Fylgjast áfram náið með svæðinu

Öræfajökull | 21. nóvember 2017

Fylgjast áfram náið með svæðinu

Staðan er meira eða minna óbreytt við Öræfajökul frá því í gær samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands miðað við þau gögn sem liggja fyrir. Þannig voru engir jarðskjálftar í nótt á svæðinu. Þetta segir Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur, á Veðurstofunni.

Fylgjast áfram náið með svæðinu

Öræfajökull | 21. nóvember 2017

Frá Öræfajökli um helgina.
Frá Öræfajökli um helgina. mbl.is/RAX

Staðan er meira eða minna óbreytt við Öræfajökul frá því í gær samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands miðað við þau gögn sem liggja fyrir. Þannig voru engir jarðskjálftar í nótt á svæðinu. Þetta segir Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur, á Veðurstofunni.

Staðan er meira eða minna óbreytt við Öræfajökul frá því í gær samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands miðað við þau gögn sem liggja fyrir. Þannig voru engir jarðskjálftar í nótt á svæðinu. Þetta segir Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur, á Veðurstofunni.

Starfsmenn Veðurstofunnar fóru austur í gær til þess að mæla rennsli í Kvíá og öðrum ám á svæðinu sem og rafleiðni. Veður setti þó strik í reikninginn í störfum þeirra en þeir eru væntanlegir til Reykjavíkur upp úr hádegi. Þá tekur við við að vinna úr þeim gögnum en búast má við því að það taki einhverja daga að vinna úr þeim upplýsingum.

Þannig er enn verið að vinna úr gögnum og sýnum sem safnað var um helgina og má búast við niðurstöðum fyrir lok vikunnar að því er segir á vefsíðu Veðurstofunnar. Bjarki segir að fáir jarðskjálftar hafi ennfremur verið í gær og fleiri í fyrridag. Enginn gosórói eða neitt slíkt sé á staðnum. Áfram verði fylgst náið með þróun mála á svæðinu.

Sömu sögu er að segja af almannavörnum að sögn Hjálmars Björgvinssonar deildarstjóra. Beðið er úrvinnslu úr gögnum og á meðan verður óvissustigið í gildi. Staðan verður síðan metin þegar frekari upplýsingar liggja fyrir. Aðspurður segir hann stefnt að því að halda vísindaráðsfund fljótlega en ekki liggi fyrir nákvæm tímasetning.

Fram kemur á vefsíðu Veðurstofunnar að áætlað sé að setja upp síritandi mælitæki næstu daga á svæðinu til að mæla vatnsrennsli en slæm veðurspá geti hins vegar sett strik í reikninginn. Fram að því verði fylgst reglulega með ám sem renna frá Öræfajökli. Sólarhringsvakt sé hjá Veðurstofunni og fylgst með jarðskjálftamælum.

mbl.is