Félagsauður dregur úr einkennum kvíða og þunglyndis meðal unglinga en minni félagsauður útskýrir ekki tengsl tekjuójafnaðar við andlega heilsu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum doktorsverkefnis Arndísar Vilhjálmsdóttur.
Félagsauður dregur úr einkennum kvíða og þunglyndis meðal unglinga en minni félagsauður útskýrir ekki tengsl tekjuójafnaðar við andlega heilsu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum doktorsverkefnis Arndísar Vilhjálmsdóttur.
Félagsauður dregur úr einkennum kvíða og þunglyndis meðal unglinga en minni félagsauður útskýrir ekki tengsl tekjuójafnaðar við andlega heilsu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum doktorsverkefnis Arndísar Vilhjálmsdóttur.
Niðurstöður sýndu einnig að þótt tekjuójöfnuður hefði tengsl við kvíða allra unglinga, án tillits til efnahagslegrar stöðu þeirra, var sem tekjuójöfnuður hefði einungis tengsl við þunglyndi unglinga frá fátækari heimilum. Að lokum benda niðurstöður til þess að eftir því sem dregur úr tekjuójöfnuði innan hverfa yfir tíma, dragi úr einkennum kvíða meðal unglinga um allt að 37%.
Meginmarkmið rannsóknarverkefnisins „Áhrif tekjuójafnaðar og félagsauðs á andlega heilsu unglinga“ var að kanna tengsl tekjuójafnaðar og félagsauðs innan íslenskra skólahverfa við kvíða- og þunglyndiseinkenni unglinga yfir tímabilið 2006 til 2016.
Arndís varði doktorsritgerð sína við sálfræðideild Háskóla Íslands nýverið en í rannsókn Arndísar er skoðað hvort tekjuójöfnuður innan hverfa, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu, hefði tengsl við kvíða og þunglyndiseinkenni meðal unglinga. Rannsóknin er meðal þeirra fyrstu í heiminum þar sem skoðuð eru áhrif tekjuójafnaðar og búsetu á andlega heilsu ungs fólks eftir hverfum.
Að sögn Arndísar byggir hún rannsókn sína á gögnum frá Rannsóknum og greiningu sem Inga Dóra Sigfúsdóttir heldur utan um, annars vegar, og hins vegar gögnum frá Hagstofu Íslands. Ekki er um persónugögn að ræða heldur eru öll gögnin ópersónurekjanleg.
„Ég er ekki að skoða fátækt og ég er ekki að skoða hvort hverfi eru rík eða fátæk heldur sjálfa tekjudreifinguna innan íbúðarhverfa. Það er að segja sjálft bilið milli þeirra sem eru vel stæðir og þeirra sem eru ekki svo vel stæðir. Mín rannsókn beinir sjónum sínum að því hvort þetta bil í sjálfu sér hafi áhrif á líðan ungmenna á aldrinum 15 og 16 ára,“ segir Arndís.
Rannsóknin nær yfir tímabilið 2006-2016 og að sögn Arndísar voru það einkum gögn frá fimm árum sem hún skoðaði sérstaklega; 2006, 2009, 2012, 2014 og 2016. Bæði ein og sér og eins hvort breytingar á milli tímabila myndu skila sér í einhverjum breytingum í kvíða og þunglyndi þessa árganga.
Mikið umrót hefur átt sér stað á þessu tímabili og segir Arndís að í rannsókninni noti hún gríðarlegar sviptingar í tekjuójöfnuði á tímabilinu sem inngrip til þess að skoða hvort þær hafa áhrif á líðan unglinga á þessum tíma. Þetta gerir hún með því að reyna að að einangra áhrif tekjuójafnaðar frá annarri þróun sem átti sér stað í samfélaginu á þessum tíma.
„Þetta er auðvitað ekki tilraun heldur svokölluð „náttúruleg tilraun“ sem er í eðli sínu fylgnirannsókn, en hún gefur ágæta mynd af samfélaginu,“ segir Arndís og bætir við að hún sé með rannsókn sinni að prófa faraldsfræðilega hugmynd; „Kenninguna um áhrif tekjuójafnaðar“ sem Richard Wilkinson og Kate Pickett, höfundar bókarinnar The Spirit Level frá árinu 2009, komu fram með. Niðurstaða þeirrar bókar er að þjóðfélögum vegnaði best þar sem félagslegt jafnræði er mest.
„Ég ákvað að prófa, með tölfræðilegum gögnum, hvort það sem þau setja fram í þessari bók gangi upp í samfélagi sem séð hefur miklar breytingar í tekjuójöfnuði. Það sem er spennandi við hugmynd þeirra er að hún er mjög þverfagleg og rannsóknin byggist á því að taka tillit til ólíkra sviða félagsvísinda og reyna að samþætta þessar hugmyndir innan einnar rannsóknar,“ segir Arndís.
„Þetta er flókin mynd en segja má að þegar tekjujöfnuður var mikill eins og 2006 þá fann ég þessi tengsl – það er tengsl milli mikils tekjuójafnaðar og aukinna kvíðaeinkenna. Allir unglingar virtust kvíðnari árið 2006 þegar tekjuójöfnuður var mikill á Íslandi heldur en þegar jöfnuðurinn var meiri. Síðan fann ég tengsl milli tekjuójafnaðar og þunglyndiseinkenna þetta sama ár meðal þeirra unglinga sem komu frá heimilum sem voru ekki fjárhagslega vel stæð,“ segir Arndís.
Þetta þýðir, að sögn Arndísar, að tekjuójöfnuður virðist auka kvíða meðal allra unglinga og mikill tekjuójöfnuður virðist auka þunglyndiseinkenni hjá þeim unglingum sem eru verst settir.
„Ungmenni sem koma frá fátækari heimilum eru líklegri til þess að vera með einkenni þunglyndis heldur en önnur ungmenni. Þetta virðist hafa mest áhrif á ungmenni sem búa í hverfum þar tekjuójöfnuður er sem mestur,“ segir hún.
Eftir því sem dró úr tekjuójöfnuði innan hverfisins 2006-2016, sem er tímabilið sem er til skoðunar, þá dregur líka úr kvíðaeinkennum, segir Arndís.
„Þegar tekjubilið minnkaði eftir hrun dró úr tekjuójöfnuði og þá leið unglingunum okkar betur,“ segir Arndís en þetta eru bæði áhugaverðar og um leið nýjar niðurstöður á alþjóðavísu. Því það hefur aldrei verið sýnt fram á það áður að þegar tekjudreifing minnkar þá hafi það góð áhrif á andlega líðan, að sögn Arndísar.
Hún segir að hafa verði í huga að það sem spáir best um kvíða og þunglyndi eru persónuleg áföll og fjölskyldusaga viðkomandi. „Tekjuójöfnuður hefur mun minna um það að segja heldur þessi atriði en áherslan í minni rannsókn er ekki á hagfélagslegri stöðu viðkomandi eða persónuleg áföll heldur tekjuskiptingu innan hverfa á ákveðnu tímabili.“
Samkvæmt Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands mældist tekjuójöfnuður minnstur árið 2014 frá upphafi samræmdra mælinga rannsóknarinnar. Þá gerðist það hins vegar að samband tekjuójafnaðar og þunglyndis snerist við. Krakkar sem bjuggu í hverfum þar sem var meiri tekjuójöfnuður greindu frá færri þunglyndiseinkennum.
„Þarna flækist myndin og er eins og eitthvað hafi gerst. Á þeim tíma er tekjuójöfnuður mjög lítill ólíkt því sem við sáum árið 2006. Tekjuójöfnuður er mælitæki á stéttskiptingu/lagskiptingu í þjóðfélaginu. Ef við viljum hafa einhvern félagslegan hreyfanleika þá viljum við hafa einhverja lagskiptingu.
Við viljum geta færst upp og niður í þjóðfélagsstiganum og það sem gæti hafa gerst árið 2014, en þá er uppgangur í þjóðfélaginu og efnahagur fólks á uppleið, er að þá hugsi fólk sem svo að við höfum tækifæri til þess að ná markmiðum okkar. Bjartsýni okkar vex,“ segir Arndís.
Hún segir að algildur tekjuójöfnuður sé ekki til og ójöfnuður sé ekki alltaf slæmur, þar skipti samhengið máli. Hversu mikill hann er og aðgengi að tækifærum.
Arndís nefnir þar sem dæmi hvernig við náum markmiðum okkar. Við séum stöðugt undir pressu um að ná efnislegum markmiðum. Þar sem ójöfnuður er meiri þá sé meiri tilhneiging til að flokka í stéttir, að lagskipta þjóðfélaginu.
„Þegar lagskiptingin er minni þá minnkar álagið á að okkur. Þar á ég við að okkur finnist við þurfum ekki jafnmikið að bæta og auka stöðu okkar í þjóðfélaginu. Samheldni í hverfi skiptir einnig máli og hún dregur úr kvíðaeinkennum en stendur ekki endilega í samhengi við tekjujöfnuð,“ segir Arndís en að hennar sögn er frekar mikil samheldni í íslenskum hverfum.
„Þú samsamar þig með nágrönnum þínum og sú tilfinning að geta farið til nágranna og fengið aðstoð skiptir máli,“ segir Arndís.
Með því sé stuðlað að góðu samfélagi og það út af fyrir sig er mjög jákvætt. Félagsauður getur þannig þjónað hlutverki bjargráða sem hægt er að grípa til þegar í harðbakkan slær
Þegar Arndís er spurð um hvað hafi komið henni mest á óvart við vinnslu rannsóknarinnar segir hún það hafa verið snúningurinn árið 2014.
„Hann gefur tilefni til þess að nálgast allar gildismatshlaðnar rannsóknir af mikilli varúð því það er mjög auðvelt að fara að trúa á einhverja kenningu og eiginlega ekki taka mark á því þegar gögnin sýna okkur annað,“ segir Arndís.
Í ljósi aukinnar umræðu um versnandi geðheilsu unglinga, gæti handhöfum framkvæmdavaldsins reynst erfitt að líta fram hjá niðurstöðum þessa verkefnis þegar þeir taka stefnumiðaðar ákvarðanir um skipulag velferðar í íslensku samfélagi.
Arndís segir fullt tilefni til þess að gera það og niðurstaðan á að geta skilað sér inn í stefnumótun um það hvernig við hönnum skattkerfið og hvernig er fjárfesta í innviðum. „Þetta hefur áhrif á svo miklu fleiri hluti en geðheilbrigði. Þetta gefur tilefni til þess að hugsa sig um og staldra við líkt og erlendar rannsóknir á stærri svæðum styðja. Í þeim kemur fram að mikill tekjuójöfnuður eykur dánartíðni og tekjuójöfnuður hefur ekki bara áhrif á geðheilbrigði heldur allt heilbrigði,“ segir Arndís.
Hún segir að það sé hins vegar ekki tilgangurinn með doktorsverkefninu að nota það í pólitískum tilgangi en hægt sé að nýta niðurstöður þess í slíkri vinnu.
Arndís segir að undir lok rannsóknartímans þá virðist sem kvíða- og þunglyndiseinkenni séu aðeins að aukast að nýju og aðrar rannsóknir benda í sömu átt en um leið að ákveðin pólarísering sé að eiga sér stað.
„Það er eins og sumum unglingum líði miklu betur, en öðrum líði miklu verr. Svolítið skrýtið og vitum ekki alveg hvaða hópar þetta eru. Mín gögn benda til að stelpur séu kvíðnari en strákar. Hvers vegna líður stúlkum verr en strákum?
Stjórnsýslan þarf að ákveða hvort tryggja þarf öllum jöfn tækifæri og hvernig eigi að gera það. Ekki mitt að segja til um það en þetta er einn af þeim samfélagslegu eiginleikum sem geta haft áhrif á geðheilsu. Ef okkur er annt um geðheilsu þá má hugsa um þetta,“ segir Arndís.
Arndís Vilhjálmsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1980, en uppalin og búsett á Seltjarnarnesi. Arndís lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og M.Sc.-prófi í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2010. Arndís hefur kennt um árabil, bæði við viðskiptafræðideild og sálfræðideild Háskóla Íslands. Arndís hefur fjölbreytta reynslu af rannsóknum og hagnýtingu þeirra. Snemma á ferli hennar sneri rannsóknaráhugi hennar að félagssálfræðilegum skýringum á atferli í vinnutengdu samhengi samfara starfi hennar sem sérfræðingur í mannauðsstjórnun. Seinna snerist þó hugur hennar til rannsókna á félagssálfræðilegum ferlum í stærri félagseiningum, sérstaklega því hvernig hagfélagsleg lagskipting í samfélögum mótar heilsu fólks. Doktorsrannsókn hennar var unnin undir leiðsögn Rögnu Benediktu Garðarsdóttur, dósents við sálfræðideild Háskóla Íslands, og Jóns Gunnars Bernburg, prófessors við félags- og mannvísindadeild HÍ.
Í dag starfar Arndís sem sérfræðingur í úrtaksrannsóknum á vinnumarkaði hjá Hagstofu Íslands og sem aðjúnkt við sálfræðideild Háskóla Íslands, segir á vef Háskóla Ísland í tilefni af doktorsvörn Arndísar frá skólanum í lok maí.