Sagðist viss um samþykki stjórnar

Markaðsmisnotkunarmál Glitnis | 24. janúar 2018

Mögulega „farist fyrir“ að bóka samþykkið

Síðustu vitnin í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis komu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.  Hörður Felix Harðarson, fyrrum yfirlögfræðingur Glitnis og ritari stjórnar, sagði mögulegt það hafi „farist fyrir“ að bóka samþykki stjórnar um lánveitingar til fjórtán lykilstarfsmanna bankans í fundargerð, sem hann sá um að rita.

Mögulega „farist fyrir“ að bóka samþykkið

Markaðsmisnotkunarmál Glitnis | 24. janúar 2018

Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur. Aðalmeðferð markaðsmisnotkunarmáls Glitnis hefur staðið …
Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur. Aðalmeðferð markaðsmisnotkunarmáls Glitnis hefur staðið yfir í sex daga og vitnaleiðslum er nú lokið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Síðustu vitnin í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis komu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.  Hörður Felix Harðarson, fyrrum yfirlögfræðingur Glitnis og ritari stjórnar, sagði mögulegt það hafi „farist fyrir“ að bóka samþykki stjórnar um lánveitingar til fjórtán lykilstarfsmanna bankans í fundargerð, sem hann sá um að rita.

Síðustu vitnin í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis komu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.  Hörður Felix Harðarson, fyrrum yfirlögfræðingur Glitnis og ritari stjórnar, sagði mögulegt það hafi „farist fyrir“ að bóka samþykki stjórnar um lánveitingar til fjórtán lykilstarfsmanna bankans í fundargerð, sem hann sá um að rita.

Hörður sendi tölvupóst á Sólveigu Ágústsdóttur, þá lánastjóra á fyrirtækjasviði Glitnis, þar sem hann bað um að lánin til félaganna fjórtán yrðu afgreidd og sagði: „Ég get staðfest að það var búið að samþykkja í stjórn en er ekki með samþykktirnar sjálfar við hendina til að senda þér.“

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar Welding, spurði hann út í þetta og þá sagði Hörður að það væri „algjörlega 100%“ að hann hefði aldrei gefið staðfestingu eins og þessa nema hann væri búinn að sannreyna að samþykki stjórnar lægi fyrir.

Eins og áður hefur komið fram við vitnaleiðslur er samþykkið þó hvergi bókað í fundargerðum stjórnar og meirihluti stjórnarmanna minnist þess ekki að málið hafi verið rætt.

Björn Þorvaldsson saksóknari í málinu til vinstri og Hörður Felix …
Björn Þorvaldsson saksóknari í málinu til vinstri og Hörður Felix Harðarson, fyrrum yfirlögfræðingur Glitnis. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Sá þetta aldrei sem launakjör

Ragnar Torfi Geirsson var forstöðumaður launadeildar Glitnis á þessum tíma. Hann bar vitni í dag og sagði að legið hefði fyrir að bankinn hefði ekkert svigrúm til að gera kaupréttarsamninga.

Launadeild bankans hafði meðal annars það hlutverk að greiða kaupauka samkvæmt þeim kaupaukakerfum sem voru í gangi á hverjum tíma, en lánin til félaga í eigu fjórtánmenninganna komu aldrei inn á hans borð.

„Ég sá þetta aldrei sem launakjör, þetta var aldrei vistað hjá okkur sem hluti af launakjörum. Kaupréttir eru bundnir við ákvörðun stjórnar og ég veit að það var ekkert rými til kauprétta á þessum tíma," sagði Ragnar Torfi við dóminn.

Þótti miður að fá ekki lán til hlutabréfakaupa

Hörður Felix sagði að hann hefði litið á lánveitingar til starfsmanna „sem aðra útgáfu af kaupréttum.“ Fyrir honum hafi þetta verði starfsmannamál, liður í því að tryggja bankanum áframhaldandi þjónustu lykilstarfsmanna.

Í sama streng tók Elvar Rúnarsson, lögfræðingur sem starfaði ásamt þeim Helga Rúnari Óskarssyni og Hafsteini Bragasyni við mannauðsmál í bankanum á þessum tíma.

„Ég hélt að lögfræðingar hefðu tekið próf í því,“ sagði Arngrímur Ísberg dómsformaður er Elvar tjáði honum að það væri kannski ágætt fyrir hann að fá að heyra vitnaskylduna, en Arngrímur hafði gert ráð fyrir því að Elvar, sem löglærður maður, þyrfti ekki að rifja hana sérstaklega upp.

Elvar sagðist annars kannast við umræður um að lánveitingar til hlutabréfakaupa hefðu verið álitnar betri kostur fyrir bankann en hefðbundnir kaupréttarsamningar. Hann segist hafa heyrt af fyrirhuguðum lánveitingum til lykilstarfsmanna frá Helga Rúnari áður en lánin voru afgreidd.

„Við afréðum að heimsækja Lárus og fara yfir þetta og þá var hugurinn þannig að okkur þótti miður að hafa ekki verið hluti af þessum hópi,“ sagði Elvar. Niðurstaðan af fundi hans og Helga Rúnars með Lárusi Welding hafi verið sú að „ef að þetta yrði gert aftur og síðar, væri ekki útilokað að við yrðum skilgreindir sem hluti af þessum lykilmannahópi.“

Lánin tengdu saman hagsmuni starfsmanna og Glitnis

Helgi Rúnar, sem í dag er forstjóri Sjóklæðagerðarinnar - 66°Norður, var yfirmaður á mannauðssviði Glitnis á þessum tíma. Hann kom fyrir dóminn og sagði að hann myndi ekki eftir því að hafa verið ósáttur við það að vera ekki í þeim hópi lykilstarfsmanna sem fékk lán til hlutabréfakaupa, eins og Elvar hafði lýst.

Hann sagðist hafa verið upplýstur um að lánveitingar til lykilstarfsmanna stæðu til, en Björn Þorvaldsson saksóknari benti á að það stangaðist á við yfirlýsingar sem hann hafði áður gefið í yfirheyrslum hjá lögreglu.

Þegar saksóknari spurði hann út í þetta misræmi svaraði Helgi Rúnar því til að hann myndi ekki nákvæmlega hvenær hann hefði fengið vitneskju um lánveitingar. Umræður hafi þó átt sér stað um málið áður en lánin voru afgreidd.

Vitnaleiðslum í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis lauk í dag.
Vitnaleiðslum í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis lauk í dag. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Helgi Rúnar sagðist ekki geta séð hvaða vafi væri á því að lánin til fjórtánmenninganna hefðu verið hluti af hvatakerfi bankans.

„Þetta er bara hluti af einhverskonar kjarastefnu þar sem er verið að umbuna lykilstarfsmönnum, tengja saman hagsmuni lykilstarfsmanna og fyrirtækisins. Það er nú yfirleitt hugmyndin, að þegar félaginu gangi vel njóti starfsmenn góðs af því,“ sagði Helgi.

Málflutningur hefst 1. febrúar

Nú er skýrslutökum og vitnaleiðslum í þessu máli lokið eftir alls sex daga og saksóknari og verjendur fara í það að undirbúa málflutningsræður sínar. Dómi hefur verið frestað til 1. febrúar, en þá mun saksóknari byrja á að halda sína ræðu, þá verjandi Lárusar og síðan verjandi Jóhannesar Baldurssonar. Föstudaginn 2. febrúar munu svo verjendur starfsmannana þriggja úr deild eigin viðskipta Glitnis halda sínar málflutningsræður.

mbl.is