Ákæruvaldið og verjendur fimmmenningana sem ákærðir eru í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis greinir á um það hvort eðlismunur sé á sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni og tilkynntum viðskiptum, svokölluðum utanþingsviðskiptum, með tilliti til áhrifa viðskiptanna á verðmyndun bréfa á markaði.
Ákæruvaldið og verjendur fimmmenningana sem ákærðir eru í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis greinir á um það hvort eðlismunur sé á sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni og tilkynntum viðskiptum, svokölluðum utanþingsviðskiptum, með tilliti til áhrifa viðskiptanna á verðmyndun bréfa á markaði.
Ákæruvaldið og verjendur fimmmenningana sem ákærðir eru í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis greinir á um það hvort eðlismunur sé á sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni og tilkynntum viðskiptum, svokölluðum utanþingsviðskiptum, með tilliti til áhrifa viðskiptanna á verðmyndun bréfa á markaði.
Innri endurskoðandi Glitnis á ákærutímabilinu, Ágúst Hrafnkelsson, viðraði áhyggjur vegna útlána bankans vegna hlutabréfakaupa fjórtán lykilstarfsmanna í júlí árið 2008.
Vitnaleiðslur í málinu hófust eftir hádegi í dag, en síðasti sakborningurinn, Lárus Welding, gaf skýrslu fyrir hádegi.
Fyrrum verðbréfamiðlarar hjá Glitni banka, sem báru vitni í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, sögðust ekki hafa gert greinarmun á tilkynntum viðskiptum eða pöruðum viðskiptum í störfum sínum við kaup og sölu á hlutabréfum.
„Ef menn náðu saman fyrir utan markaðinn var það bara tilkynnt,“ sagði Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem starfaði sem verðbréfamiðlari í markaðsviðskiptadeild bankans. Hann sagði það liggja í hlutarins eðli að þegar stórir fjárfestar nái saman um skipti á hlutabréfum í bankanum þurfi að tilkynna um viðskiptin, en það hafi þó ekki önnur áhrif á verðmyndun en annars konar viðskipti.
Í sama streng tók Stefán Helgi Jónsson, sem einnig starfaði sem verðbréfamiðlari hjá Glitni. „Það er í raun og veru enginn munur á viðskiptunum og eðli viðskiptanna. Það er bara kaupandi og seljandi,“ sagði Stefán Helgi.
Hið sama hefur komið fram í máli verjenda málsins, sem gagnrýnt hafa framsetningu ákæruvaldsins á viðskiptum deildar eigin viðskipta Glitnis með hlutabréf í bankanum, rétt eins og verjendur og sakborningar í fyrri markaðsmisnotkunarmálum gömlu bankanna, sem farið hafa fyrir dóm.
Fyrrum innri endurskoðandi bankans, Ágúst Hrafnkelsson, sagði að kaup bankans á eigin bréfum hefðu ekki verið sérstaklega skoðuð, nema þá í framhaldi af bankahruninu.
Skýrsla sem innri endurskoðun lagði fram til stjórnenda bankans þann 23. júlí 2008 var lögð fyrir Ágúst af Birni Þorvaldssyni saksóknara. Þar koma fram áhyggjur vegna þeirra útlána sem veitt höfðu verið til einkahlutafélaga í eigu þeirra 14 starfsmanna og ákært er fyrir í málinu.
„Eignirnar virtust ekki standa undir lánunum,“ sagði Ágúst og að hans sögn beindust áhyggjurnar sem viðraðar voru vegna lánanna fyrst og fremst að þeim einstöku starfsmönnum sem fengið höfðu lánin og því hvort lækkandi virði hlutabréfanna sem lánað var fyrir væri að valda þeim persónulegum fjárhagsáhyggjum.
„Almennt höfðum við haft áhyggjur af því að fólk sem hafi miklar fjárhagsáhyggjur hafi minni getu til þess að fókusera á vinnuna,“ sagði Ágúst.
Ágúst sagði einnig að ef til vill hafi hann og aðrir eftirlitsaðilar átt að setja spurningamerki við það að þessi lán væru veitt til kaupa í bankanum sjálfum. Við skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins árið 2013 sagði hann að ef til vill hefði það verið grunnhyggni að „tengja þetta ekki saman.“
„Eftir á að hyggja hefðum við kannski átt að kafa betur ofan í það.“
Ólafur Viðarsson, sem starfaði við áhættustýringu hjá Glitni, sagði að hann hefði talið að stefna bankans um viðskipti með eigin bréf hafi ekki verið mjög formleg. Hann hefði ekki merkt neina breytingu á fyrirkomulagi eigin viðskipta eftir að Lárus Welding tók við sem forstjóri bankans á vormánuðum 2007.
Að sögn Ólafs gerði regluvörður bankans aldrei athugasemdir við viðskipti bankans með eigin hluti, né heldur lögfræðingar bankans.
„Ef við hefðum talið að þetta væri ekki löglegt hefðum við sennilega gert eitthvað í því,“ sagði Ólafur. „Ef við hefðum haldið að viðskiptin væru ekki lögleg hefðum við klárlega stoppað það af.“
Aldrei hafi þó komið til þess, en bankanum hafi verið uppálagt að fara eftir lögum og reglum.
Guðbjörg Anna Guðmundsdóttir, fyrrum starfsmaður áhættustýringar og ritari í efnahagsnefnd bankans, sagði að henni hefði veið kunnugt um að Glitnir stundaði viðskipti með eigin bréf.
Er Björn Þorvaldsson spurði hana út í störf efnahagsnefndar sagði Guðbjörg „mjög líklegt“ að fjárfestingamörk fyrir deild eigin viðskipta Glitnis hefðu verið ákveðin á fundum efnahagsnefndar. Er hún var síðan spurð út í það sama af Reimari Péturssyni, verjanda Jóhannesar Baldurssonar, sagðist hún ekki muna það nákvæmlega.
Erlendur Magnússon fyrrum framkvæmdastjóri hjá Glitni, sem átti sæti í efnahagsnefnd bankans á hluta ákærutímabilsins, sagði fjárfestingamörk deildar eigin viðskipta ekki hafa verið ákveðin í efnahagsnefnd, eftir því sem hann best vissi. Hann sagði nefndina lítið hafa fjallað um hlutabréfaviðskipti bankans á meðan hann sat þar.
Guðmundur Hjaltason, sem hafði meðal annars umsjón með lánveitingum til fyrirtækja á ákærutímabilinu, sagðist hafa haft fulla vitneskju um að bankinn stundaði viðskipti með eigin bréf og að tilgangurinn hefði væntanlega verið að halda uppi viðskiptum með bréfin.
Glefsur úr hljóðrituðum símtölum á milli einstakra starfsmanna Glitnis hafa verið borin undir sakborninga og vitni við aðalmeðferð málsins. Eitt slíkt er símtal á milli Jónasar Guðmundssonar, eins ákærða í málinu og Stefáns Helga Jónssonar, verðbréfamilðara.
Þar er haft eftir Jónasi: „Djöfull ertu erfiður maður, veistu ekki að ég er að reyna að hækka markaðinn?“
Jónas sagði því fram við skýrslutöku í gær að þetta bæri ekki að taka of alvarlega og Stefán Helgi tók í sama streng, taldi líklegast að þarna hefði Jónas verið að grínast.
Annars virðist að miklu leyti hafa fennt yfir þessi tíu ára gömlu símtöl í minni þeirra sem áttu að þeim hlut. Stefán Helgi lýsti því sem svo að í hans huga bæri ekki að taka orðalagi símtalanna bókstaflega. Ákveðið „lingó“ hafi orðið til í samskiptum starfsmanna innan bankans, eins og t.d. Stefáns Helga og Jónasar, sem voru í miklum samskiptum, jafnvel oft á dag.
Vitnaleiðslur í málinu halda áfram á morgun.