Bankinn verið „raunveruleikafirrtur“

Markaðsmisnotkunarmál Glitnis | 22. janúar 2018

Ekki rætt um lánin í stjórn Glitnis

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Glitni, sagði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að stjórn Glitnis hafi rætt um að „koma böndum á starfsmannakjörin“ í aðdraganda þess að fjórtan lykilstarfsmenn bankans fengu lán að andvirði nærri 6,8 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum í maí árið 2008.

Ekki rætt um lánin í stjórn Glitnis

Markaðsmisnotkunarmál Glitnis | 22. janúar 2018

Lárus Welding ásamt verjendum í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.
Lárus Welding ásamt verjendum í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Glitni, sagði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að stjórn Glitnis hafi rætt um að „koma böndum á starfsmannakjörin“ í aðdraganda þess að fjórtan lykilstarfsmenn bankans fengu lán að andvirði nærri 6,8 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum í maí árið 2008.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Glitni, sagði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að stjórn Glitnis hafi rætt um að „koma böndum á starfsmannakjörin“ í aðdraganda þess að fjórtan lykilstarfsmenn bankans fengu lán að andvirði nærri 6,8 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum í maí árið 2008.

Hann og flestir aðrir stjórnarmenn sem báru vitni í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis í dag litu á lánveitingarnar sem hluta af starfskjarastefnu bankans, en vissu þó almennt ekki af þeim fyrr en eftir að þær voru gengnar í gegn.

„Hann hafði verið svolítið raunveruleikafirrtur þessi banki,“ sagði Sigurður og lagði áherslu á að stjórn bankans hefði viljað koma reglu á umbunarkerfi fyrir starfsmenn bankans. Hann sagði lánveitingarnar til fjórtánmenninganna þó ekki sérstaklega hafa verið ræddar í stjórn bankans og hann sjálfur hefði lesið um þær í fréttum.

Sigurður G. Guðjónsson, fyrrverandi stjórnarmaður í Glitni. Mynd úr safni.
Sigurður G. Guðjónsson, fyrrverandi stjórnarmaður í Glitni. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lárus Welding er ákærður í tveimur liðum fyrir þessi útlán bankans til starfsmanna, fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik, meðal annars fyrir að hafa ekki fengið samþykki stjórnar fyrir þeim.

Hann viðurkenndi í skýrslu sinni fyrir dómi síðastliðinn fimmtudag að frágangurinn á málinu hefði ekki verið til fyrirmyndar, en sagði þó að lánin hefðu verið afgreidd með fullu samþykki stjórnar. Þorsteinn Már Baldvinsson, þá stjórnarformaður Glitnis, skrifaði undir lánaskjölin ásamt Lárusi.

Sagðist hafa stungið upp á útfærslunni á fundi stjórnar

Einungis einn stjórnarmannanna fyrrverandi sem komu fyrir dóminn í dag, Kristinn Þór Geirsson, kannaðist við að um lánin hefði verið rætt á stjórnarfundi. Hann sagðist hafa nefnt þessa tilhögun sjálfur í tengslum við aðhaldsverkefni innan bankans.

Uppástungu Kristins er þó ekki að finna í fundargerðum stjórnar Glitnis frá þessum tíma, en stjórnarmenn segja almennt að fundargerðirnar hafi verið nokkuð nákvæmlega skrásettar.

„Kaupréttir starfsmanna voru dýrir í bókfærslulegum skilningi án þess að hafa efnahagsleg áhrif á bankann að öðru leyti,“ sagði Kristinn Þór, sem sagðist hafa kynnt fyrir stjórninni að hægt væri að útfæra umbun til starfsmanna á annan hátt.

Sjokkeraður að heyra af lánveitingunum

Stjórnarmaðurinn Björn Ingi Sveinsson virðist ekki muna þetta á sama hátt og Kristinn. Hann gaf símaskýrslu í dag og í svörum hans kom fram að hann hefði verið „sjokkeraður“ þegar hann heyrði af lánveitingunum. Þeirri upplifun hafði hann áður lýst í yfirheyrslum hjá lögreglu.

„Ég var sjokkeraður yfir því að það var engin áhætta lögð undir,“ sagði Björn Ingi og bætti við að honum hefði ekki strax verið ljóst að þarna hefði verið um umbunarkerfi starfsmanna að ræða. Honum þóttu upphæðirnar háar.

„Ef að þetta hefði verið útfærslan á hvatakerfi starfsmanna þá hefði ég nú kannski staldrað við þegar upphæðirnar voru ljósar og viljað fá skýringar á því,“ sagði Björn Ingi.

Varaformaður stjórnar hafði rætt lánin við Lárus

Jón Sigurðsson, sem var forstjóri FL Group og varaformaður stjórnar Glitnis á þessum tíma, man ekki eftir því að lánatilhögunin hafi verið rædd sérstaklega á fundum stjórnar, né að stjórnarformaðurinn Þorsteinn Már hefði fengið umboð stjórnar til að skrifa undir lánaskjölin.

Hins vegar kannaðist hann við að tilhögunin hefði komið upp í samtölum sínum við Lárus Welding.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group og varaformaður stjórnar Glitnis. …
Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group og varaformaður stjórnar Glitnis. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Aðspurður sagðist hann gera ráð fyrir því lánveitingarnar væru umfjöllunarefni tölvupósts frá 27. apríl árið 2008 þar Lárus skrifaði: „Hvenær getur þú hitt mig út af drengjunum og kaupum þeirra á bréfum?“

Jón sagði að eini tilgangurinn lánveitinganna hefði verið sá að umbuna starfsmönnum, svokallað hvatakerfi. Í raun væri þetta bara önnur útfærsla á slíku kerfi og þessi leið hefði sennilega verið farin vegna einhverra bókhaldslegra pælinga.

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, spurði Jón út í það hvort hann teldi mikinn mun á kaupréttarsamningum og lánveitingum til kaupa á hlutabréfum eins og um ræðir í þessu máli.

„Fjárhagslega er virknin mjög svipuð, út frá einstaklingnum,“ sagði Jón. Varðandi fjárhagslega áhættu bankans væri „tæknilegt hvernig maður myndi skilgreina það.“

Vitnaleiðslur í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis halda áfram á morgun.

mbl.is