Rétt og rangt varðandi næringu á meðgöngu

Meðganga | 29. ágúst 2018

Rétt og rangt varðandi næringu á meðgöngu

Flestar konur eru meðvitaðar um næringu á meðgöngu en í öllu upplýsingaflóðinu um næringu móður og barns á meðgöngu er ekki alltaf auðvelt fyrir konu að vita hvað sé mikilvægast, rétt og rangt.

Rétt og rangt varðandi næringu á meðgöngu

Meðganga | 29. ágúst 2018

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Flestar konur eru meðvitaðar um næringu á meðgöngu en í öllu upplýsingaflóðinu um næringu móður og barns á meðgöngu er ekki alltaf auðvelt fyrir konu að vita hvað sé mikilvægast, rétt og rangt.

Flestar konur eru meðvitaðar um næringu á meðgöngu en í öllu upplýsingaflóðinu um næringu móður og barns á meðgöngu er ekki alltaf auðvelt fyrir konu að vita hvað sé mikilvægast, rétt og rangt.

Ef um sértækar spurningar er að ræða mælir Fjölskyldan með því að konur leiti til ljósmæðra á heilsugæslustöðvum en almennt er best að borða næringarríkan og fjölbreyttan mat samkvæmt opinberum ráðleggingum

Á heilsuvefnum Heilsuvera, sem er samstarfsverkefni landlæknisembættisins og heilsugæslunnar, segir að „Góð næring á meðgöngu er mikilvæg fyrir vöxt og þroska barns í móðurkviði og stuðlar að heilbrigði þess síðar á ævinni. Hún er ekki síður mikilvæg fyrir vellíðan og heilsu konunnar sjálfrar og stuðlar að hæfilegri þyngdaraukningu á meðgöngu. Konur þurfa ekki sérfæði þótt þær eigi von á barni. Venjulegur matur, fjölbreyttur og hollur samkvæmt opinberum ráðleggingum, fullnægir bæði þörfum barnsins og móðurinnar með fáeinum undantekningum.“

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Mikilvægt er að huga að því að barnshafandi konur þurfa ekki endilega að borða meira en áður, sérstaklega fyrstu mánuðina enda ekki mikil orka sem fer í að láta oggulítið krílið vaxa í móðurkviði. Orkuþörfin eykst á síðari hluta meðgöngunnar en flestar konur hvíla sig meira og hreyfa sig minna á seinni hluta meðgöngunnar sem jafnar gjarna út aukna orkuþörf. 


Nokkrar fæðutegundir sem ber að varast


Samkvæmt viðmiðum Heilsuveru er fiskur almennt frábær næring á meðgöngu en þó ekki hrár. Einnig ættu óléttar konur að forðast eða borða í mjög takmörkuðu magni þorskalifur, sverðfisk, stórlúðu, fýl, fýlsegg, túnfisksteik, búra, niðursoðinn túnfisk, svartfuglsegg og hrefnukjöt. Nú eru fæðutegundir eins og til dæmis fýll, fýlsegg, sverðfiskur og hrefna ekki algeng fæða á borðum landsmanna, sérstaklega á barneignaraldri, en hins vegar eru ýmsir erlendir ostar orðnir býsna algengir og ættu barnshafandi konur að forðast ógerilsneydda osta alfarið og halda sig einfaldlega við hina gerilsneyddu.


Huga þarf sérstaklega að ferns konar næringarefnum, fólati (líka kallað fólínsýra), kalki, D-vítamíni og járni. Almennt ætti að duga að borða fjölbreyttan og hollan mat en það getur verið vissara að taka vítamín til að tryggja að líkaminn fái þessi efni á þessum mikilvæga vaxtartíma barnsins. 

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fólat/fólínsýra

Samkvæmt Heilsuveru-vefnum er barnshafandi konum ráðlagt að taka B-vítamínið fólat í töfluformi og gæta þess sérstaklega að borða fólatríkar matvörur þar sem fólat minnkar líkur á fósturskaða. Best er að byrja að taka fólat áður en meðgangan hefst. Fólatrík matvæli eru vítamínbætt morgunkorn (skoðið umbúðir og varist mikinn viðbættan sykur), hveitikím og hýðishrísgrjón. Spergilkál, blómkál, kínakál, rósakál, rauð paprika, spergill, spínat, blaðsalat, avókadó, kartöflur, rauðkál, hvítkál, tómatar, græn paprika, laukur, blaðlaukur og gulrætur. Hnetur, möndlur, baunir, til dæmis sojabaunir, hvítar baunir og bakaðar baunir. Bananar, appelsínur, rifsber, jarðarber,appelsínusafi og sveskjusafi.

Kalk og D vítamín 

Kalkþörf eykst á meðgöngu. Auðveldast er að uppfylla kalkþörfina með tveimur til þremur glösum eða diskum af mjólk eða mjólkurvörum, en það er jafnframt hæfilegur dagskammtur. Þær konur sem ekki drekka mjólk geta t.d. valið kalkbætta sojamjólk.
Best er að velja fitulitlar vörur því mjólkin er orkurík og hefur að geyma mettaða, harða fitu. Ostur getur komið í stað mjólkur að hluta til því 25 grömm af osti innihalda álíka mikið af kalki og eitt mjólkurglas.

Í flestum fjölvítamíntöflum er ekki kalk, enda þarf að taka þrjár til fjórar kalktöflur til að ná ráðlögðum dagskammti af kalki sem er 1.000 mg á dag á meðgöngu. D-vítamín er nauðsynlegt til að kalkið nýtist líkamanum. Fáar fæðutegundir innihalda D-vítamín nema lýsi og feitur fiskur, svo sem lax og síld. Konum er eindregið ráðlagt að taka annaðhvort teskeið af þorskalýsi (5ml), lýsisbelgi eða fjölvítamín með D-vítamíni.

Járn

Á meðgöngu eykst þörf fyrir járn meira en fyrir flest önnur næringarefni. Í flestum tilfellum er nóg að bregðast við þessari auknu þörf með því að borða daglega járnríkan mat.
Járnrík matvæli eru kjöt, blóðmör, baunir og linsubaunir, þurrkaðir ávextir, dökkgrænt grænmeti, járnbætt morgunkorn, gróft korn, fræ og gróft brauð.

Gott er að hafa í huga að járnið í matnum nýtist líkamanum betur ef C-vítamínríkur matur (til dæmis ávextir, ávaxtasafi og grænmeti) er borðaður samhliða járnríkum mat. Járnið í matnum nýtist hins vegar verr ef te, kaffi, gosdrykkir, kakó eða mjólk er drukkið með máltíðinni. Í mæðravernd er fylgst vel með blóðhag barnshafandi kvenna og jafnvel þótt verðandi móðir borði hollan mat getur henni verið ráðlagt að taka inn aukaskammt af járni.

mbl.is