Hún var rúmlega tvítug greind þegar hún lagðist fyrst inn á geðdeild en upphafið má rekja til mikillar vanlíðanar í kjölfar sambandsslita. Fyrst var það mikið þunglyndi og kvíði en í dag er hún með greind með geðhvörf (bipolar) með geðklofaáhrif. Eitt af því sem eykur líkur á bata er heilsusamlegt líferni og fylgir hún því að mestu fyrir utan að borða hollustu alla daga því það er vart mögulegt á örorkubótum.
Hún var rúmlega tvítug greind þegar hún lagðist fyrst inn á geðdeild en upphafið má rekja til mikillar vanlíðanar í kjölfar sambandsslita. Fyrst var það mikið þunglyndi og kvíði en í dag er hún með greind með geðhvörf (bipolar) með geðklofaáhrif. Eitt af því sem eykur líkur á bata er heilsusamlegt líferni og fylgir hún því að mestu fyrir utan að borða hollustu alla daga því það er vart mögulegt á örorkubótum.
Hún var rúmlega tvítug greind þegar hún lagðist fyrst inn á geðdeild en upphafið má rekja til mikillar vanlíðanar í kjölfar sambandsslita. Fyrst var það mikið þunglyndi og kvíði en í dag er hún með greind með geðhvörf (bipolar) með geðklofaáhrif. Eitt af því sem eykur líkur á bata er heilsusamlegt líferni og fylgir hún því að mestu fyrir utan að borða hollustu alla daga því það er vart mögulegt á örorkubótum.
Hún segir að þegar veikindin komu fyrst upp hafi henni liðið skelfilega og bætir við að hún hafi nú heldur aldrei orðið svona ástfangin aftur þrátt fyrir að hafa upplifað ástina síðar en aldrei með þessum hætti og þarna var. Á þessum tíma voru maníurnar (oflætið) mildari en þær sem síðar áttu eftir að koma og eins stuttar. Það átti eftir að breytast þegar hún fór að reykja kannabis sem hún segir að sé eitur sem kostaði hana geðrof sem stóð yfir í tvö ár.
„Þegar ég veiktist fyrst var ég ekki í neinum efnum, reykti hvorki né drakk. Mín fíkn hófst með misnotkun kvíðalyfja og svo tók áfengið við. Ég notaði þessi efni til þess að slá á kvíðann og róa hugann. Enda svaf ég meira og minna þegar ég var í neyslu. Ég kynntist manni í meðferð og fór að reykja hass með honum eftir að við lukum meðferðinni. Ég reykti hass upp á hvern einasta dag í sex til átta mánuði en þá var þetta líka búið. Ég var meira og minna í geðrofi næstu tvö árin,“ segir hún.
Á vefnum persona.is segir svo: Geðrof (psychosis) er ástand sem einkennist af ofskynjunum og/eða ranghugmyndum og stafar af skertum raunveruleikatengslum. Önnur einkenni fara oft saman með geðrofi eða fylgja í kjölfarið, til dæmis félagsleg einangrun eða hlédrægni, hugsanatruflanir sem sjást á ruglingslegu tali og undarlegu látbragði.
Geðrofin eru eins mörg og þau eru ólík, segir viðmælandi mbl.is. „Mitt geðrof var guð og djöfullinn en ég hafði alltaf áður trúað á góðan og umburðarlyndan guð. Í geðrofinu var hann refsiglaður og ég var mjög hrædd við hann. Ég hafði aldrei trúað á að til væri helvíti en það var heldur betur til í mínu geðrofi og ég var skelfingu lostin,“ segir hún en hún var ítrekað nauðungarvistuð á þessum tíma.
„Ég man að í mínu sturlunarástandi þá taldi ég að börnin mín væru dáin. Í hvert skipti sem bjallan hringdi á geðdeildinni var ég sannfærð um að þetta væri prestur kominn til að segja mér að þau væru dáin. Þrátt fyrir öll mín veikindi var alltaf smá skynsemi í hausnum á mér og ég vissi að það var ekki tímabært að syrgja fyrr en búið væri að segja mér formlega frá andláti þeirra. Veistu, hlutirnir geta verið svo hræðilegir að maður getur ekki einu sinni grátið?“ segir hún.
Viðtalið birtist einnig á mbl.is um helgina í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigði
Hún segist hafa verið mjög erfiður sjúklingur og hafi ekki viljað taka lyfin sín. Hún viti það í dag að án þeirra geti hún ekki verið.
„Ég þakka oft fyrir að maður veit ekki ævi sína fyrr en öll er því ef einhver hefði sagt mér á sínum tíma að ég ætti eftir að vera innskrifuð á geðdeild í tíu ár þá hefði ég dáið. Ég hefði ekki getað lifað með þeirri vitneskju. Lyfið sem ég er á er gamalt geðlyf en vægari úrræði hafa ekki nægt mér. Í fyrstu voru mér gefin vægari lyf en þau dugðu bara ekki til. Ein af aukaverkunum með lyfinu sem ég er á er að maður þyngist og ég var mjög feit um tíma. Eins og við þekkjum sem glímum við geðraskanir þá eru miklir fordómar í garð geðsjúkdóma en ef maður er feitur líka þá versna þeir enn frekar. Eins og maður hafi ekki nóg með að glíma við veikindi að maður þurfi ekki að upplifa það líka. Til að mynda hvernig horft var á mig. Fólk heldur að maður taki ekki eftir þessu en maður gerir það og það er ekki gott.“
Hún segist hafa verið svo veik að þó að hún hafi viljað gera eitthvað þá var það henni ómögulegt. Hún komst ekki einu sinni til læknis því hún sat stjörf í stól heima hjá sér allan daginn, stundum allan sólarhringinn.
„Ég gat ekkert gert. Sat bara stjörf í sama stólnum í 12-18 tíma, gat ekki lesið, ekki horft á sjónvarpið, gat ekkert gert. Ég vildi ekki hafa foreldra mína nálægt mér eða aðra en þau gáfust aldrei upp og komu alltaf í heimsókn til mín. Þau segja að það erfiðasta hafi verið að fá mig nauðungarvistaða en ástandið var þannig að það var ekkert annað í boði,“ segir hún en mörg ár eru liðin frá síðustu nauðungarvistun.
Sama hvað hún var veik þá reyndi hún að fara í sturtu á hverjum degi. Hún segir að það sé kannski eitthvað sem fólki finnist ekkert merkilegt en það hafi verið afrek út af fyrir sig fyrir hana þegar hún var sem veikust. Hún segir að það að vera umlukin vatni hafi verið góð tilfinning sem hún sótti í. Stundum svo að baðferðirnar urðu margar sama daginn.
Eitt sem fylgir þessum veikindum er algjört hrun fjárhagslega. „Ég hef hins vegar alltaf staðið við mínar skuldbindingar og greitt húsaleigu, rafmagn og annað slíkt. Stundum hefur ekkert verið í boði nokkrum dögum eftir mánaðamót annað en að lifa á núðlum það sem eftir lifir mánaðar.“
Eftir að hún veiktist alvarlega lét hún börnin frá sér og segir hún það það versta. „Ég er alltaf með samviskubit og mér finnst ég hafa brugðist þeim en sennilega var þetta það eina rétta, að þau byggju hjá feðrum sínum. Ég er í góðu sambandi við þau öll þó svo rof hafi orðið á því þegar ég var sem veikust.“
Hún hefur verið innrituð í samfélagsgeðteymi í Vesturbænum í meira en tíu ár og bati hennar sé samspil margra hluta. Ekki síst því að hún fór að fara í Hlutverkasetur og losnaði þannig út úr einangruninni sem hún var í. „Ég held að þetta hafi verið fyrsta skrefið í mínum bata – að rjúfa einangrunina. Í vor sagði læknirinn minn mér að hann ætlaði að útskrifa mig úr geðteyminu og þetta var stórkostleg tilfinning, sálin lyftist á annað plan, á sama augnabliki áttaði ég mig líka á því hvað ég hafði verið vonlaus.
Ég hélt að ég yrði aldrei útskrifuð og yrði innskrifuð í teymið það sem eftir væri ævinnar. Síðan þá hefur mér liðið svo vel og lífið blasir við mér. Er að byrja að vinna og þó svo ég sé ekki að fara í fulla vinnu þá er þetta í fyrsta skipti í áratugi sem ég get unnið.“ Hún segist eiga bakland á göngudeildinni á Kleppi og það sé góð tilhugsun að ekki sé búið að sleppa af henni hendinni ef eitthvað kemur upp á.
„Ég held að ég tali fyrir munn okkar margra sem erum öryrkjar að við erum með svo brotna sjálfsmynd enda ekki allt gáfulegt sem maður hefur gert í veikindunum. Það er mjög gott að komast aftur út á vinnumarkaðinn en það er ekki sama hvernig er staðið að því. Það þarf að hjálpa okkur að vera í vinnu því maður er svo lítill í sér og þarf svo lítinn mótbyr til þess að gefast upp. Að vera í samfélagi á að fela í sér að maður sé samþykktur og ef maður er það ekki þá er það svo vont og þú þarft ekki að vera með geðröskun til að upplifa það,“ segir hún.
Geðraskanir eru flókið fyrirbæri og segir hún að það geti enginn sett sig í þessi spor nema þeir sem eru með geðraskanir. Þetta er ekkert sem þú harkar af þér líkt og oft er viðhorfið ef fólk opinberar líðan sína.
Hún segir að stundum hafi hún verið við að bugast og sjálfsvígshugsanir komið upp. „En hræðsla mín við hvað guð myndi gera við mig kom í veg fyrir að ég léti verða af því. Myndi hann senda mig í helvíti og yrði ég þar til eilífðar? Og eilífðin er svo rosalega lengi að líða. Þegar ég var í geðrofi þá taldi ég mig vera guð um tíma og í annan tíma var ég Jesú og ég get sko sagt þér að það var ekkert auðveldara. Því það var meira en full vinna því þeir feðgar slökuðu nú aldrei á,“ segir hún og hlær við.
„Þrátt fyrir að hafa verið mjög veik í mörg ár og gert alls konar heimskulega hluti í gegnum tíðina þá finnst mér veikindin hafa gert mig að betri manneskju. Ég er ekki eins dómhörð og ég er umburðarlyndari en ég var áður. Ég sýni öðru fólki miklu meiri skilning en ég gerði áður. Kleppur er víða og geðheilsan er hluti af lífi okkar. Ég er mjög kvíðin og mér fannst oft erfitt að vera með óskilgreindan kvíða, það er hann læðist að mér upp úr þurru án þess að ég geri mér grein fyrir því, en læknarnir segja mér að þetta séu viðbrögð manneskjunnar um að hún eigi að forða sér út úr aðstæðum sem hún er komin inn í. Kvíðinn hefur alltaf fylgt mér, alveg frá því ég var barn, en ég hef lært að lifa með honum og hvernig ég eigi að bregðast við banki hann óvænt upp á,“ segir hún.
Hún notaði vímuefni af öllu tagi hér áður en kannabisið fór verst með hana. „Ég verð svo reið þegar fólk dásamar hass því ég veit hversu mikið eitur það er. Það er ekkert frábært við það eins og sumir halda fram. Mín fyrsta hugsun er bara: Ég ætla að vona að þú farir aldrei í geðrof. Því það er svo hræðilegt að ég myndi ekki einu sinni óska mínum versta óvini að upplifa það.“
Aðeins einu sinni eftir að hún hætti neyslu reykti hún kannabis og hún heldur að það muni ekki gerast aftur. „Ég þurfti ekki nema einn smók til þess að finna geðrofið hellast yfir mig.“
Hún segist ekki óttast að fara aftur í geðrof því hún fylgi sínum reglum og noti þau bjargráð sem hafa reynst henni vel. Vímuefnin komi ekki til greina framar enda veiti þau falska vellíðan sem er fljót að snúast í andhverfu sína. Hún hefur jafnvel lagt reykingar á hilluna og segir að það hafi nú verið út af leti.
„Ég reykti svakalega, allt upp í fjóra pakka á dag og ég veit eiginlega ekki enn þann dag í dag hvernig ég hafði ráð á því. Ég reykti yfir mig en ég var svo einmana og sígarettan var félagsskapurinn minn. Þegar ég byrjaði í Hlutverkasetri var mér gert að fara út á tröppur til að reykja og ég nennti því nú ekki. Enda löt að eðlisfari þannig að það endaði með því að ég hætti að reykja af leti,“ segir hún.
„Ég fylgi mínum reglum og þær eru kannski ekki merkilegar í huga allra, svo sem að fara í sturtu á hverjum degi. Ég fer á hverjum degi í göngutúra og hitti fólk. Eins held ég heimili mínu hreinu og gæti þess að taka lyfin mín. Um hver mánaðamót borga ég reikningana mína og gæti þess að eiga fyrir lyfjunum því þau skipta svo miklu máli til þess að ég haldi heilsunni. Til að mynda lyfið sem ég tek við hvatvísinni. Lyfið hefur breytt svo miklu í mínu lífi því áður var ég búin að framkvæma hlutina áður en ég hugsaði. Til að mynda að gefa frá mér börnin sem er það eina sem ég er sorgmædd yfir. Hins vegar er ég orðin amma í dag og það er það yndislegasta sem ég hef upplifað. Litlu hlutirnir sem maður upplifir með þeim eru svo dásamlegir og skipta svo miklu máli. Þessi ást sem maður upplifir þegar maður eignast börn og barnabörn.
Ég bý í íbúð frá Félagsbústöðum og hef búið í sömu íbúðinni í tæpan áratug. Ég hef aldrei búið jafnlengi á sama stað frá því ég flutti að heiman 18 ára gömul og það skiptir svo miklu máli. Ekki bara fyrir fólk með geðraskanir heldur alla.“
Hún segir að næringin verði oft út undan þegar kemur að bjargráðum. „Ég hugsa ekki nógu mikið um næringuna en það skýrist af því að ég sem öryrki hef ekki efni á að kaupa mér mat á hverjum degi. Þannig að annan hvern eða þriðja hvern dag borða ég núðlur því ég hef ekki ráð á hollustu. Sem er sorglegt því það er vitað að svefn, hreyfing og næring eru grundvallaratriði þegar kemur að geðheilbrigði. En við öryrkjar höfum einfaldlega ekki ráð á hollri næringu. Mér finnst grænmeti mjög gott en ég hef ekki efni á því. Sem er svo sorglegt þegar maður hugsar til baka og veltir fyrir sér hvað það hafi kostað samfélagið mikið þegar ég var í geðrofi. Ég hef ekki hugmynd um það en get ekki ímyndað mér annað en að það sé mikið,“ segir þessi fallega og lífsglaða kona sem hefur gengið í gegnum erfið veikindi en er í góðum bata.