Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana á Alþingi annað kvöld verða styttri en verið hefur vegna þess að þingflokkarnir eru orðnir átta talsins.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana á Alþingi annað kvöld verða styttri en verið hefur vegna þess að þingflokkarnir eru orðnir átta talsins.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana á Alþingi annað kvöld verða styttri en verið hefur vegna þess að þingflokkarnir eru orðnir átta talsins.
Stefnuræðan verður tveimur mínútum styttri en í fyrra, auk þess sem samanlagt verða teknar tvær til þrjár mínútur af ræðutíma flokkanna frá því sem verið hefur.
Katrín Jakobsdóttir fær því 16 mínútur til þess að flytja ræðu sína og er það styttri tími en nokkur forsætisráðherra hefur fengið til þessa. Sú síðasta sem Bjarni Benediktsson flutti var 18 mínútna löng en þá voru þingflokkarnir orðnir sjö. Fram að því hafði stefnuræðan lengi verið 20 mínútur.
Stefnuræðan og umræðurnar um hana munu samtals standa yfir í tvo og hálfan tíma, líkt og áður.
Venjulega flytur einn þingmaður eða ráðherra frá hverjum flokki ræðu í hverri umferð umræðnanna um stefnuræðuna en alls eru umferðirnar þrjár. Því má búast við því að 24 þingmenn og ráðherrar muni stíga í pontu.
Aðaltalsmenn þingflokkanna fá níu mínútna ræðutíma í fyrstu umferð og eftir það fá menn fimm mínútur í annarri umferð og fjórar mínútur í þeirri þriðju.
Að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, kom ekki til greina að lengja tímaramma ræðanna vegna fjölgunar þingflokka. „Formenn þingflokkanna og forystumenn voru á því að þetta væri ágætur tímarammi og töldu að menn myndu ekkert græða á því að lengja umræðuna að ráði,“ segir hann og nefnir einnig að tilmæli hafi komið frá Ríkissjónvarpinu, sem sendir beint frá viðburðinum, um að tíminn yrði ekki lengdur.
Stefnuræða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra kom í hús síðdegis í gær og hafa þingmenn og ráðherrar sem stíga í pontu fengið afrit af henni til undirbúnings.