„Hugsaði daglega til fjölskyldu minnar“

Suður-Súdan | 7. febrúar 2018

„Hugsaði daglega til fjölskyldu minnar“

Bakhita var bara 12 ára gömul er uppreisnarmenn rifu hana úr örmum fjölskyldu sinnar og gerðu hana að þátttakanda í borgarastríðinu í Suður-Súdan. Sameinuðu þjóðirnar segja tæplega 19.000 börn hafa verið gerð að þátttakendum í þessu grimmilega borgarastríði.

„Hugsaði daglega til fjölskyldu minnar“

Suður-Súdan | 7. febrúar 2018

Barnahermenn bíða í röð eftir skráningu hjá UNICEF sem ætlar …
Barnahermenn bíða í röð eftir skráningu hjá UNICEF sem ætlar að veita þeim starfsþjálfun og reyna að sameina þá fjölskyldum sínum á ný. AFP

Bakhita var bara 12 ára gömul er uppreisnarmenn rifu hana úr örmum fjölskyldu sinnar og gerðu hana að þátttakanda í borgarastríðinu í Suður-Súdan. Sameinuðu þjóðirnar segja tæplega 19.000 börn hafa verið gerð að þátttakendum í þessu grimmilega borgarastríði.

Bakhita var bara 12 ára gömul er uppreisnarmenn rifu hana úr örmum fjölskyldu sinnar og gerðu hana að þátttakanda í borgarastríðinu í Suður-Súdan. Sameinuðu þjóðirnar segja tæplega 19.000 börn hafa verið gerð að þátttakendum í þessu grimmilega borgarastríði.

„Ég hugsaði daglega til fjölskyldu minnar. Stundum grét ég, en ég gat ekki flúið. Hermennirnir voru alls staðar í kjarrinu í kring,“ sagði Bakhita í samtali við Reuters-fréttastofuna. Hún er í hópi hundruða barna sem uppreisnarmenn afhentu starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna í dag.

Bakhita, sem ræddi við Reuters í bænum Yambio í vesturhluta Súdan, kvaðst hafa verið í tvö ár hjá uppreisnarmönnunum.

„Það voru engin hús. Við sváfum í tjaldi. Stundum komu hermennirnir inn til mín á nóttunni og vildu nauðga mér. Ef ég streittist á móti þá börðu þeir mig og létu mig sjá um matseldina í viku til að refsa mér fyrir að neita að sofa hjá þeim,“ sagði hin 14 ára Bakhita og brast í grát.

Rúmlega 300 börn, þar af 87 stúlkur, voru látin laus á miðvikudag. Segjast Sameinuðu þjóðirnar vonast til að 700 börn hið minnast verði látin laus í samningaferlinu.

Uppreisnarmenn bæta hins vegar barnahermönnum í sínar raðir hraðar en mannréttindasamtök ná að frelsa þau.

Barnahermaður í Suður-Súdan. Drengurinn er eitt þeirra barna sem uppreisnarmenn …
Barnahermaður í Suður-Súdan. Drengurinn er eitt þeirra barna sem uppreisnarmenn afhentu Sameinuðu þjóðunum í dag. AFP

„Ég drap engan“

Mörgum barnanna er rænt með valdi, líkt og var í tilfelli Bakhitu. Önnur láta freistast af loforðum um mat og vernd, en bágborið efnahagsástand og átök hafa lengi sett svip sinn á lífið í Suður-Súdan. Þá bjó hluti landsmanna við hungursneyð á síðasta ári.

„Ég drap engan. Foringi minn var góður við mig. Ég fékk byssu til að verja mig og fólkið í kringum mig,“ sagði Henry, 16 ára barnahermaður.

Dvöl hans með uppreisnarmönnum hefur engu að síður skaðað hann. „Byssuhljóðið hefur haft áhrif á heilann í mér. Ég þarf að fá eitthvað til að hjálpa heilanum í mér að jafna sig,“ sagði hann hikandi.

Suður-Súdan, sem er auðugt af olíu, öðlaðist sjálfstæði frá Súdan árið 2011. Borgarastyrjöld braust út tveimur árum síðar og í kjölfarið hefur þriðjungur þeirra 12 milljóna sem þá bjuggu þar flúið heimili sín.

Átökin hafa m.a. falið í sér þjóðernismorð. Margir af æðstu ráðamönnum hersins tilheyra Dinka-ættbálkinum og það gerir raunar líka forseti landsins Salva Kiir Mayardit. Fjöldi uppreisnarmanna tilheyrir hins vegar Nuer-ættbálkinum, líkt og fyrrverandi varaforsetinn Riek Machar. Margir minni uppreisnarhópar hafa þá átt í ættbálkadeilum um yfirráð yfir sínum svæðum. Hópnauðganir og árásir á almenna borgara eru algengar.

Reyna að sameina börnin fjölskyldum sínum

Mahimbo Mdoe, fulltrúi UNICEF í Suður-Súdan, segir barnahópinn sem látinn var laus í dag vera þann stærsta í þrjú ár.

„Það er nauðsynlegt að halda samningaviðræðum áfram þannig að við fáum marga fleiri svona daga,“ sagði hann í yfirlýsingunni.

Flest barnanna sem voru látin laus höfðu verið hjá Þjóðfrelsishreyfingu Suður-Súdan, uppreisnarsamtökum sem undirrituðu friðarsamning við stjórnvöld í landinu árið 2016. Frelsisher Suður-Súdan, sem er stærsti uppreisnarhópurinn, lét þó einnig laus tæplega 100 börn í dag. 

Rúmlega 300 barnahermenn voru afhentir Sameinuðu þjóðunum með athöfn í …
Rúmlega 300 barnahermenn voru afhentir Sameinuðu þjóðunum með athöfn í Yambio héraði í dag. AFP

Nokkur barnanna höfðu áður náð að flýja og snúa aftur til fjölskyldna sinna, en ekki fengið neinn stuðning þar.

UNICEF ætlar að veita börnunum ráðgjöf og starfsþjálfun á sama tíma og reynt verður að sameina börnin fjölskyldum sínum á nýjan leik. Í þeim tilfellum þar sem ekki tekst að finna fjölskyldur barnanna verður þeim fundið húsnæði á vistheimilum.

„Ég vil ekki vera uppreisnarmaður lengur“

Hinn 17 ára Justin, sem varð lífvörður hátt setts foringja í her uppreisnarmanna, er einn þeirra sem er í óvissu um framtíð sína. Uppreisnarmenn réðust á heimaþorp hans í Zahra árið 2017. Justin sagðist hafa brennt einkennisbúning sinn til að reyna að gleyma þessum erfiðu minningum.

„Margt slæmt gerðist á meðan ég var þar. Ef maður stal ekki þá hafði maður ekkert að borða. Þegar stjórnarherinn réðst á okkur vorum við á flótta og að berjast í heilan dag án þess að hafa eitthvað að borða,“ sagði hann. „Ég á engin föt til að klæðast. Meira að segja þessir skór sem ég er í, ég stal þeim frá einhverjum.“

Justin kvaðst vera sá eini sem væri eftir í sinni fjölskyldu. „Móðir mín er dáin og faðir minn fór til Bentiu, en kom ekki til baka. Ég var að frétta að hann hefði verið drepinn í stríðinu af því að hann var hermaður og ég vil ekki vera uppreisnarmaður lengur.“

mbl.is