5 uppeldisráð Ástu S. Fjeldsted

5 uppeldisráð | 1. október 2018

5 uppeldisráð Ástu S. Fjeldsted

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, hafði aldrei skipt á barni þegar hún varð sjálf móðir. Hún segir að fjölskyldan hafi haft töluverðar áhyggjur af þessu. 

5 uppeldisráð Ástu S. Fjeldsted

5 uppeldisráð | 1. október 2018

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, hafði aldrei skipt á barni þegar hún varð sjálf móðir. Hún segir að fjölskyldan hafi haft töluverðar áhyggjur af þessu. 

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, hafði aldrei skipt á barni þegar hún varð sjálf móðir. Hún segir að fjölskyldan hafi haft töluverðar áhyggjur af þessu. 

„Það voru þó nokkrir í fjölskyldunni sem höfðu af því áhyggjur hvernig þetta foreldrahlutverk mitt myndi ganga þar sem ég hafði ekki verið þekkt fyrir að passa börn eða vera mikil barnagæla. Ekki að mér hafi líkað illa við börn heldur hafði fókusinn í lífinu bara verið annars staðar. Þegar við Bolli Thoroddsen eignuðumst Margréti Ragnheiði í nóvember 2016 þá hafði ég alveg af þessu ákveðnar áhyggjur líka. Í þokkabót bjuggum við á þessum tíma í Tókýó, í Japan, víðsfjarri fjölskyldu og vinum sem hefðu getað aðstoðað. Ég hafði aldrei skipt á bleyju og aldrei svæft barn, hvað þá klætt það og gefið að borða. En einhvern veginn kláraði maður sig og trúi ég því að þetta sé manni í blóð borið. Margrét Ragnheiður er alla vega afar kát og sjálfstæð flott stelpa sem ég hef fulla trú á. Hvort það komi eitthvað uppeldisaðferðum okkar Bolla við vil ég ekki leggja mat á en þau fimm atriði sem við leggjum kannski hvað mesta áherslu á er eftirfarandi:

1. Knúsa og veita tilfinningalegt öryggi

Það er aldrei hægt að knúsast of mikið. Að liggja bara uppi í rúmi eða uppi í sófa, hanga og kjafta, knúsa og kremja, það er eitthvað sem gerir okkur öllum gott og styrkir tengslin. Að barnið finni að það sé elskað og þrói með sér innra öryggi er eitthvað sem ég held að byggi upp heilsteyptan og hamingjusaman einstakling.

2. Setja skýra ramma

Eflaust eru hlutir sem maður pikkar upp frá sinni eigin æsku. Ég bjó við mjög skýra ramma um hvað væri í lagi og hvað ekki. Tel að ég sé að halda uppi svipuðu mynstri og vona að það eigi eftir að koma sér vel. Vera staðfastur á hvað megi og hvað ekki – og passa kannski ekki síst að maður fari eftir því sjálfur, t.d. þegar kemur að símanotkun, sjónvarpsglápi og nammiáti.

3. Láta börnin ekki stoppa sig af

Með þessu meina ég mikilvægi þess að sinna áfram sjálfum sér. Ekki hætta við Asíuferðina eða stelpuferðina sem var búið að plana  heldur drífa sig af stað. Auðvitað er ég svo heppin að eiga góða að sem eru tilbúnir að hlaupa undir bagga þegar á þarf að halda en stundum er líka bara ráðið að taka börnin með. Reynsla mín af þó nokkrum ferðum til Japans og vinnuferðum til Evrópu hefur sýnt mér að það er mun auðveldara að ferðast með börn en ég átti von á. Auðvelt kannski að staðhæfa þetta þegar maður er bara með eitt barn. Nú er annað væntanlegt í febrúar – sjáum hvað ég segi þá.

4. Tala við börn eins og fullorðið fólk

Á mínu heimili var talað við mig eins og fullorðinn einstakling frá upphafi og það hef ég einnig gert við dóttur mína. Ég held að þessi kríli séu miklu klárari en við höldum svo mér finnst best bara að tala við þau eins og jafningja. Vona að það hafi líka góð áhrif á orðaforða og hljóðmyndun þeirra – en er hér kannski farin að alhæfa um hluti sem ég hef takmarkaða þekkingu á.

5. Treysta og sleppa tökunum

Ég tel mikilvægt að barni sé sýnt traust allt frá byrjun og það finni að það sé sjálfstæður einstaklingur sem þarf að standa á eigin fótum. Þetta hefur ekki alltaf gengið sem skyldi enda hafa ófáir postulínsbollar og -skálar brotnað þegar við erum að reyna að treysta barninu fyrir því að klára sig sjálft. En þetta snýr líka að því að foreldrar treysti barninu til að klára sig sjálft í pössun hjá öðrum eða í skólanum þar sem það er án foreldra. Sleppa tökunum og halda ekki að foreldrið sé ómissandi.

Margrét Ragnheiður Thoroddsen.
Margrét Ragnheiður Thoroddsen.

Hér má sjá myndband af Ástu og dóttur hennar, Margréti Ragnheiði, þar sem hún var ársgömul og stal senunni á World Trade Organization í Genf: 

mbl.is