Það er sárt að vera sinn versti óvinur!

Hugleiðingar Einars Áskelssonar | 26. nóvember 2017

Það er sárt að vera sinn versti óvinur!

„Ég ætla að deila reynslunni af að lenda í heiftarlegu bakslagi á batabraut röskunar sem á frummálinu heitir Complex Post Traumatic Stress Disorder (CPTSD). Má þýða sem króníska áfallastreituröskun. Líka til PTSD en stigsmunur á,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Það er sárt að vera sinn versti óvinur!

Hugleiðingar Einars Áskelssonar | 26. nóvember 2017

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Ég ætla að deila reynslunni af að lenda í heiftarlegu bakslagi á batabraut röskunar sem á frummálinu heitir Complex Post Traumatic Stress Disorder (CPTSD). Má þýða sem króníska áfallastreituröskun. Líka til PTSD en stigsmunur á,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

„Ég ætla að deila reynslunni af að lenda í heiftarlegu bakslagi á batabraut röskunar sem á frummálinu heitir Complex Post Traumatic Stress Disorder (CPTSD). Má þýða sem króníska áfallastreituröskun. Líka til PTSD en stigsmunur á,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Smá inngangur fyrir þá sem ekki hafa lesið fyrri pistla. Ég skildi 2011 og kominn í nýtt samband 2012. Í góðum málum andlega, líkamlega og fjárhagslega. Fjárfestum fljótt í dýrri fasteign og hefjum sambúð innan 3 mánaða! Var undir gríðarlegu álagi og í erfiðri vinnu. Sumarið 2013 fæ ég fyrstu einkenni ofsakvíða og ótta. Vissi ekki hvað var að gerast. Gekk í nokkurn tíma. Ég gerði mistök að leita mér ekki hjálpar.

Við tók 2 ára hræðilegt veikindatímabil. Kraftaverk að mér var bjargað í byrjun september 2015. Sálfræðingurinn sem meðhöndlaði mig kom mér í skilning um að ég væri fárveikur. Staða mín þarna var að ég hafði misst allt. Nánast peningalaus, húsnæðislaus, bíllaus, sambýliskonan hafði slitið sambandinu og ég fárveikur. Vegna ofsakvíða- og óttakasta komst ég ekki út úr húsi og skrimti á milli kasta. Útbrunnið flak.

Of súrrealískt til að geta verið satt. Ég hafði barist sem ljón í vinnu og heima fyrir að gera mitt besta og að takast á við þessi hræðilegu einkenni í 2 ár. Einnig aukaálag vegna ásakana og dómhörku í minn garð sem ég segi ekki frá hér en geri síðar.

Haustið 2015 hófst batagangan. [Hún hefur v]erið erfið en lærdómsrík og ég nýtt hana til að endurskoða mig og mitt líf frá grunni. Viðbrigði að hafa rétt ráð [á] að leigja herbergi út í bæ! Miklu stolti að kyngja en gerði það og náði að tileinka mér auðmýkt frá fyrsta degi. Ég var opinn og ekkert að fela. Ég var hræddur og þráði ekkert meira en bata á ný. Frá byrjun september 2015 til í lok[a] júní 2017 er ég í úrræðum (fyrir utan það sem ég gerði sjálfur, sem var heilmikið) til að öðlast hæfni og getu [til] að komast á vinnumarkaðinn á ný. Í febrúar 2017 fór ég í ítarlegt mat hjá sálfræðingi, lækni og sjúkraþjálfara á vegum Virk. Ég setti mér það markmið að vera tilbúinn vorið 2017. 

Af hverju bakslag? Peningar. Ekki forsenda hamingju en streituvaldur ef þú berst í bökkum á lágum tekjum. Ég þarf ekki mikið og síðan ég fór á endurhæfingarlífeyri hef ég ekki keypt flík á mig eða eytt krónu í eigin þarfir. Leyfi börnunum að njóta ef ég á eitthvað afgangs. Mér tókst að tapa hátt í 300 þús.kr. á tvennum bílakaupum. Fyrst sumarið 2016 og um sl. áramót. Seinna áfallið var þungt því fljótlega á árinu 2017 hætti ég að ná endum saman. Leið illa yfir að fá lánað hjá ættingjum og vinum og geta ekki greitt til baka. Sumir voru rausnarlegir við mig í kringum fermingu drengsins míns. En olli mér þungum áhyggjum og vanlíðan og reif í stoltið. Því var drifkrafturinn enn meiri að komast í vinnu!

Í júní 2017 er ég á fullu að sækja um vinnur. Undir lok júní var ég sannfærður um að ég væri að fá vinnu þar sem ég hafði mikla reynslu og þekkingu. Valið stóð á milli mín og annars. Að fá tilkynnt að ég var ekki valinn var risastórt áfall. Brást við með látum og heimtaði skriflegar skýringar. Sem ég fékk en las aldrei. Einhverra hluta vegna þá brotnaði ég saman við þessa höfnun. Þá hófst 2 mánaða hræðilegt bakslag í veikindunum mínum. Eftir nærri því 2 ára uppbyggingu. Glatað!

Dró mig í hlé. Ómeðvitað. Fljótlega fóru einkenni CPTSD að sækja á mig. Dagleg ofsakvíðaköst en ekki eins djúpsár og 2 árum fyrr. Hrökkvandi upp á næturnar og ná ekki að sofna aftur. Hugurinn varð þyngri og [ég] hugsaði að þessi staða væri skítleg eftir allt sem ég hafði lagt á mig! Skömmin braust núna fram og [mér] fannst niðurlægjandi að vera í þessari stöðu. Reiður. Út í að vera í þessari stöðu og hafa ekkert gert til að verðskulda það. Út í manneskjur sem gerðu mér illt. Reiðastur að þurfa mörgum árum síðar að glíma við afleiðingar sem eyðilögðu lífið mitt. Tvöföld refsing. Annað var paranoja. Hún var svo sterk að ég treysti mér varla út í búð. Ég fór að taka krókaleiðir og vonaðist [til] að rekast á engan sem ég þekkti. Svona leið mér alla daga og fór stigversnandi. Eftir mánuð var mér orðið sama. Dagarnir liðu og ég hafði ekki áhuga á að rífa mig upp. Dagskránni var aftur að verða lokið. De ja vu frá 2 árum fyrr. 

Í byrjun september hafði ég loks samband við ráðgjafa minn hjá Virk sem ég, út af skömm, ætlaði ekki að þora. Hvað olli því? Hafði sett stakar færslur inn á Facebook. Kannski ómeðvitað að kalla á hjálp. Maður sem ég þekkti ekkert sendi skeyti og sagðist skynja eitthvað hjá mér. Ég upplifði að hann vildi selja þjónustu og svaraði að ég hefði ekki efni á. Hann hafði samband aftur og bað mig að hitta sig yfir kaffibolla. Ég hugsaði nei en svaraði já. Á kaffihúsinu er ég í vörn en hann spyr mig nærgætilega um mína hagi og kom upp hvað mér þótti erfitt að vera bíllaus og geta ekkert sinnt þörfum barnanna. Hann býðst [til] að hjálpa mér með það. Gæti skutlað þegar þess þyrfti. Ég varð orðlaus af undrun og hugsaði í stoltinu....nei. Í gegnum rifu braust auðmýkt og ég þáði. Þetta varð til þess að ég fékk kjark til að hringja í ráðgjafa Virk. Maður sem ég þekkti ekkert bauðst af manngæsku [til] að hjálpa mér. Það er til gott fólk. Þetta braut upp stöðu sem hefði líklegast endað sorglega.

Niðurstaðan með ráðgjafa Virk var endurmat sálfræðings. Það ferli tók 2 mánuði. 2 mánuðir í engu úrræði voru fjandi erfiðir en að opna mig meira s.s. á Facebook létti á mér. Ég fór að viðurkenna hver staðan væri. Náði að sýna enn og aftur vanmátt og uppgjöf. Auðvitað höfðu allir skilning og ég fékk mikinn stuðning. Á þeim tíma sem ég beið, leið mér stundum það illa að ég sendi út á Facebook statusa þar sem ég bað um stuðning. Sem ég fékk. Löngunin var komin til baka.

Hrikalegur léttir að fá fréttir frá ráðgjafa Virk að niðurstöðurnar væru komnar. Loksins að fá enn eitt tækifærið. Tækifæri sem ég veit að er aldrei sjálfsagt. Ég er byrjaður í nýrri endurhæfingu, guði sé lof fyrir starfsemi eins og Virk. Hún nær út febrúar og þá verður staðan endurmetin. Ég er þakklátur. Jú ég vildi að ég gæti verið á vinnumarkaðinum. Lykilatriðið er að sætta sig við það sem ég get ekki breytt en breyta því sem ég get. Ég var orðinn það illa farinn haustið 2015 að bataferlið mitt þarf langan tíma. Það var búið að segja mér það. Ég missti dómgreind og var minn versti óvinur. Það var sárt.

Mér finnst mesti lærdómurinn eftir þetta að skilja að þótt komi stutt eða langt bakslag í bata frá veikindum, þá er ekkert ónýtt. Hugurinn fer oft þangað eins og allt sé tapað. Allt það góða sem ég gerði sl. 2 ár er ekki tapað. Ég gerði mistök og eðlilega bognaði ég. Hvatinn voru peningar og ég missti tökin á mér. Þetta er ástæðan [fyrir að] ég vil deila minni reynslu.

Örlögin sáu til þess að ég fengi ekki þessa vinnu. Í dag segi ég takk fyrir það! Þó að ég væri búinn að ná frábærum árangri var ég ekki tilbúinn í vinnu sem þessa. Hefði verið hræðilegt að hefja störf og brotna niður.

Í dag get ég valið um að svekkja mig á bakslaginu eða líta á sem lærdóm. Ég kann ekki að gefast upp. Hef aldrei þolað að tapa frá því við kepptum í hverfiskeppnum í fótbolta í Þorpinu á Akureyri. Stundum töpuðust leikir en svo kom annað tækifæri.

Langar að þakka öllum enn og aftur fyrir stuðning og hlýju í gegnum þennan erfiða tíma sem og endranær. Ég met það mikils og gleymi aldrei. Mun eflaust óska eftir stuðningi aftur en það geri ég í einlægni og auðmýkt.

mbl.is