Eitrað að dvelja í sjálfsvorkunn

Eitrað að dvelja í sjálfsvorkunn

„Ég hef frá fyrsta bataskrefi átt mjög erfitt með að væla yfir minni stöðu og tók meðvitaða ákvörðun að haga mér ekki sem fórnarlamb og kenna öðrum um. Það hefði verið auðvelt að rökstyðja óréttlætið með því að ég veikist af complex áfallastreituröskun og á tveimur árum fór lífið í handaskol og ég varð ósjálfbjarga vegna veikinda,“ seg­ir Ein­ar Áskels­son í sín­um nýj­asta pistli: 

Eitrað að dvelja í sjálfsvorkunn

Hugleiðingar Einars Áskelssonar | 3. júlí 2018

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Ég hef frá fyrsta bataskrefi átt mjög erfitt með að væla yfir minni stöðu og tók meðvitaða ákvörðun að haga mér ekki sem fórnarlamb og kenna öðrum um. Það hefði verið auðvelt að rökstyðja óréttlætið með því að ég veikist af complex áfallastreituröskun og á tveimur árum fór lífið í handaskol og ég varð ósjálfbjarga vegna veikinda,“ seg­ir Ein­ar Áskels­son í sín­um nýj­asta pistli: 

„Ég hef frá fyrsta bataskrefi átt mjög erfitt með að væla yfir minni stöðu og tók meðvitaða ákvörðun að haga mér ekki sem fórnarlamb og kenna öðrum um. Það hefði verið auðvelt að rökstyðja óréttlætið með því að ég veikist af complex áfallastreituröskun og á tveimur árum fór lífið í handaskol og ég varð ósjálfbjarga vegna veikinda,“ seg­ir Ein­ar Áskels­son í sín­um nýj­asta pistli: 

Það er varla til betri rökstuðningur að ganga varnarlaus í gegnum hræðilegan sársauka í æsku og mótast af daglegum ótta og kvíða. Þurfa síðan mörgum árum seinna að glíma við afleiðingarnar af því sem mér var gert sem barn! Ég gerði ekkert til að verðskulda þetta. Nema vera til. Ég fæddist heilbrigður en varð fárveikur af hegðun annarra. Já ef einhvern tímann er tilefni til að verða bálreiður, kenna öðrum um og haga sér sem fórnarlamb þá er það núna.

Frá fyrstu einkennum sumarið 2013 reyndi ég að standa mína plikt í erfiðri vinnu og í uppeldi barnanna og á heimilinu. Nei, fer ekki kvarta yfir „engu“. Ég hafði aldrei hugmynd um hvað eða hvort eitthvað væri að. Eftir á er það bilun en hafði engar skýringar á hvers vegna ég réð ekki við stanslaus ofsakvíða- og panikköst og endurupplifði hræðilegan sársauka úr æsku í hverju kasti. Ég þessi harði strákur barðist í 2 ár og stóð pliktina í lífi og starfi þar til ég komst ekki lengur út úr húsi. Örmagna og ósjálfbjarga.

Karlmennskuímyndin að vera harður og bíta bara á jaxlinn lagði mig nærri að velli. Ég gat ekki og eiginlega kunni ekki að beygja af. Vildi ekki láta það spyrjast út að ég væri að væla yfir „smáatriðum“ eða einhverju sem ég gat ekki útskýrt!

Vissi ekki hvað væri að

Mannshugurinn er skrýtinn. Auðvitað botna ég ekkert í af hverju ég kveikti ekki á peru og stoppaði. Sorry það er eitthvað að mér. Veit bara ekki hvað. Það var stóra málið. Vissi ekki hvað það gæti verið af því ég hafði ekki skýringu. Skýringu á svefnlausum nóttum vegna ofsakvíðakasta, orðinn sjúklega meðvirkur og óttinn við höfnun frá makanum var meira en sjúkleg. Ég var strengjabrúða. Ég leyfði það. Ég veit ástæðuna í dag. Þegar ég veiktist blossaði upp tilfinningalífið frá því ég var barn. Tilfinningalega varð ég barn í líkama fullorðins hörkunagla og skildi ekki né tók eftir hvað væri í gangi. Er normalt að fela hræðilega sársaukafull ofsakvíðaköst fyrir sambýliskonunni af því ég óttaðist að hún myndi hafna mér? Slíta sambandinu. Nei, en minn raunveruleiki þá. Sami raunveruleiki og er ég var barn.

Önnur leikmynd og nýjar persónur og leikendur. Nema aðalleikarinn var sá sami. Hvernig gat ég áttað mig á þessu? Hvort er verra að liggja vanmáttugur, útbrunninn á líkama og sál, allt veraldlegt farið í vaskinn og hafa ekki getu né þrek að komast út úr húsi en verið bláedrú allan tímann, í staðinn fyrir að vakna svona eftir 2 ára fyllerí?

Stundum hef ég hugsað að eftir fylleríið gæti maður alltaf sjálfum sér um kennt. Morgunljóst. Gat það ekki. Jú ég kenndi mér um en hvernig þetta gat gerst var ráðgáta. Það eyðileggur enginn þokkalega heilbrigður maður með sæmilega vitsmuni lífið sitt visvítandi. Ekki setti ég mér það markmið 2 árum fyrr að eftir dágott líf skyldi ég klúðra öllu og vera nær dauða en lífi eftir 2 ár! Hver gerir það? En hafði engin svör.

Kaldhæðnislegt að í mínum höfnunarótta skyldi sambýliskonan hafna mér að lokum. Nokkrum mánuðum áður en komið var að endalokum. Ástæðan var að vegna ótta við höfnun þorði ég ekki að segja hvað ég hafði ekki gert af mér í fjármálum. Ég var óheiðarlegur en gat ekki útskýrt hvers vegna! Þar til síðar. Ætla ekki að segja þá sögu nú. Ég hef unnið vel úr þessu atviki og ástæðan er að ég upplifði ofsakvíða- og panikkast í banka eftir að hafa uppgötvað að ég gæti ekki greitt lokagreiðslu til seljanda fasteignar okkar upp á kr. 1,4 millj. af því þjónustufulltrúi gleymdi að greiða það fyrir áramót. Var að skipta háum Visa-reikningi sem greiddist sjálfkrafa. Í stað þess að leiðrétta. Fór ég í panik og gekk út án þess að gera neitt. Þetta vatt upp á sig og varð að lokum forsenda sambúðarslita sem var fyrsta stóra áfallið af mörgum frá mars til september þegar ég ligg í mínum rústum eins og ég lýsti fyrr. Hvað í andskotanum hafði gerst?

Mín staða snemma hausts 2015 var að ég mátti þakka að geta tekið herbergi á leigu úti í bæ. Fjármálin komin í rugl og vanskil og ég óhæfur að gera neitt. Öll prinsippin í lífinu horfin. Alltaf lifað í reglu, ekki síst í fjármálum þó að ég hafi aldrei verið beint sparibaukur. Sem sé. Átti ekkert nema fárveikan mig. Einhver föt og börnin mín jú. Hvernig komst í þessa stöðu? Ég þráspurði mig.

Sálfræðingurinn kom með útskýringu

Krónísk áfallastreituröskun. Sagði sálfræðingurinn. Ert gjörsamlega „burnt out“ (kulnun). Þú átt ekki að þola þetta. Þetta fannst mér ódýr skýring. En fljótt áttaði ég mig á með hans hjálp hvernig atburðarrásin frá fyrstu einkennum hafði lúmskt gert mig veikan og dæmið úr bankanum var klassískt einkenni ofsakvíða sem einkenni krónískrar afallastreituröskunnar. Ég er þannig gerður að ég varð að vita hvað væri að mér og aflaði mér upplýsinga erlendis frá. Last fræðigreinar, hlustaði á viðtöl við fagfólk og las reynslusögur. Þessu fylgdi mikill léttir því ég tengdi við þetta. Hér á Íslandi var varla stafkrókur um complex áfallastreituröskun.

Ég var svo illa farinn og berskjaldaður að ég gat ekki falið veikindin. Ég upplifði enga skömm. Feginn að vera á lífi. Ákvað að vera opinn um mín veikindi. Ekki síst eftir að ég fékk fallegar kveðjur frá nokkur hundruð jafnöldrum mínum sem voru að fagna á árgangsmóti. Þessu gleymi ég aldrei og skipti mig miklu í upphafsskrefum batans.

Ákvað líka að líta ekki á mig sem fórnarlamb né vera í sjálfsvorkunn. Ekki nóg með að hafa upplifað áföllin í æsku og burðast með sársaukapokann allt mitt líf heldur brýst sársaukinn fram og eyðileggur lífið mitt. Réttlátt? Sanngjarnt? Hvað finnst þér? Nei. En, ef ég ætlaði að ná bata yrði ÉG að framkvæma!

Ég er þannig karakter að ég virðist þurfa að ganga alla leið áður en ég gefst upp. Hefði ég átt eitt hálmstrá eftir, liggjandi í ofsakvíða- og panikköstum og komast ekki út, hefði ég reynt að nýta það. Ekki fyrr en ég varð ósjálfbjarga sem ég gat viðurkennt vanmátt! Meiri karlmennskuímyndin!

Í dag sé ég að það var mér til happs að ganga þessa leið, eins sársaukafull og hún var og heppinn að sleppa lifandi. Var orkulaus. Taugakerfið í klessu og varnarkerfið virkaði ekki. Líkamlega og andlega gjaldþrota. Ég átti eitt eftir, fyrir utan börnin mín og mig. Það var auðmýkt. Ég var ekki týpan sem bað um hjálp við helst neinu. Ég reddaði öllu. Þarna gat ég ekkert gert nema þegið hjálp og fylgt henni. Berskjöldunin var algjör. Þetta er held ég ástæðan að ég upplifði aldrei skömm í upphafi eða upplifði mig hafa fallið af einhverjum stalli í lífinu. Ég neyddist til að tileinka mér lykilhluti eins og núvitund, hugleiðslu og allt sem gat róað hugann. Þetta voru fyrstu sigrarnir. 

Ég var í 9 mánuði hjá góðum sálfræðingi sem kom mér á lappir. Fór þá í endurhæfingu hjá Virk með væntingar um að fá úrræði og komast á vinnumarkað á ný. Ég útskýrði vel og vandlega fyrir ráðgjafanum hvað hefði gerst og hvað væri að.

Upplifði skömm 

Hjá Virk var ég í endurhæfingu til maí 2018. Farið í alls konar úrræði m.a. í þerapíu hjá 3 sálfræðingum og tvö djúp sálfræðimöt hjá sálfræðingi Virk. Aldrei kom úrræði vegna krónískrar áfallastreituröskunar. Ég þráspurði eftir því. Allan tímann framkvæmd ég mitt einkaprógram sem ég byggði upp er ég var hjá fyrrnefndum sálfræðingi. Það hélt mér gangandi.

Árið 2016 og fram á vor 2017 fannst mér ég vera á uppleið. Gerðist svo bjartsýnn að ég ákvað í júní 2017 að gera tilraun að komast á vinnumarkaðinn. Ég eyddi heilum mánuði í að leita mér að vinnu. Í byrjun júli 2017 tel ég mig vera kominn með vinnu. Ég var svo viss um að fá vinnuna að ég var mest að spá í hvort ég ætti að þiggja! En. Ég fékk ekki vinnuna! Hvað gerðist? Ég varð eins og sprungin blaðra. Hafði eytt allri orkunni minn í þessa atvinnuleit og þoldi ekki höfnunina.

Við tóku 2 erfiðir mánuðir þar sem ég lokaði mig ómeðvitað af. Þetta var áfall. Ekki fyrr en undir lok ágúst að ég áttaði mig á að ég var kominn í hættulegt ástand. Á þessum mánuðum braust öll gremjan og reiðin fram. Óréttlætið. Þarna upplifði ég skömm. Mér fannst ég hafa eins og sagt er skitið upp á bak og drulluhræddur að viðurkenna það. Ég sem hafði skrifað pistla og farið í viðtöl. Gæti ekki verið að upplýsa að nú þyrfti ég aðstoð. Ég datt í þennan hugsunarhátt. Öll einkennin fóru í gang, ofsakvíða- og panikköstin voru ekki eins djúp og áður. Varð ofsalega paranojaður og treysti mér varla út í búð! 

Maður sem ég þekkti ekkert vildi hitta mig yfir kaffibolla og spjalla. Ég hafði einu sinni sagt nei en hann gaf sig ekki. Það spjall var nóg til að ég fékk kjark til að hafa samband við ráðgjafa minn hjá Virk sem var verulega brugðið. Hún hafði engar fregnir haft af mér síðan um vorið. Ég var settur í sálfræðimat og það tók á að bíða í 2 mánuði eftir niðurstöðum sem voru á endanum rangar!

Ný endurhæfingaráætlun hefst ekki fyrr en í október 2017. Hún var mjög sundurslitin og ég fann að þetta hras mitt um sumarið sat mikið í mér og ég var vondaufari en áður. Þurfti að hafa meira fyrir hverjum degi. Ákvað að gera mitt besta. Þarna er ég farinn að hamra á ég verði að fá almennileg úrræði við minni röskun. Ég fékk nýjan sálfræðing sem hafði enga þekkingu á complex áfallastreituröskun fremur en aðrir sem ég hafði hitt. Þetta var svo erfitt að upplifa. 

Í apríl 2018 er starfsgetumat. Aðdragandinn að því var skrautlegur. Ég átti fund með ráðgjafa Virk til að endurnýja endurhæfingaráætlun. Daginn áður fæ ég nokkuð svæsið ofsakvíða- og panikkast. Stundum fæ ég sterka magakrampa og held engu niðri. Ég var alla nóttina að kasta upp. Mæti ósofinn og frekar illa á mig kominn. Henni dauðbrá og í fyrsta sinni heyri ég hana kalla mig veikan! Ég reyndi að útskýra að svona er þetta og eins gott og hún sá mig ekki í upphafi. Hún fór í panik manneskjan og heimtaði að ég yrði settur í svokallað starfsgetumat. Þá varð mér brugðið. Ég hafði enn ekki fengið svar við lykilspurningunni minni. Hvað ef ofsakvíða- og panikköstin koma aftur með endurupplifunum? Getur það gerst? Ég myndi ekki lifa það af. Þetta óttaðist ég mikið.

Eftir starfsgetumatið var ég eðlilega hræddur um að verða útskrifaður án úrræðis og vita ekki hvað gæti beðið mín. Hitti lækni og las honum pistil. Hitti líka sálfræðing og ætlaði að gera slíkt hið sama. Nei bíddu...þá var þetta sálfræðingur frá LSH sem sagðist vita og hafa reynslu af meðhöndlun fólks með króníska áfallastreituröskun. Mér varð svo um að ég féll saman hjá henni. Og hún sagðist vita um þá fáu sem hefðu reynslu. Allir innan LSH. Ég varð bæði bálreiður út í Virk að hafa ekki kveikt á þessu og um leið feginn að hafa þó loks hitt aðila sem gæti beint mér í rétta átt. Hún sagði að ef hún hefði hitt mig í upphafi hefði ég farið aðra leið. Já takk. Búinn að eyða 20 mánuðum í vitleysu. Hún staðfesti að allir sálfræðitímarnir hefðu verið mér gagnslausir gagnvart röskuninni og þ.a.l. sálfræðimötin ekki alveg rétt. Hún var verktaki hjá Virk en enginn hjá Virk tengdi mínar útskýringar við t.d. þennan sálfræðing. Já kraumaði vel í mér á skilafundinum stuttu síðar. Ég fullyrti að minn árangur til þessa væri mér sjálfum að þakka! Það fór ekki vel i þær stöllur frá Virk.

Á skilafundinum var ákveðið að ég færi í meðferð í áfallateymi hjá LSH og svo í sérmeðferð á svo kölluðu Hvíta bandi ef þyrfti. Vandamál að það var nokkurra mánaða bið í að komast að. Endurhæfingu hjá Virk var lokið án árangurs. Var komið að 18 mánuðum á endurhæfingarlífeyri frá TR en eftir það þarf að sækja upp á nýtt með rökstuðningi.

Hvað átti að gera? Jú ég skil ekki betur en yfirmaður hjá Virk sem er á fundinum sé á því að Virk komi til móts við mig og finni tímabundin úrræði og ég haldi áfram hjá þeim til að brúa bilið. Og minn heimilislæknir sagði stuttu síðar að hann hefði talað við þessa konu og það væri ákveðið að ég yrði á endurhæfingarlífeyri fram á haust. Myndi ekki sækja um tímabundna örorku. Beið fram í miðjan maí eftir að ráðgjafinn minn hjá Virk hóaði í mig svo hægt væri að ganga frá endurhæfingaráætlun svo ég gæti klárað að skila inn skjölum til TR. Hvað gerist þá? Þau reyndu að fá námskeið hjá Kvíðameðferðarstöðinni. Það tókst ekki og tekin ákvörðun um að setja punkt á endurhæfinguna og ég átti bara að sækja um örorku hjá TR. Hálfum mánuði frá því að verða tekjulaus!

Ég fékk áfall. Ekki síst þegar ég komst að því að umsókn um örorku getur tekið um 3 mánuði í vinnslu. Hefði ég endurnýjað endurhæfingarlífeyri með gögnum frá Virk hefði það verið klárað fyrir mánaðamót maí/júní. Þurfti í raun aðeins nýtt læknisvottorð og röksktuðning frá Virk. Að auki endurhæfingaráætlun sem alltaf þarf að skila reglulega. Nei. Sæktu um örorku. Bless.

Það borgar sig ekki að gefast upp

Virk var í lófa lagið að finna önnur úrræði en hjá Kvíðameðferðarstöðinni og leyfa mér að sækja um endurhæfingarlífeyri. Þau ákvaðu að gera það ekki og skýldu sér á bak við að það væri ekki þeirra hlutverk að sjá um framfærslu. Ekki beint verið að hugsa um mína stöðu. Ég hef sjaldan orðið eins reiður og ég skrifaði tölvupósta þar sem ég lét vel valin orð fjúka og fór málefnalega yfir þetta ferli. Var eins ósanngjarnt gagnvart mér og hægt er. Það versta fyrir mína röskun er að lenda í óöryggi og óvissu. Ákvörðun Virk setti mig í þessa stöðu! Það voru meiri þakkirnar eftir árangurslausa endurhæfingu. Nei átti bara að losna við mig. Farðu bara til féló hjá sveitarfélaginu og sæktu um styrk. Guð minn góður. Þar var líka bið og upphæðin í boði ekki nóg til að framfleyta mér. Og hefði ekki engið styrk heldur lán!

Ég ritaði pistil um þetta um daginn og ætla ekki að endurtaka hann. Ég barðist alla daga í 3 vikur að bjarga ærunni, virðingunni og lífinu. Mér tókst að lokum að finna glufu með hjálp heimilislæknis og við fengum endurhæfingaráætlun samþykkta og þ.a.l. var ég kominn með tekjur á ný. Léttirinn var gríðarlegur en spennufallið eftir því. Borgar sig ekki að gefast upp.

Nýlega vissi ég um konu sem var í sömu stöðu og ég og það gladdi mig mikið að vita að hún náði líka að bjarga sér eftir að hafa fengið lokun hjá Virk! Þetta veit fólk almennt ekki um og ágætt að taka fram að sálfræðingar, læknar, félagsráðgjafar o.fl. geta gert og skrifað upp á endurhæfingaráætlanir.

Ég hóf þennan langa pistil á að ræða fórnarlambshlutverkið og kenna öðrum um. Ég vona ég hljómi ekki þannig í þessum skrifum. Ég veit að sá eini sem getur hjálpað mér, er ég sjálfur. Gerir það enginn fyrir mig. Hvort sem eitthvað er ekki mér að kenna. Ég mun því t.d. ekki ergja mig á Virk frá og með núna. Tilgangslaust. Bið þá stofnun vel að lifa. 

Eitt af því mikilvægasta sem ég hef lært í gegnum batagönguna er að gangast við tilfinningum. Góðum og slæmum. Það þýðir að móttaka þær, vinna úr þeim og losa sig við þær. Minna mál með þær góðu en þær erfiðu fóru alltaf ofan í poka. Ég geri þetta í dag og þetta hjálpar mér mikið að dvelja t.d. ekki í reiði við fólk og stofnanir sem dæmi. Vinn úr málunum og loka þeim síðan. Bitnar aðeins á mér ef ég held endalaust áfram að velta mér upp úr óréttlæti. Lífið er ekki sanngjarnt.

Er orðinn líka það sjóaður að ég læt ekki umtal eða neikvæðar skoðanir fólks á mér hafa áhrif á mig. Ég á örfáa en góða vini og þar fæ ég alla speglun sem ég þarf. Allt þetta hjálpar að detta ekki í sjálfsvorkunarpytt. 

Góðar stundir og lifið heil. Takk. Lífið er lærdómur. Frá fæðingu til æviloka.

mbl.is