Ekki hægt að sakfella sjálfkrafa

Markaðsmisnotkunarmál Glitnis | 1. febrúar 2018

Ekki hægt að sakfella Lárus sjálfkrafa

Ekki er hægt að sakfella Lárus Welding sjálfkrafa fyrir markaðsmisnotkun á kauphlið einungis vegna þess að aðrir bankastjórar hafa verið sakfelldir í sambærilegum málum, að sögn Óttars Pálssonar, verjanda Lárusar, sem flutti varnarræðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi í dag.

Ekki hægt að sakfella Lárus sjálfkrafa

Markaðsmisnotkunarmál Glitnis | 1. febrúar 2018

Óttar Pálsson og Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Óttar Pálsson og Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Hari

Ekki er hægt að sakfella Lárus Welding sjálfkrafa fyrir markaðsmisnotkun á kauphlið einungis vegna þess að aðrir bankastjórar hafa verið sakfelldir í sambærilegum málum, að sögn Óttars Pálssonar, verjanda Lárusar, sem flutti varnarræðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi í dag.

Ekki er hægt að sakfella Lárus Welding sjálfkrafa fyrir markaðsmisnotkun á kauphlið einungis vegna þess að aðrir bankastjórar hafa verið sakfelldir í sambærilegum málum, að sögn Óttars Pálssonar, verjanda Lárusar, sem flutti varnarræðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi í dag.

Í morgun benti Björn Þorvaldsson saksóknari á rök Hæstaréttar fyrir sakfellingu yfir Sigurði Einarssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings í sambærilegu máli. Þau ættu einnig við í máli Glitnismanna. Því neitar Óttar Pálsson alfarið.

Þuldi hann upp fjölda dæma úr Hæstaréttardómi yfir Sigurði sem gæfu til kynna að aðkoma hans að viðskiptum bankans með eigin bréf hefði verið ótvíræð. Hið sama eigi ekki við um Lárus og það megi sjá á gögnum málsins.

„Er það þessi aðkoma sem ákæruvaldið vill jafna við aðkomu míns umbjóðanda í þessu máli? Það er algjörlega fráleitt,“ sagði Óttar.

Ungur bankastjóri með margt annað að hugsa um

Hann hafi til dæmis ekki átt sæti í markaðsáhættunefnd sem fjallaði um málefni deildar eigin viðskipta Glitnis og ekki verið í samskiptum við starfsmenn, stjórnendur eða aðra um Kauphallarviðskipti deildarinnar með bréf í bankanum sjálfum.

Í raun bendi gögn málsins til þess að Lárus hafi sýnt málunum „óeðlilega lítinn áhuga,“ en á ákærutímabilinu hafi ákæruvaldið einungis fundið einn póst þar sem Lárus Welding fjallar um stöðu eigin bréfa bankans að einhverju leyti, en í honum spyr hann Jóhannes Baldursson hver sé að „hamra“ gengi bankans niður. Slíkt sé fullkomlega eðlileg spurning frá forstjóra félags sem skráð er á hlutabréfamarkaði.

Einu upplýsingarnar sem Lárusi hafi borist um stöðu bankans í eigin bréfum hafi verið í reglulegum skýrslum um heildarrekstur bankans.

„Þetta er ein lína í stóru skjali,“ sagði Óttar. Þegar Lárus tók við starfi bankastjóra vorið 2007 var hann 30 ára gamall og efnahagsreikningur bankans verið um 2.300 milljarðar íslenskra króna.

„Hann gegndi starfinu hjá bankanum í 17 mánuði eða um það bil og á þeim tíma gengu yfir okkur mestu efnahagshamfarir Íslandssögunnar,“ sagði Óttar og lagði áherslu á að ungur bankastjóri hafi haft í nógu öðru að snúast en að hugsa um þennan þátt rekstrarins.

„Það er samhljóma framburður allra þeirra sem höfðu eitthvað með eigin viðskipti að gera að Lárus hafði aldrei afskipti af þeim, hvorki bein né óbein,“ og sagði það meðal annars hafa komið fram í máli Magnúsar Pálma Örnólfssonar, forstöðumanns deildar eigin viðskipta Glitnis, sem „einhverra hluta vegna“ væri ekki með okkur í salnum hér í dag.

Málið ólíkt hinum markaðsmisnotkunarmálunum

Óttar sagði að það væru atriði sem hefðu verið forsendur fyrir sakfellingu í markaðsmisnotkunarmálum Kaupþings og Landsbankans, sem ekki ættu við hér. Í dómi yfir Landsbankamönnum hafi t.d. verið tekið fram að ekkert hafi komið fram um að Landsbankinn væri með svokallaða viðskiptavakt  með eigin bréfum.

Það eigi ekki við í þessu máli, þar sem tilkynning hafi verið send frá Íslandsbanka, forvera Glitnis, 2. júlí árið 1998, þar sem fram kom að viðskiptastofa Íslandsbanka myndi hafa viðskiptavakt með bréfum nokkurra hlutafélaga, þar á meðal Íslandsbanka sjálfum. Þessi yfirlýsing hafi aldrei verið felld úr gildi.

Einnig hafi Bjarni Ármannsson, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, sent FME bréf árið 2007 þar sem hann sagði Glitni stunda virka viðskiptavakt með bréf í sjálfum sér.

„Við þessu bréfi var ekki hreyft neinum andmælum eða gerðar athugasemdir af hálfu FME,“ sagði Óttar.

Fjölmennt lið verjenda í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis.
Fjölmennt lið verjenda í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis. mbl.is/Hari

Þá hafi einnig komið í ljós í Kaupþingsmálinu og Landsbankamálinu að bankarnir hefðu forðast það að „flagga“ – upplýsa markaðinn um háa stöðu í eigin bréfum.

Þetta hafi ekki átt við hjá Glitni. Lárus Welding hafi sagt við regluvörð bankans að ef það þyrfti að flagga yrði flaggað, en ef þess þyrfti ekki, yrði ekki flaggað.

„Málið var ekki flóknara en það og leyndin ekki meiri en það,“ sagði Óttar.

Þá sagði Óttar að það liggi ekki fyrir dómi í þessu máli gögn sem sýni að öll sala hlutabréfa í bankanum í utanþingsviðskiptum á ákærutímabilinu hafi verið gerð á öðrum forsendum en viðskiptalegum. Sala á hlutabréfum til fjórtán lykilstarfsmanna séu einungis lítill hluti heildarsölu á bankans á eigin bréfum.

Þau gögn liggi einfaldlega ekki fyrir í þessu máli. Dómurinn gæti þannig ekki horft þeirra gagna sem liggja fyrir í BK-44 og Stím-málunum svokölluðu. Þau hafi ekki verið lögð fram í þessu máli og því verði að líta á það svo að önnur viðskipti hafi verið á viðskiptalegum forsendum.

Hann gaf í skyn að þarna væru vinnubrögð ákæruvaldsins letileg og að saksóknari „virðist telja að það sé nóg að mæta,“ til að ná fram sakfellingu í málinu. Hins vegar hljóti að þurfa að gera kröfu um „alvöru sönnunarfærslu“ hér fyrir dómi.

Útlánin til starfsmannana fjórtán

Um annan og þriðja ákærulið málsins, markaðsmisnotkun á söluhlið og umboðssvik, sagði Óttar að það væri ekki deilt um það í þessu máli að Lárus bæri ábyrgð á lánveitingum til starfsmannanna fjórtán sem fengu lán til hlutabréfakaupa í bankanum að andvirði um 7 milljarða króna.

„Hann er reiðubúinn að sæta ábyrgð hafi hann brotið af sér,“ sagði Óttar, en sagði þó umbjóðanda sinn gera kröfur um að lánin yrðu sett í rétt samhengi.

Öll nálgun ákæruvaldsins í málinu beri þess merki að verið sé að horfa til forms, fremur en efnis.

„Háttsemi umbjóðanda míns er borin saman við mælistiku hefðbundinna útlána til viðskiptavina þegar raunin er sú að þetta voru ekki hefðbundin útlán til viðskiptavina,“ sagði Óttar og lagði áherslu á það sem hefur verið gegnumgangandi í vitnaleiðslum yfir öllum þeim sem komið hafa fyrir dóminn, að þarna hafi ekki verið um hefðbundin útlán að ræða, heldur útfærslu á nýju hvatakerfi fyrir lykilstarfsmenn bankans.

„Ráðstöfun umbjóðanda míns var gerð í þágu bankans,“ sagði Óttar og lagði áherslu á að lánunum mætti jafna við hefðbundna kaupréttarsamninga. Starfsmenn fjármálafyrirtækja hafi fyrst og fremst gengið fyrir fjárhagslegum hvötum.

Þá sagði Óttar að umboðssvik hefðu ekki átt sér stað í þessu máli – þar sem umboðssvik væru í eðli sínu trúnaðarbrot, maður þurfi að hafa rofið trúnað við umbjóðanda sinn, en fyrir liggi í málinu að bæði stjórnarformaðurinn Þorsteinn Már Baldvinsson og varaformaður stjórnar, Jón Sigurðsson, hafi haft vitneskju um tilhögunina.

Óttar sagði að ákæruvaldið þyrfti að sýna fram á að umbjóðandi sinn hefði vitað að hann væri að fara út fyrir heimildir sínar, til þess að hægt væri að sakfella hann fyrir umboðssvik.

mbl.is