„Nú er nokkur tími liðinn frá því að mesta moldviðrið gekk yfir í málinu sem kennt er við uppreist æru.“ Þannig hefst Facebook-færsla Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún fer yfir mál er varða uppreist æru en hún segir það hafa verið mikla reynslu fyrir nýjan þingmann.
„Nú er nokkur tími liðinn frá því að mesta moldviðrið gekk yfir í málinu sem kennt er við uppreist æru.“ Þannig hefst Facebook-færsla Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún fer yfir mál er varða uppreist æru en hún segir það hafa verið mikla reynslu fyrir nýjan þingmann.
„Nú er nokkur tími liðinn frá því að mesta moldviðrið gekk yfir í málinu sem kennt er við uppreist æru.“ Þannig hefst Facebook-færsla Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún fer yfir mál er varða uppreist æru en hún segir það hafa verið mikla reynslu fyrir nýjan þingmann.
Hún segir að fólk sem hafi fjallað um málið hafi setið undir rakalausum dylgjum um lygar og leyndarhyggju þó slíkt væri fjarri sannleikanum. Þrátt fyrir að málinu sé lokið kveðst Hildur vilja greina frá nokkrum staðreyndum sem að hennar mati hafi verið afbakaðar í umræðunni.
„Í maí fær Sigríður Andersen beiðni um að undirrita umsókn um uppreist æru eins og venja væri að dómsmálaráðherra geri. Hún hins vegar undirritar ekki beiðnina á þeim forsendum að þar sem um heimildarákvæði hegningarlaga sé um að ræða setji hún spurningamerki við að þessi áratugalanga stjórnsýsluvenja trompi lagaákvæðið,“ skrifar Hildur og bætir við að ráðherra telji þarna að lögin séu úrelt og skoði leiðir til breytinga.
Í júní féll dómur í máli Róberts Downey sem olli því að fólki blöskraði að dæmdur barnaníðingur gæti sótt um endurnýjuð lögmannsréttindi. „Sigríður Andersen segir við það tilefni í viðtali að hún skilji vel þau sjónarmið, að hún hafi beiðni á sínu borði um uppreist æru sem hún hafi ekki undirritað og vilji endurskoða þessi mál heildstætt,“ skrifar Hildur og bendir á að því miður virðist lítið fara fyrir því að það eru mannréttindi fólks í réttarríki að lög eigi jafnt við um alla.
Hildur segir að á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í júlí, sem Svandís Svavarsdóttir óskaði eftir, hafi skýrt komið fram að veiting ráðuneytisins til þeirra sem fengið hefðu uppreist æru stæðist lög. Sömuleiðis hefði komið fram að ferlið væri eingöngu formlegt.
„Á þeim fundi óskaði nefndarmaður samt sem áður eftir því við fulltrúa ráðuneytisins að nefndin fengi til sín meðmæli í máli Róberts Downey,“ skrifar Hildur. Hún kveðst ekki hafa gert athugasemdir við það þó hún botnaði ekki í tilganginum.
„Nú hefur komið fram að Sigríði Andersen var síðar í júlí tilkynnt að faðir forsætisráðherra hefði verið meðmælandi í öðru máli um uppreist æru. Af því tilefni ræddi hún það við forsætisráðherra og spurði hvort hann hafi verið starfandi innanríkisráðherra þegar það mál var afgreitt, líkt og verið hafði í umræðunni vegna villandi fréttaflutnings. Svo reyndist ekki vera.“
Hildur segir að um þetta hafi mikið verið rætt og því haldið fram að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafi sprungið út af þessu máli, á þeirri forsendu að ráðherrarnir hefðu átt að veita öðrum upplýsingarnar. Hún segir að miklu hafi verið sleppt í þessari umræðu en á þessum tímapunkti hafi enn verið til skoðunar hjá úrskurðarnefnd upplýsingamála hvort upplýsingar í máli Róberts mættu vera opinberar.
„Það var því vönduð stjórnsýsla af ráðherrunum að halda sig við fyrri niðurstöðu eins og hún stóð þá um að allar upplýsingarnar væru trúnaðarmál gagnvart þeim sem ekki væru aðilar máls. Þá hafði enginn á þessum tíma óskað eftir gögnum í þessu tiltekna máli,“ ritar Hildur.
Annar fundur var haldinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í ágúst en þá höfðu meðmæli í máli Róberts Downey, sem óskað hafði verið eftir í júlí, borist sem trúnaðargögn. Hildur segir að stundum sé hafður sá háttur á þegar trúnaðargögn eru lagðar fyrir nefndir Alþingis að þeir sem vilji kynna sér viðkomandi trúnaðargögn fari inn í lokað gagnaherbergi, til nefndarritara eða kynni sér gögnin með öðrum hætti ef ekki er vilji hjá öllum nefndarmönnum að kynna sér þau.
Á þessum fundi var farin sú leið að gögnin voru kynnt í lok fundar og þeir sem vildu ekki kynna sér gögnin gátu yfirgefið fundinn. „Ég ásamt nokkrum, en ekki öllum, fulltrúum Sjálfstæðisflokksins kaus að kynna mér ekki þessi gögn. Mín afstaða var sú að það væri ekki rétt að skoða að óþörfu trúnaðargögn sem hefðu ekkert vægi fyrir vinnu nefndarinnar. Fyrst og fremst var það vegna þess að ráðuneytið hafði þegar upplýst að það hefði aldrei til skoðunar efnislegt innihald slíkra meðmæla.“
Hildur segir að það hafi legið fyrir að innihald bréfanna hefði ekkert að segja um hvort ráðuneytið hefði unnið samkvæmt reglum. „Ég hef heyrt margar samsæriskenningar um þennan þátt málsins; að við hljótum að hafa þekkt efni þessara bréfa og þeirra sem faðir forsætisráðherra undirritaði og hef ég setið undir dylgjum og brigslyrðum um að ég sé að ljúga þegar ég segi að ég frétti fyrst af innihaldi allra meðmælabréfa í fjölmiðlum. Mér finnst ómaklega að mér vegið og vil árétta að ég hef engu logið.“
Í síðasta mánuði hafi úrskurðarnefnd upplýsingamála upplýst að rétt hafi verið hjá ráðuneytinu að hafna beiðni um birtingu meðmæla um uppreist æru. Hins vegar mætti birta þau eftir að búið væri að hreinsa út ákveðnar upplýsingar.
„Það var sumsé ekki svo að úrskurðarnefndin hafi úrskurðað að ráðuneytið og ráðherrarnir hafi gert neitt rangt í því að meta að gögnin hafi verið trúnaðarmál eins og þau hafa verið skilgreind. „Gagn “ og „Gagn eftir að búið er að afmá ákveðnar upplýsingar“ er ekki sama gagnið til birtingar,“ skrifar Hildur og bætir við að enginn hafi gert neitt rangt með því að vera varkár við birtingu gagnanna.
Henni þykir miður skemmtilegt að ýmsir hafi reynt að segja að stjórnsýsluvenjan uppreist æra væri alfarið Sjálfstæðisflokknum að kenna. Bendir Hildur á að í stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hafi verið veitt uppreist æra, annars vegar fyrir nauðgun og hins vegar barnaníð.
„Þó að staðreyndirnar sýni að það var einfaldlega verið að fylgja lögum hef ég sagt að við sem stóðum að þessu máli hefðum samt átt að setja lagatæknilegu orðræðuna aðeins til hliðar. Ég hef sagt að við hefðum átt að vanda okkur betur í því hvernig við töluðum þar sem við vöktum mögulega óöryggi hjá fólki um það hvort við værum ekki að bera nægilega virðingu fyrir alvarleika kynferðisbrota og sársaukanum sem þau valda. Ég skil það, tek það til mín og þykir það leitt.“