„Það eru allir afskaplega rólegir fyrir þessu,“ segir Sigrún Sigurgeirsdóttir, landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, um aukna virkni sem verið hefur í Öræfajökli síðustu daga.
„Það eru allir afskaplega rólegir fyrir þessu,“ segir Sigrún Sigurgeirsdóttir, landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, um aukna virkni sem verið hefur í Öræfajökli síðustu daga.
„Það eru allir afskaplega rólegir fyrir þessu,“ segir Sigrún Sigurgeirsdóttir, landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, um aukna virkni sem verið hefur í Öræfajökli síðustu daga.
Sigrún, sem er fædd og uppalin í Öræfum, hefur lifað góðu samlífi við jökulinn alla sína ævi og býst ekki við að það muni breytast í bráð. Hún fylgist þó grannt með gangi mála.
Óvissustigi almannavarna var lýst yfir á svæðinu á föstudag vegna vísbendinga um aukna virkni í jöklinum og á laugardag flugu fulltrúar almannavarna og jarðvísindamenn að jöklinum og mældu meðal annars nýjan sigketil sem hefur myndast í öskju jökulsins síðustu daga.
Frétt mbl.is: Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi
Frétt mbl.is: Kanna aðstæður við Öræfajökul
Sigrún hefur ekki orðið vör við óvenjumikla flugumferð yfir jökulinn, þrátt fyrir skipulagðar eftirlitsferðir almannavarna. „Það er alltaf flugumferð hingað, Evrópuflugið stefnir á Ingólfshöfðann og ef maður horfir til himins þá sér maður oft rákir eftir farþegaþotur án þess að það trufli mann neitt.“
Lífið hefur því gengið sinn vanagang í sveitinni um helgina. „Stemningin er bara afskaplega góð í kringum mig,“ segir Sigrún sem er búin að njóta helgarinnar í faðmi stórfjölskyldunnar í Öræfum. „Enda gerum við ráð fyrir því að ef að eitthvað fer að gerast í jöklinum verði viðvaranirnar meiri en þetta.“
Ferðamenn hafa einnig flestir haldið sínu striki á svæðinu. „Það er fullt af fólki á ferðinni eins og venjulega. Sumir ferðamenn virðast vita að það eru einhverjar hræringar búnar að vera en margir vita að það eru alls konar mögulegar hættur á Íslandi, en flestir gera ráð fyrir því að allt sé í lagi á meðan ekki eru einhverjar sérstakar viðvaranir í gangi,“ segir Sigrún.
Lítil reynsla er af aukinni virkni í Öræfajökli sem gaus síðast árið 1727. Gerð rýmingaráætlana fyrir byggð í Öræfum hefur nú verið flýtt vegna þeirrar auknu virkni sem hefur verið í jöklinum síðustu daga. Samkvæmt nýlegu hættumati fyrir svæðið í kringum jökulinn kemur fram að tíminn frá því að eldgos næði til yfirborðs á jöklinum og að flóð væri komið að þjóðvegi 1 sé í mörgum tilfellum aðeins 20 mínútur.
Frétt mbl.is: Gerð rýmingaráætlana í Öræfum flýtt
Að mati Sigrúnar er mikilvægt að yfirfara símasamband á hluta svæðisins. „Ég myndi vilja sjá að GSM-þjónustusvæðin verði yfirfarin. Ég veit að það er ágætis GSM-samband á þjóðveginum víðast hvar en ég myndi vilja sjá að svæðin þar sem ferðamenn stunda sína afþreyingu, það er gönguferðir af ýmsu tagi, verði vel dekkuð.“
Ef til eldgoss kæmi gengur almannavarnakerfið þannig fyrir sig að SMS-hópskilaboð verða send á þá sem staddir eru á svæðinu. „Það er enginn sem hleypur upp um fjöll og firnindi til að vara fólk við, það er gert ráð fyrir að það sé sent hóp-SMS og þá skiptir auðvitað máli að fólk fái skilaboðin. Það er atriði sem þarf að vera í lagi og ég myndi vilja sjá að yrði skoðað,“ segir Sigrún.
Við gerð rýmingaráætlana er horft til tveggja verkþátta; áætlunar um neyðarrýmingu þar sem eldgos hefjist nánast fyrirvaralaust og enginn tími gefist til undirbúnings og hins vegar rýmingaráætlunar í fjórum þáttum þar sem hægt væri að vinna skipulega að rýmingu. Sigrún segir að ef grípa þarf til rýmingar gæti fjöldi einbreiðra brúa hægt töluvert á ferlinu.
„Ef að það þarf að rýma þá eiga þessar einbreiðu brýr eftir að tefja fyrir,“ segir hún og telur hún því ríkt tilefni til að endurskoða samgöngumál almennt á svæðinu. „Það eru hvergi á landinu jafngríðarlega margar einbreiðar brýr eins og hér á þessu landshorni og það er smám saman verið að vinna að því að fækka þeim en við viljum að einbreiðum brúm verði útrýmt sem fyrst.“ Þá segir hún veginn vera á köflum of mjóan svo að umferð komist greiðlega í gegn.
Sigrún býst við því að næstu dagar verði hefðbundnir. „Bara eins og allir hinir dagarnir. Ég er fædd og uppalin undir þessu mikla eldfjalli og hef hingað til sagt að fyrst að það geti eitthvað komið fyrir hér þá getur eitthvað komið fyrir alls staðar í heiminum, kannski ekki endilega eldgos en það getur verið fellibylur, fárviðri, skógareldar eða snjóflóð. Það getur alls staðar eitthvað komið fyrir og það þýðir ekkert að hræðast það.“
Sigrún hefur því ekki tapað öryggistilfinningunni sem hún hefur ávallt haft, þó svo að hún búi í mikilli nálægð við eldstöð. „Þú getur forðað þér frá hættu, það er enginn vandi. En ef þú ferð að láta ótta við mögulega hættu stýra þér þá er enginn staður öruggur í sjálfu sér. Það þýðir ekki að láta óttann við það ókomna stýra sér.“