Útivist fyrir þá allra hörðustu

Ferðafélag Íslands | 31. mars 2019

Útivist fyrir þá allra hörðustu

Ekki ætti að hafa farið fram hjá neinum hve mikið áhugi Íslendinga á útivist hefur aukist. Þarf ekki annað en að skoða flauminn af myndum frá vinum á Facebook sem standa keikir efst uppi á Esjunni, sitja þreyttir en glaðir ofan í heitri laug uppi á hálendi, eða útiteknir og hressir uppi á jökli.

Útivist fyrir þá allra hörðustu

Ferðafélag Íslands | 31. mars 2019

Hópurinn hafði aldeilis ástæðu til að fagna að lokinni krefjandi …
Hópurinn hafði aldeilis ástæðu til að fagna að lokinni krefjandi Fossavatnsgöngu. Ljósmynd/Aðsend

Ekki ætti að hafa farið fram hjá neinum hve mikið áhugi Íslendinga á útivist hefur aukist. Þarf ekki annað en að skoða flauminn af myndum frá vinum á Facebook sem standa keikir efst uppi á Esjunni, sitja þreyttir en glaðir ofan í heitri laug uppi á hálendi, eða útiteknir og hressir uppi á jökli.

Ekki ætti að hafa farið fram hjá neinum hve mikið áhugi Íslendinga á útivist hefur aukist. Þarf ekki annað en að skoða flauminn af myndum frá vinum á Facebook sem standa keikir efst uppi á Esjunni, sitja þreyttir en glaðir ofan í heitri laug uppi á hálendi, eða útiteknir og hressir uppi á jökli.

Flestum þykir meira en nóg að ganga á fjöll og spranga um holt og hæðir en svo er ákveðinn hópur fólks sem vill gera meira, og virkilega reyna á úthald og þrek.

Fjölþrautafélagið Landvættir hefur frá árinu 2013 tengt saman fjórar íþróttakeppnir: þrekraunir þar sem þátttakendur synda, hlaupa, hjóla og ganga á skíðum eftir fallegum en krefjandi leiðum í öllum fjórum landsfjórðungum. Er ekki nema fyrir fræknasta útivistarfólk að ljúka öllum fjórum þrautum og geta þau þá skreytt sig með landvættarnafnbótinni.

Brynhildur Ólafsdóttir leiðsögumaður er einn af stjórnendum sérstaks æfingahóps hjá Ferðafélagi Íslands, þar sem fólk býr sig gagngert undir þátttöku í Landvætta-keppnunum. Æfingahópurinn ber einfaldlega nafnið FÍ Landvættir og segir Brynhildur að í grófum dráttum megi skipta meðlimum í tvo hópa: „Annars vegar eru þeir sem koma úr íþróttum, hafa t.d. iðkað hlaup af kappi, og langar að spreyta sig á aðeins öðruvísi verkefnum. Hins vegar höfum við fólk sem hefur stundað útivist af miklum metnaði, ræður hæglega við að ganga á fjöllum heilu dagana, og langar að reyna enn meira á sig.“

Allir vita að það er gaman að skoða landið á tveimur jafnfótum, og að það gerir bæði líkama og sál gott að skokka, synda, hjóla og brenna nokkrum hitaeiningum. Ætti því ekki að koma á óvart að þegar þetta tvennt fer saman – þegar tekið er rækilega á því í óspilltri náttúrunni – gerist eitthvað alveg sérstakt: „Stærsti munurinn finnst mér vera hvað þetta hefur jákvæð andleg áhrif. Það er allt öðruvísi að hreyfa sig útivið og hafa margar rannsóknir sýnt að við það virkjast hamingjustöðvar heilans,“ segir Brynhildur. „Þá hefur útivist utandyra líka þann kost að álagið á líkamann er síbreytilegt. Ef t.d. hlaupið er úti í náttúrunni er undirlagið að breytast í hverju skrefi og fer það betur með líkamann en að hamra fætinum niður í hart malbik eða hlaupabretti í marga kílómetra.“

Brynhildur Ólafsdóttir ásamt Róberti Marshall og Kjartani Long á gönguskíðaæfingu.
Brynhildur Ólafsdóttir ásamt Róberti Marshall og Kjartani Long á gönguskíðaæfingu. Ljósmynd/Aðsend

Gott aðhald og markvissar æfingar

FÍ Landvættir vinna samkvæmt æfingaáætlun sem hefst í nóvember og lýkur í ágúst. Hópurinn hittist a.m.k. einu sinni í viku og þess á milli þurfa meðlimir að stunda æfingar á eigin vegum. „Það þarf að klára ákveðnar æfingar innan vikunnar, s.s. að fara út að hlaupa eða skíða vissa vegalengd eða í ákveðinn tíma en fólk ræður því sjálft hvaða dag vikunnar það finnur sér tíma fyrir æfingarnar.“

Þannig auka þátttakendur styrk og þrek jafnt og þétt, og taka síðan sérstakar æfingahelgar skömmu fyrir hverja keppni. Umsjónarmenn veita gott aðhald og fylgjast vel með hópnum til að ganga úr skugga um að allir séu á réttri leið. Fremstu sérfræðingar landsins í hverri þraut eru fengnir sem gestaþjálfarar og haldnir súpufundir þar sem rætt er um þrautirnar sem fram undan eru, líkamsbeitingu, útbúnað og tæknileg atriði.

Brynhildur segir það síðan einstaklingsbundið hver af þrautunum fjórum reynist fólki erfiðust. Hún bendir líka á að þó svo FÍ Landvættir æfi frá nóvember fram í ágúst þá dugi, til að ljúka landvætta-áskoruninni, að ljúka þrautunum á hvaða tólf mánaða tímabili sem er.

Fyrsti viðburður þessa árs er Fossavatnsgangan, 50 km skíðaganga sem haldin verður þann 4. maí. Næst kemur Bláalónsþrautin; 60 km leið á fjallahjóli þann 8. júní; þá 2,5 km Urriðavatnssund 27. júlí og loks Jökulsárhlaup – 33 km fjallahlaup – sem í ár fer fram 10. ágúst. Öllum þrautunum þarf að ljúka innan tiltekinna tímamarka og ekkert sem heitir að synda, hjóla eða ganga í rólegheitum.

Merkilegt nokk virðist sundið vera það sem flestir kvíða mest og segir Brynhildur skýringuna bæði að vatnið geti verið kalt og að flestir séu óvanir því að synda í vatni þar sem ekki sést til botns. „Það má synda hvort heldur sem er í sundfötum eða í blautbúningi en flestir velja síðari kostinn. Þegar út í vötnin er komið uppgötva svo sumir nýja vídd á útivistinni og vilja ólmir gera meira af því en aðrir láta Urriðavatnssundið duga og eru jafnvel búnir að finna kaupanda að notuðum blautbúningnum strax og þeir koma upp úr vatninu.“

Gönguskíða-hlutinn á það frekar til að loða við keppendur. „Flestir meðlimir FÍ Landvætta hafa aldrei farið á gönguskíði áður og falla algjörlega fyrir þessari íþrótt. Veit ég um fólk sem hefur farið aftur og aftur í Fossavatnsgönguna og reynir að komast á gönguskíðin við hvert tækifæri.“

Unglingarnir velkomnir

Í ár bæta FÍ Landvættir við nýjum valkosti. FÍ Ungvættum, en þar geta börn þátttakenda spreytt sig á léttari útgáfu af Landvætta-keppni. „Að leggja til atlögu við landvætta-þrautirnar er töluverð skuldbinding og gaman ef hægt er að nota æfingatímann til samveru með fjölskyldumeðlimum. Með FÍ Ungvættum fá unglingar á aldrinum 12-18 ára að vera með og æfa með FÍ Landvættum einu sinni eða tvisvar í mánuði auk þess að taka þátt í æfingahelgunum. Eru tveir þjálfarar sem halda sérstaklega utan um þennan hóp og þegar kemur að keppni eru vegalengdirnar 12,5 km í skíðagöngu, 20 km á fjallahjóli, 500 m sund og 13 km utanvegahlaup.“

mbl.is