paul Ramses vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið. Segir í yfirlýsingunni að þótt Útlendingastofnun (ÚTL) leggi jafnan áherslu á að fjalla ekki opinberlega um mál þeirra einstaklinga sem þar eiga erindi til afgreiðslu sé óhjákvæmilegt að gera grein fyrir nokkrum staðreyndum og sjónarmiðum stofnunarinnar um mál Paul Ramses og fjölskyldu hans.
„Samkvæmt upplýsingum frá Paul ákváðu ítölsk yfirvöld að veita honum vegabréfsáritun vegna þeirrar aðstöðu sem hann var í í heimalandi sínu. Þessi áritun gilti frá 12.01.2008 - 20.02.2008. Paul kom til Íslands um miðjan janúar,“ segir meðal annars í yfirlýsingu ÚTL en hana er hægt að lesa í heild hér.
Paul segir að eftir að hafa lent í höndum lögreglu í Naíróbí hafi honum verið sagt að forða sér með hraði úr landi því ljóst væri að á endanum yrði hann drepinn. Hann fór í ítalska sendiráðið í Naíróbí þar sem það var eina evrópska sendiráðið sem var opið þennan dag og fékk þar vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið. Þaðan fór hann út á flugvöll og flúði til Íslands í gegnum London. Því þrátt fyrir að eiginkona hans hafi verið í Svíþjóð á þessum tíma þá átti hann hér vini og hafði búið lengi. Ísland var í hans huga öruggasti staðurinn á jörðinni og því vildi hann koma aftur hingað þar sem hann fengi skjól.
Paul dvaldi í miðstöð fyrir flóttafólk í Róm þar sem fólk var af mörgum þjóðernum. „Þetta var fólk sem hafði gengið í gegnum skelfilega hluti, bæði í heimalandinu og á flóttanum. Fólki sem leið hræðilega og óttaðist það mest að vera sent aftur heim,“ segir Paul.
Að sögn Paul virtust ítölsk yfirvöld vera jafnhissa og hann á því hvers vegna hann var sendur þangað af íslenskum yfirvöldum. Sennilega hafi það verið vegna samnings íslenskra yfirvalda við ítölsk yfirvöld þegar hælisleitendum var vísað úr landi á Íslandi.
„Þeir spurðu mig hvaðan ég væri og ég sagði þeim að ég væri frá Kenýa. En þú kemur frá Íslandi? Já, ég er frá Kenýa en bý á Íslandi. Hversu lengi og ég sagði þeim að ég hafi búið meira og minna á Íslandi í fjögur ár,“ segir Paul og bætir við: „Þeir spurðu síðan hvort ég hefði sótt um hæli á Ítalíu og ef ekki hvers vegna ég væri hér. Þeir komu með mig hingað, svaraði ég,“ segir Paul.
Næstu dagar fóru í bið en svo var Paul tjáð að hann yrði að útvega sér lögfræðing á Ítalíu. Þar kom ræðismaður Íslands í Róm Paul til bjargar að beiðni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem þá var utanríkisráðherra. Rosemary og Paul segja að hún hafi unnið kraftaverk innan stjórnkerfisins við að veita Paul aðstoð en fylgst var með málinu víða.
Á meðan var Rosemary ein á Íslandi með Fidel litla. „En ég var ekki ein því þarna upplifði ég sennilega mesta kærleik sem til er. Á hverjum degi kom einhver og færði mér mat og útvegaði bleyjur og aðrar nauðsynjar fyrir litla drenginn minn. Ég mun aldrei getað þakkað þessu fólki nógsamlega fyrir alla aðstoðina því þetta fólk gerði líf mitt bærilegt,“ segir Rosemary.
Aðfaranótt 26. ágúst 2008 kom Paul aftur til Íslands eftir að hafa dvalið á Ítalíu í tæpa tvo mánuði. Var það eftir að dómsmálaráðuneytið úrskurðaði að mál hans yrði tekið fyrir á Íslandi. Dómsmálaráðuneytið féllst ekki á þau rök að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi verið haldin annmörkum þannig að það valdi ógildingu ákvörðunarinnar. Ráðuneytið sagði hins vegar að í ljósi nýrra upplýsinga, sem ekki hafi legið fyrir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, væri rétt að taka mál hans til efnislegrar umfjöllunar hér á landi. Byggði þetta á grundvelli undanþáguheimildar Dyflinnarreglugerðarinnar, en ákvörðunina má lesa hér.
Eðlilega voru miklir fagnaðarfundir þegar fjölskyldan sameinaðist á Íslandi. „Ég vissi ekki á þessum tíma hver örlög okkar yrðu en þessi velvilji og ást sem íslenska þjóðin sýndi okkur gerðu líf okkar bærilegt,“ segir Rosemary og bætir við að fjölmargir hafi veitt þeim aðstoð, svo sem Hörður Torfason og miklu fleiri.
Þau segjast ekki enn skilja í því hvers vegna Útlendingastofnun brást við á þennan hátt í þeirra máli þar sem lítill vilji hafi verið til þess að kynna sér aðstæður þeirra í Kenýa. Þau telja að miklar framfarir hafi orðið í þessum málaflokki hjá Útlendingastofnun. Þar skipti máli aukin þekking á málaflokknum með fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd hér.
Fjölmiðlar hafi fylgst grannt með málinu og efast þau ekki um að það hafi haft áhrif á lyktir málsins enda hálfgert prófmál á hvernig tekið var á málum hælisleitenda hér á landi.
Um svipað leyti og þau fengu varanlegt dvalarleyfi á Íslandi fluttu þau í Hafnarfjörð. Þar komst Fidel strax á leikskóla sem ekki hafði verið í boði í Reykjavík.
Þau segjast hins vegar ekki hugsa mikið um þetta lengur. Börnin þeirra eru alsæl í skóla og íþróttum sem þau stunda af fullum krafti. Rosemary er að læra klassískan söng í Söngskólanum en Paul, sem hefur unnið ýmis störf frá því hann kom hingað fyrst, er óvinnufær vegna meiðsla sem hann varð fyrir í haldi lögreglunnar í Naíróbí fyrir tíu árum.
Þau stofnuðu kristileg góðgerðarsamtök, Tears children and youth aid, fyrir nokkrum árum og reka nú leikskóla og grunnskóla í Kenýa fyrir peninga sem þau hafa safnað með því að safna flöskum og dósum. Yfir 400 börn njóta menntunar á þeirra vegum í gamla heimalandinu en þangað hafa þau farið eftir að þau fengu dvalarleyfi á Íslandi. Stjórnmálaástandið þar hefur batnað en er samt mjög óstöðugt.
Þau eru fegin að búa á Íslandi því hér er miklu betra að vera heldur en á mörgum öðrum stöðum á Vesturlöndum. Eða eins og Paul segir – að vera svartur á Íslandi er miklu betra en að vera svartur í Bandaríkjunum á tímum Donald Trump forseta. Bandaríkin, Bretland og fleiri ríki eru ekki að veita fólki í neyð aðstoð en það gera Íslendingar. „Hér býr gott fólk og fyrir það erum við þakklát.“
„Ísland gæti hins vegar auðveldlega tekið við fleiri flóttamönnum. Út um allan heim er fólk að flýja hörmungar. Sjáðu rohingja sem eru ofsóttir í Búrma. Ekki gleyma því að innflytjendur eru auðlind sem skilar sér í betra samfélagi. Við megum ekki gleyma því að Ísland er kannski ekki stórt land en það getur veitt fólki sem er á flótta upp á líf eða dauða aðstoð í miklu meira mæli en nú er,“ segir Paul.
„Við gáfumst aldrei upp,“ segir Rosemary og bætir við „því Ísland er landið okkar og hér viljum við vera og að börnin okkar alist hér upp. Þau hafa aldrei orðið fyrir fordómum vegna litarháttar enda fædd og uppalin á Íslandi sem Íslendingar. Hér alast börn upp við góðar aðstæður og þau geta leikið sér úti án þess að við þurfum að hafa áhyggjur. Ísland er heimili okkar,“ segir Rosemary.
„Mér var alltaf tekið vel af Íslendingum og hvar sem ég hef unnið hefur mér mætt vinsemd. Ég vann á kaffistofunni hjá Samhjálp og kynntist þar fólki sem er gott fólk en hefur orðið utangarðs í samfélaginu vegna vandamála sem það glímir við. En það breytir því ekki að þetta er gott fólk. Því þrátt fyrir smæð landsins er hjartað stórt,“ segir Paul.