Ekki sjálfgefið að vera í fremstu röð

Veiðigjöld | 24. desember 2018

Ekki sjálfgefið að vera í fremstu röð

Veiðigjald undanfarinna ára hefur á engan hátt endurspeglað það árferði sem greinin býr við. Mörg fyrirtæki hafa átt mjög erfitt uppdráttar sökum þessa og skattlagning ríkisins hefur dregið þrótt og fjárfestingargetu úr mörgum þeirra. Þetta segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Ekki sjálfgefið að vera í fremstu röð

Veiðigjöld | 24. desember 2018

„Í mínum huga er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma …
„Í mínum huga er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma og atvinnugreinin gangi í takt.“ mbl.is/Árni Sæberg

Veiðigjald undanfarinna ára hefur á engan hátt endurspeglað það árferði sem greinin býr við. Mörg fyrirtæki hafa átt mjög erfitt uppdráttar sökum þessa og skattlagning ríkisins hefur dregið þrótt og fjárfestingargetu úr mörgum þeirra. Þetta segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Veiðigjald undanfarinna ára hefur á engan hátt endurspeglað það árferði sem greinin býr við. Mörg fyrirtæki hafa átt mjög erfitt uppdráttar sökum þessa og skattlagning ríkisins hefur dregið þrótt og fjárfestingargetu úr mörgum þeirra. Þetta segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fyrr í mánuðinum var samþykkt á Alþingi frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til nýrra laga um veiðigjald. Með gildistöku frumvarpsins færist viðmið innheimtunnar nær sjálfri innheimtunni í tíma, og endurspeglar þannig betur afkomu í sjávarútvegi hverju sinni.

„Of hátt veiðigjald skaðar öll fyrirtæki. Fyrst um sinn mun það hugsanlega koma verst niður á minnstu og meðalstóru útgerðunum, en til lengri tíma mun of há skattlagning hafa skaðleg áhrif á alla,“ segir Jens Garðar í samtali við 200 mílur.

„Það liggur alveg ljóst fyrir að margar útgerðir munu ekki geta starfað við núverandi skattlagningu. Menn verða að gera sér grein fyrir því að ef enginn er afgangurinn til að fjárfesta í nýjum skipum eða tækjum í landi missum við fótfestu á alþjóðlegum markaði og þá er sjálfhætt í sjávarútvegi.“

Helsta áskorunin pólitísk óvissa

Spurður um stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja um þessar mundir segir hann að þau hafi á undanförnum árum starfað við mjög krefjandi rekstrarskilyrði. Sterkt gengi krónunnar, hækkanir á innlendum kostnaðarliðum og hátt veiðigjald, sem engan veginn hafi endurspeglað afkomu fyrirtækjanna, ráði þar mestu.

„Þeir sem starfa í sjávarútvegi eru vanir því að eiga við náttúruöflin og samkeppni á erlendum mörkuðum, en það er í raun ótrúlegt að okkar helsta áskorun sem atvinnugreinar sé pólitísk óvissa og óstöðugleiki. Nánast á hverju ári hefur greinin mátt sitja undir óvissu um hvernig ríkið ætlar að skattleggja greinina,“ segir Jens.

„Það er alveg skýrt í mínum huga að ef Íslendingar vilja áfram vera í fremstu röð sjávarútvegsþjóða þarf að fjárfesta og auka nýsköpun. Fyrirtækin hafa fyrir löngu áttað sig á þessu og það yrði traustvekjandi fyrir greinina, og alla sem á hana treysta, ef ráðamenn þjóðarinnar gerðu sér einnig grein fyrir þessu.“

Tengdi dómana við veiðigjald

Hæstiréttur dæmdi ríkið nýlega skaðabótaskylt gagnvart tveimur útgerðum, en í dómunum tveimur segir að ráðherra hafi ekki verið heimilt að bregða út frá lögum um veiðireynslu við úthlutun makrílkvóta með reglugerð. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í sömu viku að dómurinn endurspeglaði að Íslendingar ættu enn í deilum um fiskveiðistjórnunarkerfið og úthlutun takmarkaðra gæða.

Tengdi hann dómana við umræðu um frumvarp til nýrra laga um veiðigjald, sem að lokum var þó samþykkt, og lét í ljós að eðlilegt væri að framlengja þágildandi lög „til að skoða úthlutunarreglur og veiðigjöld í samhengi“. Fyrr á þessu ári spurði Logi í ræðustól Alþingis hvort ekki væri „allt í lagi þó að eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið?“

Spurður hvort honum finnist viðhorf Loga endurspegla skoðun almennings gagnvart íslenskum útgerðum segir Jens: „Ég ætla nú ekki meðal-Íslendingnum að hafa sömu afstöðu til sjávarútvegs og Logi Einarsson. Það að tengja nýfallna makríldóma við umræðu um veiðigjald ber þess vott að annaðhvort eru menn að gera sér upp skilningsleysi á dómunum, nú eða þá hitt, að Logi skilur þá hreinlega ekki.“

Umræddir dómar Hæstaréttar segir Jens að fjalli einfaldlega um að þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi gerst brotlegur við lög og íslenska ríkið sé því bótaskylt gagnvart þeim sem brotið hafi verið á.

„Árið 2015 benti umboðsmaður Alþingis á að ríkið væri að brjóta lög við úthlutun á markílkvóta, þannig að þetta er ekkert nýtt. Að blanda þessu saman við umræðu um veiðigjald er mér fyrirmunað að skilja. En Logi, ásamt sínum flokki, Viðreisn og Pírötum, hefur talað fyrir þjóðnýtingarleið þar sem atvinnuréttur er tekinn af einum og boðinn öðrum. Í fyrstu hét þetta fyrningarleið en nú er nýjasta orðið „markaðsleið“. Hvernig þessir ágætu flokkar tengja þetta við eitthvað sem á skylt við markað er mér algjörlega ómögulegt að skilja, því þetta er ekkert annað en þjóðnýting,“ segir Jens.

Fer ekki saman hljóð og mynd

„En þar sem Loga finnst í lagi að einhver útgerðarfyrirtæki fari á hausinn þá er það að sjálfsögðu sársaukalaust fyrir hann að taka af mönnum atvinnurétt og bjóða hann öðrum. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd. Stjórnmálamenn tala í einu orðinu um að þeir vilji halda landinu í byggð en á hinn bóginn tala þeir um að skattleggja greinina með þeim hætti að hún stendur ekki undir álögunum, og svo toppa menn allt saman með því að ætla að taka af þeim atvinnuréttinn. Ég hygg að almenningur, einkum á landsbyggðinni, leggi ekki trúnað á svona málflutning.“

Hann bendir á að allar útgerðir, hvort sem þær eru stórar eða smáar, séu þýðingarmiklar. „Hver og ein er mikilvægur burðarás í sínu samfélagi og fyrir þjóðina alla. Fjölbreytileiki í íslenskum sjávarútvegi hefur verið og mun vonandi verða áfram eitt okkar helsta aðalsmerki.“

Spurður hvernig hann meti samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðavísu segir Jens að hann sé í fremstu röð í heiminum og standist hvaða samanburð sem er.

„Nýsköpun er hvergi meiri en á Íslandi og margar þjóðir horfa til okkar sem fyrirmyndar þegar kemur að nýtingu sjávarafurða. En það er ekki sjálfgefið að vera í fremstu röð. Um 98% af íslenskum sjávarafurðum fara á erlenda markaði og samkeppnin er hörð. Ekki einungis erum við að keppa við aðrar fiskveiðiþjóðir heldur einnig ódýran eldishvítfisk frá t.d. Asíu. Hátt veiðigjald, síhækkandi kolefnisgjald og hár launakostnaður eru íþyngjandi,“ segir Jens.

Fiskveiðiþjóðir horfi til Íslands

„Fyrirtækin hafa reynt að bregðast við þessum aðstæðum með því að auka sjálfvirkni í vinnslum og smíða ný og betri skip. Ég hef fulla trú á að íslenskur sjávarútvegur geti haldið stöðu sinni á erlendum mörkuðum en til að það sé mögulegt getur ríkið ekki endalaust aukið álögur og gjöld á greinina. Á því munu allir tapa.“

Margar fiskveiðiþjóðir, sem og erlendir fræðimenn, horfi til Íslands sem fyrirmyndar að því hvernig byggja eigi upp fiskveiðikerfi sem stuðli að ábyrgum og sjálfbærum veiðum og styðji á sama tíma við nýsköpun og hugvitsiðnað tengdan greininni.

„Í mínum huga er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma og atvinnugreinin gangi í takt. Það er langtímahagur þjóðarinnar að atvinnugreinin haldi áfram að þróast og eflast,“ segir Jens.

„Hvað varðar fyrirtækin þá erum við að takast á við áskoranir á hverjum degi, hvort sem það er baráttan við Ægi, hörð samkeppni á erlendum mörkuðum eða að vinna skilning stjórnvalda á stöðu greinarinnar og skynsemi í gjaldheimtu. Áskorun okkar er nú, eins og áður, að halda okkur áfram í fremstu röð. Þeirri vakt íslensks sjávarútvegs lýkur aldrei.“

Rætt var við Jens Garðar í sjávarútvegsblaði 200 mílna, sem fylgdi Morgunblaðinu föstudaginn 14. desember.

mbl.is