„Albert Einstein sagði að mikilvægasta ákvörðun okkar sneri að því hvort við upplifðum að umheimurinn væri okkur vinsamlegur eða fjandsamlegur,“ segir Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
„Albert Einstein sagði að mikilvægasta ákvörðun okkar sneri að því hvort við upplifðum að umheimurinn væri okkur vinsamlegur eða fjandsamlegur,“ segir Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
„Albert Einstein sagði að mikilvægasta ákvörðun okkar sneri að því hvort við upplifðum að umheimurinn væri okkur vinsamlegur eða fjandsamlegur,“ segir Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
En eru þeir sem líta heiminn vinsamlegum augum einfaldir? Láta þeir blekkjast og verða ef til vill fyrir skakkaföllum sem hljótast af samskiptum við fólk sem nýtir sér jákvætt viðmót þeirra og traust á náunganum?
Er heimurinn fjandsamlegur og ætti fólk almennt að vera á varðbergi gagnvart öðrum?
Gullna reglan
Fjöldamargar sögur eru til af fólki sem sýnt hefur heiðarleika í verki. Margir hafa upplifað að hafa gleymt verðmætum á almannafærri og fundið þau aftur, jafnvel á sama stað ósnert. Aðrir hafa týnt seðlaveskinu og hafa svo fengið símtal frá árvökrum samborgara sem skilaði veskinu til eigandans – og vildi jafnvel alls ekki þiggja fundarlaun.
Rannsóknir benda til þess að 90% fólks sé almennt heiðarlegt. Gullna reglan er sem sagt sú að flest viljum við gjarnan hegða okkur á heiðarlegan máta og væntum þess að sama skapi að aðrir hegði sér heiðarlega gagnvart okkur.
Dæmi úr viðskiptalífinu
Í aðdraganda þess að Ebay var sett á laggirnar, voru lögð drög að þjónustu sem átti að tryggja bæði kaupendur og seljendur gegn tapi. Kaupendur áttu að geta keypt sér tryggingu gegn því að seljendur sendu þeim ónýta vöru og seljendur áttu að geta keypt tryggingu gegn því að kaupendur greiddu ekki fyrir vöruna. Skemmst er frá því að segja að tryggingaþjónustan var lögð af fljótlega eftir stofnun Ebay, enda var engin ástæða til að halda henni úti. Niðurstaðan var sú að fólki er almennt treystandi í viðskiptum.
Óheiðarleiki
Fátt fer meira fyrir brjóstið á undirritaðri en að þurfa að fást við óheiðarleika. Sem betur fer gerist það örsjaldan en þau skipti geta þó tekið toll. Þetta þekkja margir af eigin raun.
Vantraust getur gert vart við sig í kjölfar þess að hafa upplifað að einhver hagar sér óheiðarlega í þinn garð. En af framansögðu að ráða, er reglan sú að ef þú hagar þér heiðarlega er almennt ekki ástæða til að vantreysta öðrum. Fólk getur svikið þig en góðu fréttirnar eru þær að þau gerist örsjaldan og heyrir til undantekninga.
Það skal tekið fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að sumt fólk sé alltaf óheiðarlegt og annað fólk sé alltaf heiðarlegt og algjörlega hvítþvegið. Ég tel reyndar líklegt að 90% fólks hagi sér heiðarlega í 90% tilfella og að öll gerum við stundum eitthvað sem gæti talist óheiðarlegt. Stundum hugsum við líka um að gera eitthvað sem er óheiðarlegt en ákveðum svo að gera það ekki.
Þó hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem vantreysta öðrum, gera það líklega vegna þess að þeim finnst þeir ekki traustsins verðir sjálfir. Með öðrum orðum, ef þú hegðar þér almennt heiðarlega, ættirðu aðeins að hafa varann á þegar þú mætir fólki sem treystir ekki öðrum og slær sífellt varnagla í samskiptum.
Ef þú lesandi góður ert í hópi þeirra sem treysta ekki öðrum og finnst jafnvel heimurinn fjandsamlegur, gæti verið ástæða til að staldra við. Ef til vill á vantraust þitt rætur í upplifunum á æskuárum nú eða reynslu þinni á fullorðinsárum. En hverjar sem ástæðurnar kunna að vera er ástæða til að íhuga orð Alberts Einstein: mikilvægasta ákvörðun þín snýr að því hvort þú upplifir umheiminn sem vinsamlegan eða fjandsamlegan.