Leiðtogar stríðandi fylkinga í Suður-Súdan skrifuðu undir enn eitt friðarsamkomulagið í síðasta mánuði og á meðan þeir leggja á ráðin um hvernig þeir ætli að deila völdunum héðan í frá heldur hungrið áfram að sverfa að íbúum þessa yngsta ríki heims. Þá blossa þar enn upp átök þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Leiðtogar stríðandi fylkinga í Suður-Súdan skrifuðu undir enn eitt friðarsamkomulagið í síðasta mánuði og á meðan þeir leggja á ráðin um hvernig þeir ætli að deila völdunum héðan í frá heldur hungrið áfram að sverfa að íbúum þessa yngsta ríki heims. Þá blossa þar enn upp átök þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Leiðtogar stríðandi fylkinga í Suður-Súdan skrifuðu undir enn eitt friðarsamkomulagið í síðasta mánuði og á meðan þeir leggja á ráðin um hvernig þeir ætli að deila völdunum héðan í frá heldur hungrið áfram að sverfa að íbúum þessa yngsta ríki heims. Þá blossa þar enn upp átök þrátt fyrir fögur fyrirheit.
„Við heyrðum að þeir hefðu skrifað undir friðarsáttmála en við höfum ekki séð neinar vísbendingar um það hér,“ segir Mary Nyang, 36 ára íbúi í Kandak sem er einangrað þorp í norðurhluta landsins. Hér er hungrið hluti af hversdagslífinu og átök milli hersveita stjórnarhersins og uppreisnarhópa eiga sér enn reglulega stað.
Stríðið í Suður-Súdan braust út af mikilli hörku í desember árið 2013 er forsetinn Salva Kirr sakaði varaforsetann Riek Machar um að hafa undirbúið valdarán.
Átökin voru mjög áköf frá upphafi og sérlega grimmileg þar sem fjöldamorð voru framin á almennum borgurum, þeim nauðgað og þeir rændir.
Nyang er á meðal þeirra 4,2 milljóna manna sem þurft hafa að flýja heimili sín undan átökunum. Um þriðjungur þjóðarinnar hefur lagt á flótta. Þá benda niðurstöður nýrrar rannsóknar til þess að yfir 382 þúsund manns hafi fallið í stríðinu.
Í fyrra blossaði svo upp hungursneyð á tveimur svæðum sem uppreisnarmennirnir höfðu á sínu valdi og í dag er talið að 6,1 milljón manna búi við sult.
„Átök eru helsta ástæða hins hrikalega ástands,“ segir Pierre Vauthier, yfirmaður Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO).
Þorpið Kandak er á yfirráðasvæði uppreisnarmanna og þjáningar íbúanna má beint rekja til mannanna verka. Þar er enga opinbera þjónustu að fá, engir skólar eru reknir og engar heilbrigðisstofnanir.
Átökin hafa einnig haft áhrif á uppskeru bænda og sölu á landbúnaðarvörum. Því þarf stór hluti fólksins að reiða sig á matargjafir hjálparstofnana.
En starfsmenn hjálparstofnana hafa einnig verið skotmörk og 107 þeirra hafa látið lífið í átökunum hingað til. Þá eru vegasamgöngur ótryggar svo oftast þarf að fljúga með neyðaraðstoð til fólksins. Það er dýrt og því er aðstoðin minni en ella. Tomson Phiri, starfsmaður Sameinuðu þjóðanna, segir þetta þó oftast einu færu leiðina.
Þetta hefur allt saman orðið til þess að milljónir svelta.
„Það er erfitt að finna mat, það er lítið af honum,“ segir hinn 28 ára gamli John Jal Lam, faðir átta barna, er hann fer til að sækja dagskammt fjölskyldunnar af korni.
Í Kerwa, sem er hinum megin í landinu skammt frá landamærunum að Úganda, fara uppreisnarmenn einnig með völd. Um svæðið fara þúsundir á leið sinni til flóttamannabúða í Úganda. Þar geisa enn átök.
„Ríkisstjórnin virðir ekki friðarsamkomulagið,“ segir Moses Lokujo sem fer fyrir vopnaðri sveit uppreisnarmanna.
Og þannig er það: Stríðandi fylkingar saka hvor aðra um að brjóta ákvæði samkomulagsins og það er ekki hikað að við að bregðast hratt við meintum brotum með ofbeldi. „Við erum enn að berjast fyrir frelsi og lýðræði í landinu okkar og gerum það þar til við náum okkar markmiði,“ segir Lokujo.
Á hans svæði eru átökin nú bein afleiðing friðarsamkomulagsins þar sem deilt er um hver eigi að fara með völdin. Og íbúarnir líða fyrir því hjálparstofnanir hætta sér ekki á vettvang. „Við erum orðin þreytt,“ segir Jocelyn Kako, sem neyddist til að yfirgefa heimili sitt.
Fátækustu íbúar landsins hafa orðið verst úti. Þeir eru að svelta og þjást á meðan leiðtogar landsins leggja á ráðin um skiptingu valdsins sín á milli. Í hinni nýju ríkisstjórn er nefnilega gert ráð fyrir plássi fyrir bæði Kiir og Machar og hingað til hefur slíkur ráðahagur alls ekki reynst vel. Og svo er stefnt að kosningum.
Fáir hafa mikla trú á að friðarsamkomulagið haldi, ekki frekar en aðrir slíkir samningar hafa gert í gegnum tíðina. Fyrir tveimur árum var eitt samkomulagið rofið og blossuðu þá af krafti upp harðvítug átök.
Almennir borgarar eru að niðurlotum komnir. „Mig langar að segja þeim að nú er nóg komið,“ segir Nyang. „Höldum nú friðinn.“