„Nýlega átti ég samræður sem snéru að æskudraumi mínum. Í kjölfar samtalsins áttaði ég mig á að þessi draumur hefur haft djúpstæð áhrif á líf mitt þrátt fyrir að ég hafi ekki enn upplifað hann, ef svo má segja.
„Nýlega átti ég samræður sem snéru að æskudraumi mínum. Í kjölfar samtalsins áttaði ég mig á að þessi draumur hefur haft djúpstæð áhrif á líf mitt þrátt fyrir að ég hafi ekki enn upplifað hann, ef svo má segja.
„Nýlega átti ég samræður sem snéru að æskudraumi mínum. Í kjölfar samtalsins áttaði ég mig á að þessi draumur hefur haft djúpstæð áhrif á líf mitt þrátt fyrir að ég hafi ekki enn upplifað hann, ef svo má segja.
Eitt sinn munaði litlu að hann yrði að veruleika og ég vann að því öllum árum að svo gæti orðið. En stundum er eins og örlögin grípi hreinlega inn í atburðarásina og hlutir æxlast öðruvísi en áætlað var,“ segir Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching, í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
Brostnar vonir og óorðnir draumar geta þó verið til góðs. Flest getum við litið yfir farinn veg og séð að þegar við stóðum á krossgötum og einar dyr lokuðust, opnuðust aðrar. Auðvitað veit enginn hvernig lífið sem ekki var lifað hefði getað orðið, en við vitum þó að við eigum daginn í dag og við höldum í vonina um það sem framtíðin ber í skauti sér.
Framtíðarsýnin og núið
Jafnvægið milli framtíðarsýnar og þess að lifa í núinu, reynist mörgum flókið. Sum löðumst við að sífellt stærri markmiðum og gleymum jafnvel (eða leyfum okkur ekki) að fagna áfangasigrunum. Margir þekkja af biturri reynslu að slíkt munstur getur leitt til þess að kertið brennur í báða enda. Afleiðingar kulnunar geta verið dýrkeyptar og einkennin þrálát.
Fólk á miðjum aldri (og á öllum aldri reyndar) upplifir oft sterklega að hafa ekki nýtt hæfileika sína sem skyldi. Að hafa ekki knúið á dyr og látið til sín taka svo um munaði. Látið drauma sína rætast. Slík eftirsjá getur alið af sér hugsanir um tilgangsleysi og jafnvel leitt til biturðar.
En hvað er til ráða þegar fólk upplifir að hafa ekki lifað lífinu til fullnustu?
Frá óskhyggju til framkvæmdar
Napoleon Hill er mörgum kunnur enda eru bækur hans grunnur að mörgu því efni sem unnið er eftir í markmiðasetningu og sjálfs-þróun ýmiss konar. Hill, sem ritaði verk sín á fyrri hluta síðustu aldar, komst að því að skipta má fólki í sex hópa eftir því hvernig það nálgast drauma sína.
Fyrsti hópurinn eða um 70% fólks fer í gegnum lífið og með óskhyggjuna eina að vopni. Þessi hópur sagði hann að léti þar við sitja – að óska sér.
Annar hópur eða um 10% fólks, tekur næsta skref, sem er að þrá.
Þriðji hópurinn eða um 8%, þróar óskir og þrár þannig að úr verður von.
Fjórði hópurinn býr yfir tiltrú (e. belief) á því að úr verði en þessi hópur ku vera um 6% fólks.
Fimmti hópurinn eða um 4% fólks, fetar öll skrefin hér að framan en bætir svo við brennandi þrá. Þessi hópur hefur þar að auki trú (e. faith).
Aðeins 2% fólks tilheyra þeim hópi sem stígur lokaskrefin tvö, sem felast í því að gera áætlun og framkvæma svo áætlunina.
Nýrri rannsóknir hafa bent til að um 5% fólks skrifi niður markmið sín, geri áætlun og hrindi svo í framkvæmd.
Lítil þúfa lyftir oft þungu hlassi
Áðurnefnt uppgjör við brostna drauminn, sem var kveikjan að þessum pistli, veitti mér óvæntan innblástur. Að morgni dags síðla sumars, dustaði ég rykið af nokkrum góðkunnum draumum sem virtust meira eins og aftursætisbílstjórar sem gerðu vart við sig öðru hvoru. Sumir voru afgreiddir og vinsamlega sendir áfram til annarra dreymenda á meðan aðrir fengu sæti í farþegasætinu að framanverðu.
Að hætti Napoleon Hill voru framangreind skref stigin samviskusamlega, uns ásættanleg framkvæmdaáætlun hafði litið dagsins ljós. Og viti menn, örfáum vikum síðar eru sumir draumanna þegar orðnir að veruleika.
Áttu þér draum í leynum kæri lesandi? Ef svo er, hvers vegna ekki að gera áætlun um að láta drauminn verða að veruleika? Hafðu samband ef þig vantar hjálp.