Indversk stjórnvöld hafa samþykkt að hægt verði að dæma menn til dauða sem gerast sekir um að nauðga börnum. Þetta kemur í kjölfar harðra mótmæla í landinu í tengslum við mörg alvarleg mál sem hafa komið upp og vakið óhug meðal almennings.
Breytingin á refsilöggjöfinni snýr að þeim sem eru dæmdir fyrir að nauðga börnum sem eru yngri en 12 ára, að því er fram kemur á vef BBC.
Indverska þjóðin var slegin óhug vegna máls átta ára gamallar stúlku sem var myrt eftir að hafa verið nauðgað af hópi manna. Víða á Indlandi brutust út mótmæli þar sem almenningur krafðist aðgerða og réttlætis.
Ríkisstjórn landsins hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að gera ekki nóg til að bregðast við kynferðisbrotum, en mörg mál varða börn.
Dauðarefsing hefur verið i gildil á Indlandi í tengslum við alvarlega brot. Það er fyrst nú að hægt er að dæma menn til dauða fyrir að nauðga barni.
Fram kemur á vef BBC, að um 19.000 kynferðisbrotamál hafi verið skráð á Indlandi árið 2016, eða rúmlega 50 dag hvern.