„Eins og við vinnum í dag þá tekst barnavernd yfirleitt ekki að vinna á vanda barnanna og fjölskyldna nema vandinn sé alvarlegur og það er meðal annars vegna þess að við höfum allt of fáa barnaverndarstarfsmenn til þess að sinna hverju máli svo vel sé. Auk þess skortir okkur betri úrræði til að taka við börnum í alvarlegum vanda. Þá horfi ég til ríkisins, Barnaverndarstofu og BUGL [barna- og unglingageðdeild Landspítalans] , Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og fleiri aðila.“
„Eins og við vinnum í dag þá tekst barnavernd yfirleitt ekki að vinna á vanda barnanna og fjölskyldna nema vandinn sé alvarlegur og það er meðal annars vegna þess að við höfum allt of fáa barnaverndarstarfsmenn til þess að sinna hverju máli svo vel sé. Auk þess skortir okkur betri úrræði til að taka við börnum í alvarlegum vanda. Þá horfi ég til ríkisins, Barnaverndarstofu og BUGL [barna- og unglingageðdeild Landspítalans] , Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og fleiri aðila.“
„Eins og við vinnum í dag þá tekst barnavernd yfirleitt ekki að vinna á vanda barnanna og fjölskyldna nema vandinn sé alvarlegur og það er meðal annars vegna þess að við höfum allt of fáa barnaverndarstarfsmenn til þess að sinna hverju máli svo vel sé. Auk þess skortir okkur betri úrræði til að taka við börnum í alvarlegum vanda. Þá horfi ég til ríkisins, Barnaverndarstofu og BUGL [barna- og unglingageðdeild Landspítalans] , Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og fleiri aðila.“
Þetta kom fram í máli Júlíu Sæmundsdóttur, félagsmálastjóra Fljótsdalshéraðs, á ráðstefnu velferðarráðuneytisins um snemmtæka íhlutun í málefnum barna á Íslandi, SIMBA, í gær.
Júlía segir barnaverndarstarfsmenn búa við marga flöskuhálsa sem þeir geta lítið haft áhrif á. „Biðlistana, óhreinu börnin hennar Evu sem enginn vill taka við og þá á ég við börn með fjölþættan vanda. Gráu svæðin á milli þess sem sveitarfélögin annars vegar og ríkið hins vegar eiga að sinna. Skapa vanda sem gerir kerfið óskilvirkt og hamlar því að börn fái þá þjónustu sem þau hafa þörf fyrir og eiga rétt á,“ segir Júlía.
Hún kynnti á ráðstefnunni Austurlandslíkanið að fyrirmynd Nýborgarmódelsins sem sex sveitarfélög á Austurlandi standa að. Sænska módelið gengur út á aukið samstarf fagaðila, skóla, heilsugæslu og félagsþjónustunnar sem felur í sér markvissari ráðgjöf og meðferð í málum einstakra nemenda og fjölskyldna. Það er að segja bætt þjónusta við börn og foreldra og aukin samvinna fagfólks um málefni tengd velferð og námi nemenda frá leikskólaaldri.
Júlía segir að þetta komi í veg fyrir að leita þurfi á marga staði. Eins of- eða vanþjónustu og að sérfræðingar séu jafnvel að vinna á móti hver öðrum með ólíkri nálgun sem getur skapað glundroða í lífi skjólstæðinga.
Skólastarfsfólk hefur að hennar sögn lengi kvartað yfir úrræðaleysi þegar kemur að því að ráðleggja börnum og fjölskyldum þeirra sem eiga í vanda. Oft standi skólafólk eitt í baráttunni án nægrar aðstoðar frá öðrum sérfræðingum.
Þetta skapi mikið álag og eins hafi skólastjórnendur um allan vestrænan heim kvartað yfir barnaverndum sem vinni af þagmælsku með málefni barna.
Kennarar sem vinna með börnin alla daga fá því oft ekki upplýsingar um til hvaða aðgerða er gripið. Þeir fái það jafnvel á tilfinninguna að ekkert sé verið að gera í málum barnsins. Þetta eykur á óöryggi og vanlíðan, segir Júlía.
„Kennarar eru mikilvægir í þessu samhengi og geta gert mikið til þess að bæta aðstæður barnanna þegar hlustað er á þeirra reynslu og þekkingu á barninu. Þegar þeir eru hafðir með í ráðum og hafa hlutverki að gegna í því að vinna að sameiginlegu markmiði – að barninu farnist betur,“ segir hún og bendir á mikilvægi þess að horfa ekki fram hjá sérþekkingu þeirra á aðstæðum.
Með því að upplýsa og hlusta á kennara fái þeir hlutverk og tilgang sem eru meðal grundvallaratriða í starfi kennara og vinnur á móti hættu á að viðkomandi brenni út vegna álags.
Júlía ræddi í fyrirlestri sínum um nýlega könnun Sigrúnar Harðardóttur og Ingibjargar Karlsdóttur á líðan kennara. Þar kemur fram að ætlast sé til þess að kennarar geti haldið tíu boltum á lofti á sama tíma.
Þeir bendi á að við slíkar aðstæður væri gott að vera í samstarfi með sérfræðingum. Auk þess sé það erfitt fyrir kennara að horfa upp á börn sem glíma við mikla vanlíðan. Til að mynda vegna áfalls í fjölskyldu, fátæktar, félagslegrar útskúfunar. Kennarar upplifa sig hjálparvana í þeim aðstæðum. Að mati kennaranna skortir aðstoð fagfólks í slíkum aðstæðum svo sem félagsráðgjafa og annarra sérfræðinga.
Í Austurlandslíkaninu er lögð mikil áhersla á snemmtæk inngrip og forvarnir, segir Júlía. Það segi sig sjálft að það er mun ódýrara þegar gripið sé snemma inn og skaðleg áhrif á þroska barnsins ekki eins langvarandi. Með þessu verður inngrip í líf fjölskyldunnar minna þegar komið er að málum strax í upphafi vandans. Jafnframt getur þetta þýtt að mál barnsins þarf ekki endilega að rata á borð barnaverndar með tilheyrandi skriffinnsku og vinnuálagi.
Júlía fjallaði um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir sem félags- og velferðarsamfélag. Hvað þurfi að gera til þess að spara fjármuni og vinnuálag um leið og við veitum betri þjónustu.
Hún segir að sérfræðingar sem þurfa að leysa vanda allt of margra skjólstæðinga eða sjúklinga falli gjarna í þá gryfju að vísa vandanum í annað kerfi eða stofnun.
„Kannski oft vegna álags og krafna í starfi sem erfitt er að mæta og sinna. Þá erum við að tala um börnin sem eru í mestum vanda og þurfa kostnaðarsöm úrræði strax. Fæð starfsmanna og fjöldi mála hvers sérfræðings gerir það að verkum að lítill tími gefst til þess að sinna forvörnum og snemmtækum inngripum.
Þetta er, leyfi ég mér að segja, jafnheimskulegt og hundur sem eltir skottið á sér. Kerfið er sprungið og þjónar ekki markmiðum sínum nema af takmörkuðu leyti og við missum gott fólk í veikindaleyfi vegna álags eða það flýr í önnur störf þar sem álag er minna.
Ég óttast að stutt sé í að við náum nágrönnum okkar í Skandinavíu með fjölda starfsmanna sem glíma við alvarlegan kvíða og útbrennslu í starfi. En hvað er til ráða? Hvernig dóm myndi kerfið okkar fá ef það væri rýnt með gleraugum fag- og viðskiptafræði?“ spurði Júlía ráðstefnugesti.
„Fyrir austan þá lítum við á félagslegan vanda, þar á meðal heilbrigðisvanda, sem ákveðinn bing sem við erum öll að vinna á hvert í sínu horni og stofnun. Með því að leggja saman krafta okkar, sérfræðiþekkingu, úrræði og fjármuni náum við betri og skilvirkari árangri í því að vinna á bingnum og minnka félagslegan vanda í okkar samfélagi,“ segir Júlía.
Hún segir að ef horft er á þetta út frá rekstrarhagfræðinni náist betri afköst, betri þjónusta og við aukum velferð í samfélagi. Um leið og við minnkum álag á hverja stofnun og sérfræðing.
„Samlegðaráhrif og skilvirkni skapar betri nýtingu fjármuna, tíma og úrræða heldur en ef við héldum áfram að vinna sér í hverju horni með takmarkaðri samvinnu. Lykilatriðið er snemmtæk íhlutun og forvarnir. Að takast á við vandann áður en hann verður krónískur og hefur meiri áhrif á velferð og þroska barna og fjölskyldna,“ segir Júlía.
„Það er svo dýrt að vera alltaf að slökkva elda þegar við getum ráðist á glóðina og komið í veg fyrir stórbruna. Okkar sannfæring er sú að á endanum sparist fjármunir hjá öllum stofnunum með því að leggja saman krafta okkar með markvissu samstarfi.
Við þurfum að brjóta niður veggi og múra stofnana og miða úrræði út frá aukinni samvinnu. Við þurfum að hugsa kerfin okkar upp á nýtt með gæðastýringu, hagkvæmni og bestun þjónustunnar að leiðarljósi,“ segir Júlía og hvetur til þess að starfsmenn stofnana hætti að hugsa einvörðungu út frá fjárhagsáætlunum eigin stofnana eða með því að vísa verkefnum frá sér til annarra.
„Við minnkum öll vinnuálag okkar með því að ráðast markvisst og samtaka á binginn og allan þann félagslega vanda sem við eigum við að etja í okkar samfélagi,“ segir Júlía.