Leifur Örn Svavarsson, stofnandi og eigandi Íslenskra Fjallaleiðsögumanna, heillaðist af Nepal fyrir um 20 árum. Upphaflega drógu fjallgöngur hann til landsins en síðan þá hafa ferðalögin þróast og býður fyrirtækið nú upp á göngu- og hjólaferðir þangað sem njóta vinsælda. Þótt hann sé búinn að ferðast um allan heim er ekkert sem toppar íslenska sumarið og er það vel nýtt til útivistar.
Leifur Örn Svavarsson, stofnandi og eigandi Íslenskra Fjallaleiðsögumanna, heillaðist af Nepal fyrir um 20 árum. Upphaflega drógu fjallgöngur hann til landsins en síðan þá hafa ferðalögin þróast og býður fyrirtækið nú upp á göngu- og hjólaferðir þangað sem njóta vinsælda. Þótt hann sé búinn að ferðast um allan heim er ekkert sem toppar íslenska sumarið og er það vel nýtt til útivistar.
Leifur Örn Svavarsson, stofnandi og eigandi Íslenskra Fjallaleiðsögumanna, heillaðist af Nepal fyrir um 20 árum. Upphaflega drógu fjallgöngur hann til landsins en síðan þá hafa ferðalögin þróast og býður fyrirtækið nú upp á göngu- og hjólaferðir þangað sem njóta vinsælda. Þótt hann sé búinn að ferðast um allan heim er ekkert sem toppar íslenska sumarið og er það vel nýtt til útivistar.
„Auðvitað er það sambland af þessu tvennu sem fær fólk til þess að langa til þess að koma aftur til Nepals. Það er sterk upplifun að komast í návægi við fjallarisana í Himalajafjallgarðinum þó að ekki sé verið að klífa fjöllin. Snævi þaktir tindarnir gnæfa allt að 4.500 metra yfir dalina þegar gengið er upp í grunnbúðir Everest og þegar við hjólum Anapurna-hringinn förum við um dýpsta dal í heimi sem er milli tveggja átta þúsund metra risa.
Það tekur nokkurn tíma að átta sig á hversu gríðarlega fjölbreytt menningin í Nepal er. Landfræðilegar aðstæður eru mjög breytilegar eftir því hvar þú ert í landinu. Við landamæri Indlands eru regnskógar, svo kólnar veðurfar eftir því sem landið hækkar. Erfitt var að ferðast á milli dala og mörg svæði einangruð í þröngum dölum sem eru umluktir torfærum fjöllum og afgirtir straumhörðum jökulám. Við þessar aðstæður er ekki bara mikil fjölbreytni í dýralífi heldur hefur líka þróast mismunandi og fjölbreytt menning þannig að enn í dag eru töluð 123 tungumál í landinu. Sjálfur hrífst ég af menningu fjallabúanna, sjerpanna. Hvernig þessi glaðbeitti þjóðflokkur hefur lifað á harðbýlum fjallasvæðunum. Þrátt fyrir vaxandi ferðamannastraum hafa þeir haldið sérkennum sínum og þjóðlegum siðum og það er gaman að lenda á trúarhátíðum og öðrum uppákomum þar sem heimafólk klæðist þjóðlegum fatnaði,“ segir hann.
Hvað hefur Nepal fram yfir aðra staði þegar göngu- og fjallaferðir eru annars vegar?
„Nepal er öruggt og þægilegt land að ferðast til og þar er rótgróin hefð fyrir gönguferðum. Fyrst eru það líklega könnunar- og fjallgönguleiðangrar sem nota þekkingu og krafta heimafólks til þess að ferðast um landið en í dag er þessi þekking notuð til þess að fara með ferðafólk um fallega og afskekkta staði. Með Himalajafjallgarðinn, takmarkað vegakerfi og mikið af þjóðleiðum sem gengnar eru á milli staða býður Nepal upp á fjölda fallegra gönguleiða. Þó að National Geographic hafi valið gönguna upp í grunnbúðir Everest sem eina af fallegustu göngum í heimi þá er fjöldi annarra fallegra gönguleiða í landinu, eins og hringurinn í kringum Anapurna-fjallgarðinn. Verðlag er einnig hagstætt á okkar mælikvarða enda er Nepal næstfátækasta land í Asíu á eftir Afganistan.“
Getur venjulegt fólk farið í svona ferðir?
„Já, tvímælalaust. Þessar ferðir eru ætlaðar venjulegu fólki. Það þarf löngun til þess að fara og jákvæð viðhorf til þess að upplifa framandi menningu. Þó að gist sé í tehúsum og fjallaskálum er gott að þátttakendur séu vanir tjaldferðum og ferðalögum innanlands til þess að vera betur undirbúnir undir ferðalagið. Það er mjög sterk upplifun að koma í iðandi mannlíf í borg eins og Katmandú, sérstaklega fyrir þá sem eru að fara í fyrsta sinn út fyrir Evrópu.“
Þarf fólk ekki að vera líkamlega vel á sig komið?
„Jú, almennt gildir að þeir sem fara í gönguferðir erlendis þurfa að vera vanir göngum. Það er gott að ganga reglulega, vera í gönguhópi eða félagsskap sem fær þátttakendur til þess að hreyfa sig reglulega. Það er enginn hámarksaldur ef fólk er frískt en ef valið er að fara í hæð þá fylgja því óþægindi og áhætta sem ekki er gott að leggja á börn. Í gönguferðum eins og upp í grunnbúðir Everest, sem eru í 5.360 metra hæð, eru göngudagarnir ekki langir í kílómetrum; það er gengið mjög rólega, en hæðin veldur talsverðu álagi á þátttakendur. Það eru ekki endilega þeir sem eru í besta líkamlega forminu sem eiga auðveldast með göngur í hæð, oft stendur fólk á miðjum aldri sig betur en yngra fólk, og ef ég á að gera upp á milli kynja þá eiga konur oftar auðveldara með hæðina.“
Hvernig pakkar fólk fyrir svona ferð?
„Ferðafatnað má geyma á hóteli í Katmandú meðan farið er í göngu- eða hjólaferð. Í göngunni er farangurinn borinn af burðarmönnum eða fluttur á jakuxum. Það er því rétt að fara vandlega eftir útbúnaðarlistanum og taka ekki óþarfa með í slíkt ferðalag. Þannig henta mjúkar töskur betur í gönguna en harðar og óþarfi að láta bera fyrir sig hjólatöskur. Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa nákvæma útbúnaðarlista fyrir allar ferðir og undirbúningsfundi fyrir brottför þannig að farið er vel yfir allan undirbúning og pökkun.“
Aðspurður hvernig Nepal hafi breytt honum sjálfum segist hann vera auðmýkri.
„Ég held að Nepal og ferðalögin almennt hafi gert mig auðmýkri. Kennt mér lítillæti og að bera virðingu fyrir dýralífi, fólki og framandi menningu.“
En hvað gerir svona maður eins og Leifur Örn í sínum eigin „sumarfríum“?
„Þó að margir haldi að ferð til landa eins og Perú, Nepals, Marokkós, Albaníu eða Bútan sé einu-sinni-á-ævinni-ferðalög, þá er það því miður ekki svo einfalt. Við hverja ferð sem þú ferð kvikna nýjar hugmyndir um framandi lönd og spennandi áfangastaði sem gaman væri að heimsækja. Þannig er því einnig farið með mig og þó að ég hafi farið margar ferðir til Nepals tek ég eftir nýjum hlutum í hverri ferð og kem heim fullur löngunar að fara aftur og sjá nýa staði. Ég er einnig með sterka löngun til að miðla reynslu og upplifun frá þessum stöðum. Löndin eru orðin ansi mörg sem ég vil helst komast til á hverju ári. Fyrir utan lönd eins og Marokkó og Nepal eru það líka Grænland, sem ég hef hrifist mikið af, auk hrjóstrugri svæða eins og suður- og norðurpóls.
Sumarið á Íslandi er stutt og þá vil ég helst vera hér heima. Þó eru göngur í Evrópu eins og í kringum Mt. Blanc eða um Dólómítana á Ítalíu sem ekki er hægt að fara nema yfir sumarmánuðina. Við veljum að fara á Kilimanjaro í byrjun febrúar þó að ágúst og september séu einnig góður tími. Eins er með gönguna í Atlasfjöllum Marokkós; við förum hana eins seint og hægt er eða í lok september og fáum þannig smá sumarauka þegar farið er að hausta hér heima. Ég reyni að taka frá tíma með fjölskyldunni til þess að ferðast um Ísland í hefðbundnu sumarfríi. Var meira að segja að kaupa mér hústjald í fyrsta skipti seinasta sumar, en hef hingað til verið með fjölskylduna í göngutjaldi.“
Verður fólk ekki æ spenntara fyrir ferðum á óhefðbundna staði?
„Ég held að það sé vakning fyrir því að hreyfa sig í ferðalögum, ganga eða fara á hjóli um framandi staði. Við hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönum völdum að bjóða upp á þær ferðir sem National Geographic valdi sem fallegustu gönguleiðir í heimi. Þó að margir þeir staðir, eins og gönguleiðin til Petru í Jórdaníu, séu Íslendingum ennþá framandi eru það vel þekktir áfangastaðir fyrir göngu- og ævintýraferðir. Samfélagsmiðlarnir eiga líka stóran þátt í að breyta ferðavenjum landans. Þegar fólk sér fallegar myndir frá áhrifaríkum stöðum og lýsingar ánægðra þátttakenda er vel skiljanlegt að það kvikni löngun til þess að fara slíkar ferðir.
Áfangastaðirnir verða því að vera spennandi og bjóða upp á góða upplifun frekar en að vera algerlega framandi. Þegar við byrjuðum til dæmis fyrir rúmum 20 árum með gönguferðir til Marokkó þótti það full „óhefðbundinn“ og framandi áfangastaður sem tók langan tíma að öðlast vinsældir meðal Íslendinga. Í dag eru göngu og ævintýraferðir til Marokkós nokkuð vinsælar meðal Íslendinga og fleiri fyrirtæki hafa fylgt í fótspor okkar og boðið uppá sömu ferðir.“
Hefur þú orðið hræddur í svona ferðum eins og til dæmis í Marokkó?
„Þó að allt hafi gengið vel í mínum ferðum er ég oft hræddur eða áhyggjufullur. Ég held að það fylgi því að vera fararstjóri og bera ábyrgð á farþegunum. Það leynist kannski í mér einhver forlagatrú þannig að ég er ekki hræddur í flugvélum eða í bílferðum um þrönga fjallvegi en við veikindi farþega á einangruðum og afskekktum stöðum verð ég hræddur.“
Er eitthvað sem fólk þarf að varast?
„Já, það er margt sem þarf að varast í framandi ferðalögum. Sú hætta sem leynir líklega mest á sér er hæðin yfir sjávarmáli. Ef ekki er farið varlega, fylgst vel með heilsu farþeganna og staðið rétt að hæðaraðlögun getur það haft lífshættulegar afleiðingar. Það er einnig margt í ferðahegðun sem gott er að hafa í huga til þess að ferðalagið verði ánægjulegt. Þó að magasýking til dæmis hafi ekki alvarleg langtímaáhrif getur hún skemmt mikið upplifunina í fríinu þannig að það er betra að fara varlega og tileinka sér góðar ferðavenjur.“
Kanntu einhverja sögu úr slíkri ferð?
„Jahá, sögurnar eru ansi margar. Ég gæti líklega fyllt heila bók og hver veit nema ég skrifi þær niður einhvern daginn,“ segir hann.