„Var ég með fordóma?
„Var ég með fordóma?
Hér áður fyrr, í þau fáu skipti sem ég hugsaði um andlega veika, vorkenndi ég þeim og [var] feginn að vera ekki í þeim hópi! Mín viðhorf gagnvart geðsjúkum voru byggð á skoðunum og álitum annarra. Vanþekkingin algjör. Fordómar. Get ekki neitað.
Ætla í þessum pistli að stikla á stóru um fordóma gagnvart andlegum veikindum sem má yfiræra á margt annað s.s. andlegt og líkamlegt ofbeldi. Geri frá nokkrum sjónarhornum,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
Hvernig losnaði ég við fordóma?
Sumarið 2013 fæ ég fyrstu einkenni geðröskunar sem á íslensku kallast krónísk/flókin/fjölþætt áfallastreituröskun. Á frummálinu Complex Post Traumatic Stress Disorder (CPTSD). Einkennin voru að sársauki ofbeldis úr æsku braust fram í ofsakvíða og hræðslu. Við tók 2 ára barátta sem lagði mig og mitt líf í rúst. Í lokin komst ég ekki út úr húsi vegna ofsakvíða- og panikkasta. Útbrunninn (burnt out), líkamlega og andlega. Orku-, tauga- og varnarkerfið farið. Kraftaverk að sleppa lifandi. Tek fram að sjálfsvígstíðni fólks með ómeðhöndlað CPTSD er mjög há og ég að glíma við lífshættulegan djöful!
Var heppinn að eiga að sálfræðing sem tók mig að sér. Tók sinn tíma að skilja ég væri veikur og ekki fyrr en ég hafði aflað mér upplýsinga um CPTSD. Um sama leyti voru 3 stúlkur að setja af stað herferðina #egerekkitabú og stofnuðu facebookhópinn Geðsjúk. Mamma einnar þeirra skráði mig í hópinn án þess ég vissi. Man hvað mér brá að vera í hóp sem bæri heitið Geðsjúk! Bráðfyndið eftir á. Ég skrifaði langan status og útskýrði hvað ég væri að glíma við en var í raun að rökstyðja að ég tilheyrði ekki hópi geðsjúkra því ég væri ekki með geðsjúkdóm heldur röskun. Hrúguðust inn komment. Fólk bauð mig velkomið [sic] og ég væri á réttum stað og ég veit ekki hvað. Þarna viðurkenndi ég minn vanmátt gagnvart kredduviðhorfum. Orðinn einn af þeim!
Af hverju upplifir andlega veikt fólk skömm?
Í dag sé ég að það hjálpaði mér að vera útbrunninn í upphafi batagöngunnar. Gat ekki falið ég væri veikur og hafði ekki orku að skammast mín. Átti aðeins eitt eftir. Auðmýkt! Ég hef oft heyrt um skömmina sem fólk með andleg veikindi upplifir. Kynntist því ásamt fleiru er ég hóf að skrifa og birta pistla. Fólk sem last pistlana hafði oft samband við mig. Sumir sögðu mér brot af sinni stöðu og sögu. Þá skildi ég hve skelfileg staða andlegra veikra er. Þjást af skömm yfir að aðrir viti að þau séu andlega veik. Ekki skömm að hafa gert eitthvað rangt. Nei skömm yfir að vera eins og maður er! Hræðilegt því fólk missir alla sjálfsvirðingu, sjálfstraust og sjálfsímynd. Jafnvel fyrirlítur sig. Þá ertu kominn langt niður í svar[t]hol hugans. Hver upplifir skömm við fótbrotna? Því ætti sá þunglyndi að upplifa skömm. Ástæðan fyrir skömm eru fordómar. Skömmin er ekki ímyndun. Fólk lendir í erfiðu mótlæti. Sem dæmi hef ég heyrt að fólk þorir ekki að opinbera veikindin sín á vinnustað af ótta við að missa vinnuna! Sumir þora ekki að leita sér hjálpar! Gæti talið svona upp. Þetta er meira en sorglega grátlegt árið 2018 í landi sem telur sig siðmenntað velferðarþjóðfélag. Að lifa í skömm að nauðsynjalausu er eins og að vera í lífstíðarfangelsi hugans. Hver vill það? Vilt þú einhverjum líði þannig? Hugsaðu málið. Aflaðu þér þekkingar!
Er örsok fordóma vanþekking?
Já. Bráðvantar fræðslu til að breyta viðhorfum. Byrja á yngstu kynslóðinni. Sporna við að viðhorf barna smitist af vanþekkingu fullorðinna. Þetta er alls staðar í þjóðfélaginu. Íþróttahreyfingin er gott dæmi. Ekki langt síðan að hjá ÍSÍ var ekki stafkrókur um andleg veikindi í þeirra stefnumótun! Íþróttahreyfingin á að taka frumkvæði og pressa á íþróttafélög. Í félögunum er hægt að nálgast stóran hóp af ungu fólki og fræða. Dæmigert þegar íþróttamaður eða -kona gengur til liðs við félag undirgengst læknisskoðun. Líkamlega! Af hverju ekki skimað eftir andlegum þáttum? Vita menn ekki hve mikilvægur andlegur þáttur er í árangri íþróttafólks? Held það. Sá sem er haldinn t.d. þunglyndi eða kvíðaröskun mun ekki ná árangri sama hversu mikið pepp viðkomandi fær. Líka vitað. Er gert eitthvað í því? Hve margir íþróttamenn hætta sem hefðu getað orðið afreksfólk? Svari sá sem getur. Vona að fordómar séu ekki ástæðan. En klárlega vanþekking.
Hvað með hið opinbera?
Verið eilífðarumræða um niðurskurð fjárveitinga til geðheilbrigðismála. Starfsfólk heilbrigðiskerfisins og félagasamtaka eru að gera sitt besta í ómögulegum vinnuaðstæðum skilst mér. Hvers vegna niðurskurð? Er ekki hagkvæmt fyrir þjóðarbúið að flestir andlega veikir nái bata og taki þátt í þjóðfélaginu og greiði skatta? Mun ekki hverri krónu sem er eytt í geðheilbrigðismál skila sér margfalt til baka? Veit ekki hvaða formúlur eru notaðar í excelskjölum sem reikna út niðurstöðu að talið sé hagkvæmt að skera niður í geðheilbrigðisþjónustu. Ég saka ekki opinbera starfsmenn eða stjórnmálamenn um fordóma en að minnka fjármagn til geðheilbrigðismála, vitandi að vandinn er stór, er að lágmarki óskiljanlegt. Líkt og að vona að vandinn leysist af sjálfu sér.
Hvað með fagfólk?
Hef enga reynslu af geðlæknum en mikla reynslu af sálfræðingum. Upplifði sláandi vanþekkingu á því sem mig hrjáir. Fólk hefur sagt mér hvernig það var greint í upphafi hjá sálfræðingi eða geðlækni. Sat svo uppi með nokkrar sjúkdómsgreiningar.
Rakst á slagorð sem segir að sálfræðingar eða þerapistar ættu ekki að spyrja skjólstæðing hvað sé að, heldur hvað kom fyrir þig? Komast að rótum veikindanna. Þá kemur kannski í ljós að fólk lenti í hræðilegu ofbeldi sem börn eða síðar meir og situr uppi með sársauka áfalla. Einkennin geta svo verið ofsakvíði, þunglyndi, misnotkun vímuefna o.s.frv. Jú vissulega þarf að fá aðstoð við einkennunum en, tala út frá minni reynslu, þarf að skoða samhengið á milli orsaka (t.d. ofbeldis) og afleiðinga (t.d. ofsakvíðakasta).
Ég hef eytt 18 mánuðum í starfsendurhæfingu og þ.á m. ótal sálfræðitímum. Farið í tvö sálfræðimöt. Sálfræðitímar ekkert hjálpað og sálfræðimötin ekki rétt! Af hverju? Vanþekking! Hefur gert mína batagöngu miklu erfiðari og oft niðurdrepandi.
Nýlega, í starfsgetumati, hitti ég sálfræðing sem vissi allt um mína röskun. Vissi um alla (þá fáu) sem hafa sérþekkingu á úrræðum fyrir mig. Mig langaði að öskra en fór að gráta í staðinn. Spennufall. Féll saman. Þá fann ég hvað skilningsleysið hafði setið í mér. Henni fannst einkennilegt að ég hafi ekki verið metinn í upphafi. Hún hefði sent mig allt aðra leið en ég fór. Ég var fúll í smástund en svo kom feginleikinn að hafa loks hitt fagaðila sem skildi mig. Þetta var himnasending og verðlaun fyrir að gefast ekki upp því viljinn að ná bata, keppnisskapið og jafnvel þrjóskan fengu mig til að berjast áfram.
Tek fram að ég er ekki að kasta rýrð á alla fagaðila sem eru að hjálpa fólki [með] andleg veikindi heldur segja mína reynslu.
Ég segi. Ekki vera feiminn að spyrja geðlækni eða sálfræðing um reynslu á því að meðhöndla fólk með Complex áfallastreituröskun. Ég brenndi mig. Þú þarft þess ekki.
Af hverju hef ég hátt?
Þegar ég hresstist fór ég að láta í mér heyra og sér ekki fyrir endann á því. Mér finnst það skylda mín fyrst ég treysti mér til þess. Ástæðan er einföld því þó ég hafi gengið í gegnum eld og brennistein þá óska ég engum þess sama.
Ég er mannvinur. Varla hægt að kalla sig velferðarþjóðfélag ef mér eða þér er ekki umhugað um velferð náungans.
Ég vil láta gott af mér leiða og ef mín reynsla hjálpar einhverjum yrði enginn glaðari en ég. Þarf því ekki að biðja mig um að stíga fram og tala gegn fordómum!