Allt snýst um snuðið!

Spurt og svarað | 3. maí 2018

Allt snýst um snuðið!

Rúmlega fertugur faðir í Reykjavík spyr:

Allt snýst um snuðið!

Spurt og svarað | 3. maí 2018

Rúmlega fertugur faðir í Reykjavík spyr:

Rúmlega fertugur faðir í Reykjavík spyr:

Þriggja ára (4 ára í sumar) dóttir mín er þvílíkt háð snuðinu sínu að ég dauðkvíði því að taka það af henni. Allt snýst um snuðið og ef það gleymist til dæmis í bílnum, verður allt vitlaust. Ég þori varla að hugsa til þess að taka það af henni en átta mig á að einhvern tíma verð ég að taka af skarið. Hvernig á ég að fara að þessu?

Sæll og takk fyrir spurninguna. Þetta er algeng spurning því snuðið hefur oft hjálpað börnum við að róa sig og jafnvel veitt þeim öryggi í ýmsum aðstæðum. Uppeldi, eins og svo margt annað, gengur oft betur ef við náum að skipuleggja okkur. Við foreldrar þurfum að hafa í huga að í öllu uppeldi erum við bæði að vinna að skammtímamarkmiðum en líka til lengri tíma. Hjá ykkur er verkefnið bæði að styðja dömuna við að venja sig af snuði og einnig að kenna henni að takast á við krefjandi aðstæður án þess að missa stjórn á skapinu sínu. Settu þig aðeins í spor hennar, hefur þú þurft að hætta einhverjum óvana sjálfur? Þá veistu að þetta getur verið krefjandi tímabil en það gengur yfir- ég lofa! 

Gott er að ákveða tímann sem á að hætta með nokkrum fyrirvara, gæta þess að sá tími sé ekki álagstími á heimili. Á undirbúningstímabilinu er gott að hjálpa henni að skilgreina sig á aðeins annan hátt, þá sem eldra barn sem notar ekki snuð. Það gæti líka verið mjög hjálplegt að búa til sögu með henni um þetta ferli og nota þá myndir með smá texta. „Ég heiti Guðrún og í sumar verð ég 4 ára. Ég er mjög góð í að klifra og get oft hlaupið hraðar en mamma og pabbi. Í sumar ætla ég að hætta með snuð, ég ætla að hengja það á tréð í Húsdýragarðinum svo kálfarnir og lömbin geti notað það. Ég veit að ég get sko alveg hætt með snuð, alveg eins og Mamma/Sigga/leikskólakennarinn/ eða bara einhver fyrirmynd.“ 

Með þessu erum við búin að hjálpa henni að hugsa á uppbyggilegri hátt um að hún geti tekist á við þetta verkefni. Það er mikilvægt að láta hana taka eftir þegar vel gengur og spyrja hvort hún sjálf sé ekki stolt af sér, því er svo hægt að bæta við söguna. Þegar stóri dagurinn er runninn upp er gott að vera meðvitaður um hvar hætturnar liggja, oft er það e-ð í umhverfinu sem kveikir löngunina í snuðið. Þá er betra að vera undirbúin, hafa t.d. ný „stóru stelpu“ rúmföt eða nýja bók að lesa. Á daginn getur verið gott að vera með brakandi ferskar gulrætur eða frosin vínber.

Þegar söknuður eftir snuði kemur upp er oft gott að knúsa bara og segja ég skil þig alveg. Hjálpa henni svo að dreifa huganum, t.d. með því að fara að syngja, lesa eða ef þið eruð á ferð að telja fljúgandi bíla og svipast um eftir grænum hestum.

Það er ekki síður mikilvægt að foreldrarnir undirbúi sig fyrir þetta tímabil. Auðvitað ráðið þið við skapið í dömunni annað eins hafið þið nú tekist á við. Þó hún verði reið þá gerir það ekkert til, best er að ganga ekki inn í reiðina og fara að rökræða, því þá ertu bara að bíða eftir því að hún segi:  „nú skil ég hvað þú átt við pabbi, auðvitað hætti ég með snuðið!“ Þetta mun ekki gerast.  Þú þarft ekki að vera hræddur við þetta 4 ára skott þótt hún missi sig aðeins. Bíddu bara þangað til hún verður 14!

____________________________________________

Svar­andi í Spurt og svarað hjá Fjöl­skyld­unni á mbl.is er SÓL sál­fræði- og lækn­isþjón­usta en þar starfar fjöl­breytt­ur hóp­ur fag­fólks sem legg­ur metnað sinn í að veita börn­um, ung­menn­um og fjöl­skyld­um þeirra góða þjón­ustu. Nán­ari upp­lýs­ing­ar á www.sol.is.

mbl.is