Seldi í Sjóði 9 dagana fyrir hrun

Sjóður 9 | 6. október 2017

Seldi allt í Sjóði 9 dagana fyrir hrun

Ný gögn sem Stundin birtir í samstarfi við The Guardian og Reykjavik Media sýna að Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður og núverandi forsætisráðherra, seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana fyrir bankahrunið, eftir að hafa meðal annars setið fund sem þingmaður um alvarlega stöðu bankans.

Seldi allt í Sjóði 9 dagana fyrir hrun

Sjóður 9 | 6. október 2017

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný gögn sem Stundin birtir í samstarfi við The Guardian og Reykjavik Media sýna að Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður og núverandi forsætisráðherra, seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana fyrir bankahrunið, eftir að hafa meðal annars setið fund sem þingmaður um alvarlega stöðu bankans.

Ný gögn sem Stundin birtir í samstarfi við The Guardian og Reykjavik Media sýna að Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður og núverandi forsætisráðherra, seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana fyrir bankahrunið, eftir að hafa meðal annars setið fund sem þingmaður um alvarlega stöðu bankans.

Líkt og fram kom á mbl.is 1. október 2008 var lokað fyrir viðskipti með bréf í Sjóði 9 tímabundið 30. september 2008 vegna stöðu hans en opnað fyrir viðskiptin stuttu síðar. Bankinn hafði verið þjóðnýttur 29. september.

Dag neyðarlaganna, þann 6. október, miðlaði hann upplýsingum um störf FME til framkvæmdastjóra hjá Glitni. Gögnin sýna einnig að Bjarni byrjaði að selja hlutabréf sín í Glitni fyrir um 120 milljónir króna tveimur dögum eftir að hann fundaði sérstaklega með bankastjóra Glitnis sem þingmaður.

Stundin: „Bjarni ben segir að fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna“

Stundin: Seldi í Sjóði 9 sama dag og neyðarlögin voru sett

Stundin: Benedikt var leystur undan sjálfskuldarábyrgð skömmu fyrir þjóðnýtingu Glitnis

Í frétt Stundarinnar kemur fram að Bjarni hafi selt fyrir rúmlega 50 milljónir króna í  Sjóði 9 hjá Glitni banka dagana 2. til 6. október árið 2008.

Bjarni hafði á þessum tíma, vegna stöðu sinnar sem þingmaður, aðgang að upplýsingum um raunverulega stöðu Glitnis vegna þátttöku sinnar á fundum um slæma stöðu bankans og fjármálakerfisins í heild, segir í frétt Stundarinnar.

Sama dag, 6. október, miðlaði Bjarni upplýsingum um vinnu Fjármálaeftirlitsins í aðdraganda bankahrunsins til framkvæmdastjóra hjá Glitni, sem er vinur hans. Faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, og föðurbróðir hans, Einar Sveinsson, seldu einnig  í Sjóði 9 dagana fyrir bankahrunið 2008. 

Upplýsingarnar um sölu Bjarna Benediktssonar og ættingja hans á eignunum í Sjóði 9 og tölvupóstssamskiptin við starfsmann Glitnis koma fram í gögnum innan úr Glitni banka sem Stundin hefur undir höndum og vinnur úr í samstarfi við Reykjavík Media og breska blaðið Guardian.

ég man ekki eftir því... 

Í viðtali í þættinum Víglínunni á Stöð 2 í desember í fyrra sagði Bjarni Benediktsson, spurður  um hvort hann sjálfur hefði átt í Sjóði 9 og selt eitthvað sjóðnum dagana fyrir bankahrunið: „Ekkert sem skiptir máli. Ég átti á sínum tíma eitthvað í Sjóði 9 en ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til að hafi skipt einhverju máli.“

„Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?“ Þannig komst Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Glitnis og vinur Bjarna Benediktssonar, að orði í tölvupósti til Atla Rafns Björnssonar, aðstoðarmanns Lárusar Weldings bankastjóra Glitnis, þann 6. október 2008 klukkan 14:15. Í tölvupóstinum er líklega vísað til Jónasar Fr. Jónssonar sem var forstjóri Fjármálaeftirlitsins á þessum tíma. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Stundinni í dag.

Benedikt Sveinsson,faðir Bjarna, var leystur undan sjálfskuldarábyrgð vegna lána Glitnis til Hafsilfurs, eignarhaldsfélags síns, í aðdraganda bankahrunsins. Þetta kemur einnig fram í Stundinni sem kom út í dag.

Beiðni um niðurfellingu sjálfskuldarábyrgðarinnar barst í ágúst árið 2007 en var afgreidd í tölvukerfi bankans þann 29. september 2008, sama dag og Glitnir var þjóðnýttur. Þremur dögum áður, þann 26. september, hafði Benedikt innleyst 500 milljóna eignir úr Sjóði 9 og sent til Flórída. 

„Hvort tveggja, niðurfelling sjálfskuldarábyrgðarinnar og 500 milljóna greiðslan til Flórída, var á meðal þess sem slitastjórn Glitnis tók til sérstakrar skoðunar á árunum eftir hrun sem möguleg riftunarmál í ljósi innherjaupplýsinga sem talið var hugsanlegt að Benedikt hefði búið yfir. Á endanum þótti þó ekki ástæða til að láta reyna á málin fyrir dómstólum,“ segir í Stundinni í dag.

„Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma“

Bjarni Benediktsson segir í samtali við blaðamann The Guardian, sem vinnur að málinu með Stundinni, að hann hafi selt eignir í Sjóði 9 í aðdragana bankahrunsins. Hann segist ekki hafa búið yfir neinum innherjaupplýsingum um neyðarlögin á þessum tíma og að sölur  í Sjóði 9 hafi verið rannsakaðar og ekkert hafi komið út úr þeim rannsóknum. Svo segir Bjarni: „Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma.“ Bjarni vill ekki gefa nákvæmar upplýsingar um tímasetningar og upphæðir í málinu.

Aðspurður um samtalið við Einar Örn Ólafsson segir hann „Ég hafði enga vitneskju um neyðarlögin. Ég bjó ekki yfir neinum trúnaðarupplýsingum. Það getur verið að ég hafi hringt í hann en ég man ekki eftir því. En, og það sem er mikilvægast, þá hafði ég engar trúnaðarupplýsingar fram að færa á þessum tíma.“ 

Bjarni segir jafnframt aðspurður að hann skilji af hverju fólki kunni að þykja viðskiptaumsvif hans á árunum fyrir hrunið að vera einkennileg og óviðeigandi. „Skömmu eftir þessa atburði sagði ég að það væri ekki viðeigandi fyrir mig að halda áfram að starfa í stjórnmálum og viðskiptum á sama tíma. Ég seldi öll mín hlutabréf, hætti starfi í stjórnum og einbeitti mér að mínum pólitíska ferli. Þetta hefur allt verið rannsakað og ekki einu sinni hefur verið haft samband við mig út af þessu.“

mbl.is