Fjögur lík og tíu tonn af rusli

Everest kvikmyndin | 1. júní 2019

Fjögur lík og tíu tonn af rusli

Lík fjögurra göngumanna og ein tíu tonn af rusli voru fjarlægð úr hlíðum Everest fyrir lok klifurtímans þetta árið. AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir yfirvöldum í Nepal.

Fjögur lík og tíu tonn af rusli

Everest kvikmyndin | 1. júní 2019

Lík fjögurra göngumanna og ein tíu tonn af rusli voru fjarlægð úr hlíðum Everest fyrir lok klifurtímans þetta árið. AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir yfirvöldum í Nepal.

Lík fjögurra göngumanna og ein tíu tonn af rusli voru fjarlægð úr hlíðum Everest fyrir lok klifurtímans þetta árið. AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir yfirvöldum í Nepal.

Hlýnun jarðar felur í sér að ísinn í fjallinu hopar æ meir og í ljós koma líkamsleifar sumra þeirra einstaklinga sem létu lífið á leið sinni á tindinn. Mikið magn af margvíslegu rusli hefur líka orðið eftir á fjallinu á þeim áratugum sem boðið hefur verið upp á skipulagðar ferðir á tindinn. Segir AFP að svo virðist sem eftir því sem efnaðri göngumönnum fjölgar fari þeim fjölgandi sem virðist slétt sama um ruslið sem þeir skilja eftir sig.

Líkamsleifar göngumannanna fjögurra sem ísinn skilaði í ár voru fluttar með þyrlu niður úr fjallinu í síðustu viku og segir Dandu Raj Ghimire hjá ferðamálaráði Nepal að unnið sé að því að bera kennsl á þá.

Tjöld, gaskútar og mannaskítur

Nepölsk stjórnvöld sendu þetta vorið 14 manna teymi upp í hlíðar Everest og vann hópurinn í sex vikur að því að tína rusl á svæði sem nær frá grunnbúðum og upp í fjórðu búðir, sem eru í tæplega 8.000 metra hæð. Meðal þess sem þeir hirtu voru tómar dósir, plastflöskur og klifurbúnaður sem hafði verið skilinn eftir. Þá segir AFP skærlit tjöld, tóma gaskúta og jafnvel mannaskít blasa við á leiðinni á tindinn.

„Við höfum náð takmarki okkar þetta árið [...] vonandi getum við svo haldið áfram þessu verki á því næsta,“ sagði Ghimire.

„Við þurfum að halda þessu verkefni áfram nokkur ár í viðbót, sérstaklega í efri búðunum svo við getum hreinsað fjallið,“ sagði sjerpinn Pasang Nuru sem fór fyrir hreinsunarteyminu.

Þyrlur frá hernum og burðarmenn sáu svo um að flytja ruslið niður til Namche Bazar, sem er síðasti stóri bærinn á leiðinni að Everest, en stjórnvöld í Nepal og Tíbet eiga í stöðugri baráttu við ruslið og skítinn sem sístækkandi hópur göngufólks skilur eftir sig.

Fá endurgreidda 4.000 dollara fyrir 8 kg af rusli

Sex ár eru frá því stjórnvöld í Nepal komu á fót áætlun sem gengur út á að hver gönguhópur geti fengið 4.000 dollara (tæpar 500.000 kr.) endurgreidda af klifurgjaldinu, ef allir í hópnum taka með sér niður að minnsta kosti átta kg af rusli. Segir AFP að þrátt fyrir þetta taki einungis um helmingur göngumannanna ruslið með sér niður.

Kínversk yfirvöld gripu þá til þess ráðs í febrúar á þessu ári að banna umferð í grunnbúðir, öðrum en þeim sem ætla að reyna við tindinn. Er þetta gert í von um að að ná að hreinsa rusl af svæðinu.

Hundruð fjallgöngumanna náðu þessum hæsta tindi jarðar í ár og kann met síðasta árs, er 807 manns náðu tindinum, nú að hafa verið slegið. Ellefu létu lífið á leið sinni á tindinn þetta árið, en þröngur veðurgluggi olli því að töluverð röð myndaðist á leið á toppinn.

mbl.is