Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan krefst þess að sex starfsmenn hjálparstofnanna verði leystir úr haldi „fljótt og örugglega“. Fólkið hvarf sporlaust í norðvesturhluta landsins.
Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan krefst þess að sex starfsmenn hjálparstofnanna verði leystir úr haldi „fljótt og örugglega“. Fólkið hvarf sporlaust í norðvesturhluta landsins.
Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan krefst þess að sex starfsmenn hjálparstofnanna verði leystir úr haldi „fljótt og örugglega“. Fólkið hvarf sporlaust í norðvesturhluta landsins.
Fulltrúinn, Alain Noudehou, segir í yfirlýsingu að einn alþjóðlegur hjálparstarfsmaður og fimm innlendir hafi horfið á sunnudag er þeir voru á ferð á milli bæjanna Raga og Wau þar sem þeir störfuðu. Flestir þeirra starfa fyrir alþjóðlegar hjálparstofnanir og samtök.
Í gær sögðust frönsku hjálparsamtökin Solidarites International hafa misst samband við þrjá starfsmenn sína en gátu ekki staðfest að þeim hefði verið rænt.
Ásakanir um mannránið ganga á víxl á milli stjórnvalda í Suður-Súdan og uppreisnarmanna sem eru hliðhollir Riek Machar, fyrrverandi varaforseta landsins, en átök þeirra á milli brutust út á svæðinu um helgina.
Upplýsingamálaráðuneytið í Lol-ríki, þar sem bærinn Raga er, segja „bófa Machars“ bera ábyrgð á hvarfi fólksins. Það segir að setið hafi verið um fyrir fólkinu utan bæjarins. Átta hafi fallið í átökum er fjórir hjálparstarfsmannanna voru teknir í gíslingu.
Talsmaður uppreisnarmannanna segir allt aðra sögu. Hann segir að stjórnarhermenn hafi setið um fyrir bílalest sem var að flytja vopn milli Wau og Raga. Vopnin hafi átt að nota til að ráðast til atlögu gegn bækistöðvum uppreisnarmanna á svæðinu. Segir hann að í þessum aðgerðum hafi fjórum hjálparstarfsmönnum verið „bjargað“ og bætti við að þeir hafi verið notaðir sem mannlegir skildir af hermönnunum sem voru að flytja vopnin. Talsmaðurinn segir að hjálparstarfsmennirnir fjórir séu í öruggum höndum í nágrenni Raga og verði komið til „þriðja aðila“ fljótlega.
Ekki hefur fengist staðfest hvort að allir sex hjálparstarfsmennirnir sem Sameinuðu þjóðirnar segja að sé saknað, séu í þessum hópi.
Hart hefur verið barist í bænum Wau og nágrenni frá því í fyrra. Í apríl voru þrír hjálparstarfsmenn drepnir á svæðinu.
Fjögur ár eru síðan að hið blóðuga borgarastríð braust út í landinu. Tugþúsundir hafa fallið í átökunum. Fjölmargir hjálparstarfsmenn hafa orðið að flýja landið vegna ólgunnar síðustu mánuði.
Suður-Súdanar börðust í áratugi fyrir sjálfstæði sínu frá Súdan. Það fékkst loks árið 2011 en nær allar götur síðan hafa bardagar geisað.