Bogalaga inngangur og tveir turnar. Í norðvestanverðu Sýrlandi er að finna 5. aldar steinkirkju sem er fyrirrennari hinnar frönsku Notre Dame.
Bogalaga inngangur og tveir turnar. Í norðvestanverðu Sýrlandi er að finna 5. aldar steinkirkju sem er fyrirrennari hinnar frönsku Notre Dame.
Bogalaga inngangur og tveir turnar. Í norðvestanverðu Sýrlandi er að finna 5. aldar steinkirkju sem er fyrirrennari hinnar frönsku Notre Dame.
Í miðju þorpsins Qalb Lozeh stendur samnefnd dómirkja sem þykir besta dæmið í Sýrlandi um býsanskan arkitektúr. Talið er að kirkjan sé fyrirmynd margra dómkirkna sem síðar risu í Evrópu, m.a. hinnar einu sönnu Notre Dame.
„Þetta er elsta þekkta dæmið um tveggja turna framhlið við hlið vandlega útfærðs bogalaga inngangs, forveri þess sem síðar varð þekkt sem hinn rómanski byggingarstíll,“ segir Diana Darke, sérfræðingur í menningu Mið-Austurlanda. Rómanski stíllinn þróaðist svo í þann gotneska sem ræður ríkjum í Notre Dame.
Hönnun kirkjunnar í norðvesturhluta Sýrlands er að mörgu leyti sambærileg hönnun Notre Dame, að sögn Darke. Framhlið kirknanna tveggja er það sem sameinar þær helst.
Líkindin innandyra felast m.a. í stólpunum sem skipta kirkjunum í þrjá ganga; kirkjuskipið og hliðarskipin. Þessi þrískipting vísar til hinnar heilögu þrenningar.
Qalb Lozeh-dómkirkjan tilheyrir einni af fjörutíu byggingaþyrpingum í Sýrlandi sem UNESCO setti á heimsminjaskrá árið 2011. Tveimur árum síðar, er stríðsátökin í landinu stóðu sem hæst, voru þessar byggingar settar á lista stofnunarinnar yfir menningarminjar í hættu á eyðileggingu.
UNESCO segir að þorpin og þar með talin Qalb Lozeh-kirkjan sýni vel siðaskiptin, allt frá heiðni rómverska heimsveldisins til kristnidóms býsanska-tímabilsins.
Kristnir menn í Sýrlandi, sem auðgast höfðu á vín- og ólífuframleiðslu, reistu Qalb Lozeh-kirkjuna, að sögn Darke. Kirkjan varð mikilvægur áningarstaður á þjóðbraut þess tíma. „Kaupmenn, pílagrímar og munkar voru á stöðugum ferðalögum milli þessa svæðis og Evrópu í gegnum aldirnar,“ segir Darke, „svo það kemur engum á óvart að upplýsingar um hönnun [kirkjunnar] hafi að lokum náð til Evrópu, jafnvel áður en krossfararnir fóru um á tólftu öld.“
Sýrlenski sagnfræðingurinn Fayez Kawsara telur það hafa verið krossfarana sem fluttu stíl Qalb Lozeh til Evrópu. Hann segir að allir þeir sem hafi sökkt sér ofan í gotneskan byggingarstíl og sérstaklega gotneskar kirkjur viti að byggingarstíllinn hafi borist til Evrópu frá Sýrlandi. „Stærsta sönnun þessa er Notre Dame-dómkirkjan.“
Qalb Lozeh-kirkjan er mun minni en kennileitið þekkta í París. Hún er í Idlib-héraði sem enn er undir yfirráðum öfgamanna.
Kirkjan stendur því tóm og yfirgefin. Börn nota hana sem leikvöll og á veggjum hennar er nú veggjakrot sem enginn hirðir um að þrífa. Umsjónarmenn þessarar fornu dómkirkju yfirgáfu hana fljótlega eftir að stríðið braust út árið 2011. Issam Ibrahim, sem býr í nágrenni hennar, segir að síðan þá hafi hún verið vanrækt. Hann segir þorpsbúana hafa tekið höndum saman í því verkefni að reyna að vernda hana.
Wissam Mohammad, sem einnig býr skammt frá kirkjunni, segir hana leika stórt hlutverk í samfélaginu. „Þetta er ekki bara hrúga af gömlum steinum. Þetta er tákn um menningu Sýrlands.“