Bjargey Ingólfsdóttir er gift þriggja barna móðir úr Kópavogi, eins og hún lýsir sjálfri sér á bloggsíðunni sinni, BjargeyogCo.com. Hún skrifar hér mikilvægan pistil um duglegar mömmur en líka útkeyrðar mömmur. Hér talar kona af reynslu:
_____________________________________________
Bjargey Ingólfsdóttir er gift þriggja barna móðir úr Kópavogi, eins og hún lýsir sjálfri sér á bloggsíðunni sinni, BjargeyogCo.com. Hún skrifar hér mikilvægan pistil um duglegar mömmur en líka útkeyrðar mömmur. Hér talar kona af reynslu:
_____________________________________________
Bjargey Ingólfsdóttir er gift þriggja barna móðir úr Kópavogi, eins og hún lýsir sjálfri sér á bloggsíðunni sinni, BjargeyogCo.com. Hún skrifar hér mikilvægan pistil um duglegar mömmur en líka útkeyrðar mömmur. Hér talar kona af reynslu:
_____________________________________________
Já ég hef lengi ætlað að skrifa þennan pistil, en ég hef bara ekki haft tíma þar sem ég hef verið að smyrja nesti, skutla á æfingar, kenna ensku, skrifa ritgerðir, hlusta á heimalestur og kvitta, mæta á fótboltamót á sunnudagsmorgnum, elda hollan mat, þvo þvott, þrífa, fara í búðina, fara aftur í búðina (hvenær verður búið að finna upp ísskáp sem fyllir á sig sjálfur?) undirbúa og halda fermingarveislu, skipuleggja nokkur barnaafmæli, fara með afkvæmin í klippingu, til tannlæknis, í sjónmælingu, sjúkraþjálfun. Horfa á sundæfingar, körfuboltaæfingar, mæta á opið hús í skólanum, baka fyrir bekkjarkvöld, taka til í geymslunni og flokka leikföng, kaupa nýja fótboltaskó því gömlu fundust ekki, leita að nýju fótboltaskónum, finna þá gömlu en þá voru þeir orðnir of litlir, leita aftur að nýju fótboltaskónum og skutla þeim í íþróttahúsið því afkvæmið er mætt á æfingu en getur ekki verið með nema fá takkaskóna núna og þeir gleymdust heima.
Skipuleggja sumarið, frí…ferðalög, sumarnámskeið, vinnuskólinn fyrir unglinginn, bjóða kannski vinum í grill í sumar (á ég ennþá vini? man nefnilega ekki hvenær ég hitti þá síðast). Já og svo hef ég verið að vinna líka, bara svona þegar ég hef tíma – þið skiljið, borga reikningana og allt það.
Hljómar kunnuglega?
Og ég er ekki einu sinni með lítil börn lengur…einu sinni var lífið töluvert flóknara með ungabarn á handleggnum að græja og gera allt ofantalið og mæta á stumpastrætónum með allt liðið á fótboltamót, á bekkjarkvöld eða fara í búðina.
Við mömmur erum nefnilega ofurhetjur í dulargervi, við reynum að láta ofurkraftana ekki sjást of mikið því þá færu svo margir að biðja um ráð hvernig við förum að þessu öllu og þá gæti leyndarmálið verið afhjúpað. Við felum okkur á bakvið víðar hettupeysur og inniskó en stundum tökum við að okkur verkefni utan heimilisins og förum þá í annan búning sem er mismunandi eftir ofurhæfileikum, sumar fara í dragt og háa hæla, aðrar í græna sloppa og hvíta klossa, sumar í lögreglubúning, íþróttaföt eða vinnubuxur með allskonar hólfum fyrir skrúfur og nagla. Sloppar og handklæði á hausnum er líka vinsæll búningur en stundum er bara ekki tími til að klæða sig í almennileg föt og líka stundum þegar maður er komin í almennilegu fötin þá man maður að það eru ennþá leifar af tómatsósunni síðan í gær í bolnum, súkkulaði í buxunum sem maður settist á í sófanum….eða hreinlega bara of miklar krumpur í fötunum því stundum sofna ofurhetjurnar bara í fötunum þegar þær svæfa afkvæmin á kvöldin.
En hvert er ég að fara með þessum skrifum?
Jú mér hefur nefnilega verið umhugað um mömmur og þeirra heilsu í langan tíma. Kannski af því ég er mamma sjálf með þrjú börn, hund og heimili og eiginmann sem vinnur langa vinnudaga og á mjög auðvelt með að setja mig í spor annarra mæðra sem eru að reyna að halda öllum boltum á lofti svo allir í fjölskyldunni fái að blómstra.
Þessi tvö gera alla daga betri. Kannski af því ég þekki margar þreyttar mömmur og hef innsýn í þeirra líf og hef líka verið svo lánsöm að vinna náið með mömmum í mínu starfi sem meðferðaraðili í nokkur ár.
Kannski af því ég heyri reglulega af því í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að fleiri og fleiri konur eru að veikjast vegna streitu. Brenna út.
Mynd til skýringar: Hamingjusöm börn og þreytt mamma. En í fullri hreinskilni þá finnst mér ég vera heppnasta kona í heimi að hafa þessi þrjú í mínu lífi. Það er vinna að halda heimili. Alveg mjög mikil vinna. Það að halda heimili er í mínum huga ekki bara það að elda, þrífa og þvo þvott heldur líka það gríðarlega mikilvæga hlutverk að halda utan um þá sem þar búa.
Sjá til þess að börnin séu í tómstundum, virkja þau félagslega, sjá til þess að þau hreyfi sig, borði hollan mat, kenna þeim á lífið, vera með þeim og eiga með þeim gæðastundir. Það þarf einhver að panta tíma hjá læknum og sérfræðingum, fara með þau til tannlæknis og í klippingu og ekki gleyma að skutla þeim í öll afmælin, græja afmælisgjafir og búninga, því það er ekki bara öskudagur lengur eins og þegar ég var lítil, það er líka Halloween og svo öll þema og búningapartýin. Bleikur dagur, rauður dagur, jólapeysudagur, sparifatadagur….er ég að gleyma einhverju? Ekki misskilja mig, ég hef virkilega gaman að þessu öllu en það tekur tíma að græja þetta allt og muna eftir öllum marglitu dögunum. Hver gerir það heima hjá mér?
Enginn nema ég – mamman og ég hef sannanir fyrir því að ég er ekki sú eina!
Halloween var snilld. Ég leyfði krökkunum að bjóða öllum vinum sínum heim í partý. Fimm klukkutímum síðar eftir að 46 börn höfðu verið með í gleðinni tók við 2 daga vinna að þrífa húsið. Hugsa að ég muni ekki halda fleiri Halloween partý. En krakkarnir skemmtu sér mjög vel!
Þátttaka okkar foreldra í lífi, leik og starfi barnanna okkar er gríðarlega mikilvæg og ég myndi hvergi annarsstaðar vilja vera þegar ég horfi á fótboltaleik hjá dótturinni kl. 7:30 á sunnudagsmorgni eftir að hafa þurft að moka bílinn út úr snjóskafli (jú sennilega hefði ég valið að sofa út en nei ég meina það að ég vil horfa á leikinn). Ég myndi hvergi annarsstaðar vilja vera þegar ég horfi á leikrit í skólanum þar sem börnin eru búin að búa til leikmyndina og semja handritið, ég vil vera boðin á leikskólann og fá morgunkaffi og sýningu á listaverkunum, ég vil mæta á vorhátíðina, í keppnisferðirnar, á kórtónleikana, bekkjarkvöldin, í lokahófin og vera þessi mikilvægi þátttakandi í lífi barnanna minna.
Ég vil vera hér og nú fyrir þau, vera mamman sem tekur þátt í þeirra lífi og styður þau í öllu sem þau taka sér fyrir hendur. Ég hugsa að flestar mömmur vilji það líka. En þá komum við að kjarna málsins. Mömmur eru vissulega ofurhetjur með ofurkrafta en stundum þá hreinlega klárast orkan.
Það er ekkert einfalt að sinna öllum þessum verkefnum á sama tíma. Halda utan um fjölskylduna, afla tekna og klífa metorðastigann, sjá um heimilið og innkaupin, þrifin og þvottinn og já bara allt!
Það sem gerist á endanum ef við ætlum okkur að gera þetta allt sjálfar er að eitthvað lætur undan. Yfirleitt er það heilsan sem byrjar að gefa sig, mismunandi eftir einstaklingum hvað gefur sig fyrst, hjá sumum er það geðheilsan hjá öðrum er það líkaminn. Verkir í stoðkerfi, vöðvabólga og höfuðverkur. Því sorglega staðreyndin er sú að við erum að deyja úr streitu. Ég er ekki að reyna að vera dramatísk, en staðan er þannig að virkilega stór hluti mæðra í okkar samfélagi tekur geðlyf og verkjalyf daglega bara til að komast í gegnum daginn. Einn dag í einu, reyna að þrauka. Allt of margar konur detta út af vinnumarkaði vegna þessara kvilla sem í mjög mörgum tilfellum má rekja beint til streitu. Við höfum bara allt of mikið að gera. Allt of mörg verkefni sem þarf að klára í dag og listinn er endalaus. Hraðinn er orðinn svo mikill. Allt þarf að gerast núna, helst í gær.
En líkaminn segir á endanum stopp. Og hvað er hægt að gera þegar þú þjáist af kvíða, þunglyndi, síþreytu og verkjum. Nefnilega bara rosalega lítið. Það er dauðans alvara að lenda í kulnun, brenna út. Að lenda á botninum er ekkert grín. Bara að þurfa að fara á fætur getur reynst of erfitt. Tilfinningalega getur manneskjan orðið dofin fyrir öllu, vera komin í það ástand að finna hvorki fyrir gleði né sorg.
Í því ástandi er engin mamma að fara elda hollan mat, sauma búninga, horfa á fótboltaleiki eða mæta á bekkjarkvöld og ef hún gerir það er hún líklega ekki á staðnum í huganum. Hver dagur verður að stóru verkefni, bara það að lifa af. Geta tekist á við matmálstímann, hjálpa til við heimanámið og sofna svo við það að svæfa yngsta barnið. Vakna um miðja nótt og muna að það átti eftir að fara í búðina til að græja nestið, fatta að þú gleymdir afmæli fyrr um daginn og geta ekki sofið það sem eftir er nætur því áhyggjurnar og kvíðinn halda fyrir þér vöku.
En af hverju er ég að skrifa um þetta? Er þetta ekki bara væl og aumingjaskapur, er það virkilega svona erfitt að vera í vinnu og sjá um börn og heimili? Lifa lífinu? Vera með, taka þátt í öllu og hafa gaman?
Ég er að skrifa um þetta því ég er þessi mamma. Eignaðist þrjú börn á fimm árum, kláraði háskólanám með tvö lítil börn á kantinum, vakti á nóttunni til að læra fyrir próf, fór svo í fullt starf, ábyrgðarstarf á mínum vinnustað, stundaði mastersnám samhliða í fjarnámi, með eiginmann sem vann langa daga og ferðaðist mikið vegna vinnu. Ég sá um heimilið og tók á mig alla ábyrgðina sem því fylgir. Skiljanlega spyrja einhverjir hvort að eiginmaðurinn hafi ekki tekið þátt í heimilishaldinu eða uppeldinu og jú hann gerði það svo sannarlega, en hann var líka mikið í burtu vegna vinnu. Oft komu tímabil þar sem ég sá hann kannski í tvo tíma á dag. Þetta er bara svolítið íslenskur veruleiki. Ef þú eignast mörg börn á stuttum tíma þarf annar aðilinn að vinna mjög mikið til að láta dæmið ganga upp. Við búum því miður ekki í mjög fjölskylduvænu samfélagi.
Ég tók mér aldrei tíma fyrir sjálfa mig. Í hreinskilni sagt fannst mér þetta ekkert mál. Vissulega var ég oft þreytt og jú ég var með verki og kvíða. En ofurkonan ég lét það ekkert á mig fá. Fyrr en einn dag þegar líkaminn sagði stopp. Hingað og ekki lengra, ég átti ekkert eftir. Algjörlega búin á því á líkama og sál.
Mjög lýsandi mynd fyrir fyrstu þrjú árin í lífi yngri dóttur minnar. Við í myndatöku sem gekk svona líka glimrandi vel þar sem hún var bæði með hita og eyrnabólgu. Við vorum í þriðju tilraun hjá ljósmyndaranum þar sem ég hafði þurft að afpanta fyrri tvö skiptin vegna veikinda.
Ég gleymi því aldrei þegar ég sat á móti lækninum mínum fyrir nokkrum árum og tók við umsókn um endurhæfingu sem hún hafði fyllt út. Upphafið hljómaði svona: Ung kona, þunglynd og í ofþyngd þarf á alhliða endurhæfingu að halda. Mjög verkjuð.
Ég starði á blaðið og endurtók; ung þunglynd kona í ofþyngd? Jú vissulega var ég of þung en ég hefði sjálf lýst sjálfri mér svona:
Ung þriggja barna móðir hefur vegna langvarandi álags og svefnleysis klárað alla orku og þarf hjálp.
Ég var alls ekkert þunglynd. Vissulega var ég með einhver einkenni þunglyndis en ég var bara búin á því. Búin að eyða allri orkunni í að hugsa um börnin mín og heimilið. Hafði nýlega fengið bréf sent heim með afsláttarkorti fyrir börnin. Með því kom útprentað yfirlit yfir læknisheimsóknir. Á einum mánuði, 30 dögum hafði ég farið 22 sinnum til barnalæknis með eitthvað af börnunum og þar af voru tvær aðgerðir. Hvað ætli ég hafi sofið marga klukkutíma á þessum mánuði? Með eitt ungabarn, 3 ára og 5 ára.
Það tekur ekki langan tíma að klára orkuna í þessu ástandi.
Það tók mig mörg ár að ná heilsu aftur. Ekki daga eða mánuði, nokkur ár. Ég þurfti að byggja sjálfa mig upp frá grunni.
Ég þurfti að ná heilsu aftur og læra að lifa lífinu uppá nýtt. Læra það í eitt skipti fyrir öll að ég þarf að setja súrefnisgrímuna fyrst á mig til þess að geta sett súrefnisgrímuna á alla hina sem ég er að hugsa um. Ég þarf líka að vera með nægt súrefni til þess að kenna þeim að setja á sig grímuna sjálf.
Ég þurfti að hætta að taka alla ábyrgðina ein. Útdeila verkefnum á heimilinu, læra að það er allt í lagi þó ég nái ekki að klára öll verkefnin á listanum í dag, tölvupóstar geta beðið (það er í alvöru hægt að sleppa því að opna þá), ég þarf ekki að elda alla daga, heimilið má vera í óreiðu, börnin mín þurfa ekki að vera alltaf í nýjum og nýstraujuðum fötum…..lífið þarf ekki að vera fullkomið.
Ég fór í frí um daginn. Ein í heila viku til Spánar. Það var yndislegt og ég kom endurnærð heim.
Að lokum lærði ég það mikilvægasta af öllu. Að elska sjálfa mig alveg eins og ég er. Vera til staðar fyrir sjálfa mig, hrósa mér fyrir vel unnin störf og hætta að draga sjálfa mig niður fyrir að vera ekki nógu góð í hinu eða þessu. Að geta ekki verið þessi ofurkona sem ég ætlaði svo innilega að vera.
Og það er það sem ég vil svo heitt og innilega segja öllum mömmum sem eru í sömu sporum og ég var. Vertu þú sjálf og slakaðu á! Verkefnin mega bíða, þvotturinn má bíða, það má taka sér tíma fyrir sjálfa sig.
Að rækta sjálfa sig er nefnilega alveg gríðarlega mikilvægt fyrir allar mömmur. Við erum allar ólíkar og þurfum kannski ólíka hluti, en að gefa sér tíma fyrir sjálfan sig og sína heilsu er ekki sjálfselska. Það er ekki eigingirni heldur. Það að rækta sjálfan sig gerir mann að betri manneskju, betri mömmu sem er í góðu andlegu og líkamlegu formi til að takast á við áskoranir daglegs lífs, uppeldi, samverustundir og þátttöku í lífi barnanna sinna.
Mömmur eru snillingar, þær mega bara ekki gleyma sjálfri sér!