Leggjabrjóturinn minn

wapp.is | 2. apríl 2019

Leggjabrjóturinn minn

Ég var á unglingsaldri og þetta var eðlilegt framhald af því að hafa þvælst mikið um með ömmu og einn með hundinn Bangsa um fjörur og fjöll við Olíustöðina í Hvalfirði og í Botnsdalnum.  

Leggjabrjóturinn minn

wapp.is | 2. apríl 2019

Gengið um Hrísháls á Leggjabrjótsleið.
Gengið um Hrísháls á Leggjabrjótsleið. Ljósmynd/Aðsend

Ég var á unglingsaldri og þetta var eðlilegt framhald af því að hafa þvælst mikið um með ömmu og einn með hundinn Bangsa um fjörur og fjöll við Olíustöðina í Hvalfirði og í Botnsdalnum.  

Ég var á unglingsaldri og þetta var eðlilegt framhald af því að hafa þvælst mikið um með ömmu og einn með hundinn Bangsa um fjörur og fjöll við Olíustöðina í Hvalfirði og í Botnsdalnum.  

Okkur Bangsa var skutlað til Þingvalla og við lögðum af stað. Við fórum nú ekki léttustu leiðina enda báðir ungir og bráðlátir og ég vildi stytta leiðina með því að fara upp í hlíðarnar á Botnssúlum. Það var ekki skynsamlegt því að tafsamt var að þræða upp og niður gilin og líklega hefur bæst eitthvað við tímann sem ferðin hefði átt að taka. Þetta tókst samt vel og ég tók ástfóstri við þessa fallegu leið. Ég hef líklega farið hana þrjátíu sinnum síðan þá og þekki hana því nokkuð vel.   

Leiðin er greiðfær að mestu leyti en nafnið fær hún af nokkur hundruð metra löngum grýttum kafla um miðbikið þar sem hestar áttu það til að fótbrotna. Engar sögur fara þó af meiðslum fólks á þessari leið. Hægt er að byrja hvorum megin sem er en mér finnst skemmtilegra að byrja Þingvallamegin og hafa Hvalfjörðinn fyrir augunum seinni hluta göngunnar. Það má líka miða við vindátt svo að göngufólk hafi vindinn í bakið. Á veturna getur orðið snjóþungt á þessu svæði, sérstaklega Þingvallamegin, sem getur torveldað för og á vorin og fyrri hluta sumars geta verið miklar aurbleytur þangað til frost er farið úr jörðu. Annars er leiðin yfirleitt þægileg yfirferðar og að mestu leyti á grófum götum eða troðningum. Stikla þarf yfir læki á leiðinni en ekki þarf að vaða nema í miklum vatnavöxtum. Hægt er að hlaða leiðinni upp í Wapp og þannig er hægt að fylgja réttri leið og fá um leið ýmsar sögur og upplýsingar á réttum stöðum. 

Slæðufoss í Öxará.
Slæðufoss í Öxará. Ljósmynd/Aðsend

Leiðin er vel vörðuð þar sem það skiptir máli og má víða sjá gömlu götuna mjög skýra þar sem vegabætur voru framkvæmdar á seinni hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu. Einhvern tíma eftir það var ruddur vegaslóði og nánast bílfær vegur þarna yfir en sem betur fer var það ekki nema að hluta yfir gömlu leiðina. Sumir göngumenn fylgja þó vegaslóðanum alla leið og missa því af hinni fallegu gömlu götu með hleðslurnar sínar og vörður.  

Útsýni er fallegt yfir Þingvallasvæðið og fjöllin þar og einnig yfir Hvalfjörðinn, sérstaklega á Sandvatnshryggjum. Þá er einnig fallegt að horfa upp til Botnssúlna og sjá hvað Syðsta-Súla er hrikaleg Súlnadalsmegin og þá sést einnig vel hvað Hvalfellið sker sig úr enda er það í yngra lagi miðað við fjöllin í kring. Upplagt er að taka stuttan krók upp með Öxará að Myrkravatni og skoða fallegan slæðufoss í ánni á leiðinni. Sagt er að í vatninu séu loðsilungar og öfuguggar og enginn vill fá slíka á öngulinn. Einnig má sjá marga fallega fossa í Hvalskarðsá og þá er gott útsýni yfir dalbotninn í Botnsdal að Glymsgili og má sjá fossinn Glym í fjarlægð í þröngu gilinu 

Auðvitað eru ýmsar sögur af þessum slóðum og jafnvel örnefni sem tengjast þeim. Kunnugir í Hvalfirði þekkja vísuna sem tengist Biskupskeldu ofan við Sandvatn og á göngubrúnni yfir Botnsá kemur Gunna-Hara upp í hugann sem var uppi á fyrri hluta nítjándu aldar. Hún var á leið frá Stóra-Botni og ætlaði yfir Hrísháls í Brynjudal en átti í vandræðum með að komast yfir ána og varð hrædd er maður bauð henni aðstoð. Hún lagði á flótta og varð úti norðan við Hvalfell og fannst ekki fyrr en þrjátíu árum seinna.  

Gönguleiðina má finna á Wapp-smáforritinu.
Gönguleiðina má finna á Wapp-smáforritinu. Skjáskot/wapp.is

Miklu seinna var Jón Þorkelsson bóndi í Stóra-Botni og hann var raunar síðasti bóndinn þar. Talað var um að allur dalurinn væri gestastofa hans enda átti hann pela með brennivíni á alls kyns stöðum í dalbotninum og uppi á heiði. Það var ekki ónýtt að smala með Jóni og fá að súpa á framleiðslunni hans úr pela sem leyndist undir einhverjum steininum eða á bak við einhverja þúfuna 

mbl.is