„Hjálpa öðrum. Náungakærleikur. Þykja vænt um fólk.
„Hjálpa öðrum. Náungakærleikur. Þykja vænt um fólk.
„Hjálpa öðrum. Náungakærleikur. Þykja vænt um fólk.
Í gegnum opinber skrif og fjölmiðlaviðtöl hef ég fengið ógrynni af skilaboðum frá alls konar fólki. Fólki sem virðist tengja við það sem ég rita og segi. Það hefur gefið mér mikið að vita að fólki líði betur eða fær von. Fólki sem hefur liðið illa lengi og jafnvel einangrað. Þetta er þakklátasta fólkið,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
Eðlilega hefur hvarflað að mér hvort það liggi fyrir mér í framtíðinni að hjálpa öðrum. Hvort viðbrögð fólks sé fyrirboði um sem koma skal. Meira um það síðar í pistlinum.
Byrjunin er að þykja vænt um sjálfan sig. Lífshlaupið mitt er tvískipt. Fyrir og eftir veikindi. Fyrir veikindi var ég karakter sem ég hef stúderað mikið á batagöngunni. Karakter sem ég eiginlega vorkenni í dag. Ég gerði fullt af góðum hlutum í lífi og starfi. Gerði alltaf mitt besta og stóð mig almennt vel.
En hver var ég? Í raun er lífshlaupið mitt þrí ef ekki fjórskipt. Barnæska, unglingsár, verðandi fótboltastjarna og djúpt sokkinn alkóhólisti á unga aldri.
Svo hófst lífskeiðið eftir meðferð. Þá eignaðist ég líf. Þá var sjálfsvirðingin- ímyndin-, og traustið neðar en allar hellur. Byggði þetta upp á methraða sem var líkt mér. Andleg vakning að uppgötva að ég gæti verið í háskólanámi og staðið mig vel. Verið eins og aðrir. Með keppnisskap og hörku að vopni tókst ég á við nám og síðar starf af fítónskrafti svo eftir var tekið. Held ég. Eignaðist börn og buru og lifði svo kölluðu eðlilegu fjölskyldulífi. Líf sem ég nota bene hafði afskrifað fyrir fyrrnefnda meðferð.
Ég hef skoðað þennan karakter en því að vorkenna honum? Ég sé mig á hraða ljóssins að rembast við að standa mig sem best í vinnu, takandi að mér verkefni sem ég átti ekki að ráða við (hélt ég) og taka mikið af verkefnum að mér í einu. Fór reglulega í þennan tilfinningarússíbana að takast að standa pliktina og ljúka öllum verkefnum á réttum tíma. Það tókst. Ég man alltaf hvernig mér leið. Ákveðin vonbrigði og hálfsærður. Eins og ég hafði ímyndað mér það kæmu klappstýrur sem þökkuðu mér fyrir dugnaðinn. Nei gerðist aldrei.
Mér leið eins og með tóma holu. Gat aldrei fyllt hana. Ég sem hafði lagt svo mikið á mig. Sleppt fæðingarorlofum, sumarfríum, helgum í þágu vinnunnar. Tekur enginn eftir þessu? Nei. Nema ég. Og fjölskyldan mín sem hefði viljað að ég eyddi meiri tíma á heimilinu. Þetta var ég. Alltaf að reyna að meikað það. Áttaði mig kannski ekki á því að mín vinna fólst í að koma á breytingum innan fyrirtækja og það er ekki endilega ávísun á vinsældir á meðal starfsfólk. Vinna fyrir mislélega stjórnendur sem ætluðu að bakka mig upp en kunnu það ekki. Eða vildu ekki.
Þetta var ég á mínum starfsferli fyrir fyrrnefnd veikindi. Hvað gerði ég eftir vonbrigði? Auðvitað hellti mér í það næsta. Reyndar þakklátur fyrir öll tækifærin. Verkefnin komu upp í hendurnar á mér og ég var virkilega fær í mínu starfi. Stundum um of því aðrir skildu mig ekki! Önnur saga. Svona skoppaði ég áfram ár eftir ár. Fannst allt eðlilegt og þrátt fyrir að upplifa vonbrigði með að fá ekki verðlaun þá hélt ég áfram. Í keppni við sjálfan mig.
Þetta er ástæðan ég vorkenni karakternum sem ég var. Vildi vel. Meinti vel. Gerði vel. Leið stundum eins og John Lennon að annað hvort væri ég geðveikur eða snillingur. Að lágmarki misskilinn. Auðvitað voru fullt af ánægjulegum tímum og þetta var ekki bara kvöld og böl.
Eftir að hafa skoðað þennan karakter fyrir veikindi brá mér mest við að uppgötva að í 20 ár stoppaði ég aldrei og spáði á hvaða leið ég væri. Hvernig leið mér? Jú hugsaði en alltaf var allt í goody. Fannst allt ofureðlilegt. Þekkti ekkert annað.
Satt best að segja má líkja mínu lífshlaupi við að ég hafi hoppað í námi á hlaupabretti, með halla upp á við, stillt á 20 og hlaupið og hlaupið. Þangað til haustið 2015. Þá brann ég. Reyndar eftir 2 ára skelfileg veikindi áfallastreituröskunar.
Ég er fíkill. Þó ég hefði ekki notað áfengi eða vímuefni þá var spenna mitt fíkniefni. Hræddist að slaka of mikið á til að lenda ekki í fráhvörfum. Ömurlegt? Já. Hvernig er annað hægt en að vorkenna þessum manni sem samt trúði að hann gerði allt rétt?
Í dag í júlí 2019 stend ég á eftirsóknarverðum krossgötum. Eftir 6 ára baráttu við hræðileg einkenni complex áfallastreituröskunar og burnt out fékk ég í júní það mat að mér hafði tekist að vinna úr öllum einkennum.
Auðvitað varð ég himinlifandi og mikill léttir. Þetta var þriðji stærsti dagur lífs míns. Á 2 börn svo ég þarf ekki að nefna hina tvo.
En hvað svo? Í veikindunum hafði ég glatað öllu veraldlegu hef fetað langa og stranga batagöngu á endurhæfingarlífeyrir og rétt haft efni á að leigja herbergi út í bæ. Það er enn mín staða. Eðlilega því ég ákvað að heilsan yrði forgangur áður en ég færi að vinna í að afla mér tekna.
Lífið heldur áfram. Ég á val að ákveða starfsvettvang framtíðarinnar. Búinn að lýsa fyrri starfsvettvangi. Fara þangað aftur? Gera eitthvað annað? Hvað? Sjálfsagt lúxus spurningar.
Með mikla þekkingu og reynslu úr mínum fyrri störfum. Þó ég væri að glíma við ákveðna tækni þá var stærsti hluti starfsins samskipti og umgengni við fólk. Stjórnendur og starfsfólk. Alls konar fólk. Fólk sem var jákvætt og til í breytingar og fólk sem vílaði ekki fyrir sér að stinga mann í bakið. Já ýki ekki.
Á krossgötum já? Af því ég hef nýtt tímann í að horfast í augu við mig í fortíðinni þá bankar stanslaust í huganum að rita lífsreynslusögu mína og gefa út. Þó ég sé ekki frægastur á landinu þá á ég litríka ævi að baki og tekist á við ansi margt. Gott og slæmt. Bókin gæti orðið um leið innblástur fyrir fólkið sem ég nefndi fyrr.
Ég er enn að melta en langstærsta ástæðan fyrir bata mínum er mín sjálfshjálp. Ætla ekki að þylja upp þrautagönguna í leit að faglegri aðstoð. Hélt mínu striki. Þegar niðurstaða matsins kom í ljós s.l. júní þá óskaði viðkomandi sálfræðingur mér til hamingju og hrósaði mér fyrir það sem ég hafði gert.
Já fyrir utan lífsreynslusöguna þá finnst mér ég skulda öllum sem eru að glíma við það sama og ég að rita sjálfshjálparbók. Fyrir utan reynsluna hef ég aflað mér gríðarlegrar þekkingar á t.d. complex áfallastreituröskun. Á engin prófskírteini um það upp á vegg. Það þykir flott og fagaðilar víst metnir út frá því meira en reynslu.
Rita bækur já. Hvað svo? Hjálpa fólki. Náungakærleikur. Jú það kraumar í mér löngun að finna mér starfsvettvang til að aðstoða fólk að ná bata við t.d. áfallastreituröskun og fleiru. Reynsla mín af ráðgjafastörfum í fyrri störfum nýtist mér vel. Munurinn að í stað þess að hjálpa fyrirtækjum hjálpa ég fólki.
Hef þegar fundið tilfinninguna að það er gefandi. Þarf engar klappstýrur. Tilfinningin að gefa og upplifa að viðkomandi þiggur og líður betur.
Áður en haustjafndægur koma verð ég búinn að teikna upp þessa framtíð. Það er notalegt að geta setið og ritað þessi orð fullur af tilhlökkun og bjartsýni. Og segi allt annar karakter sem ég vorkenndi hér fyrr. Ég hef breyst. Til hins betra. Held því áfram til dauðadags.
Kannski má kalla lífsreynslusöguna mína sem leitina að sjálfum mér? Með góðum manni uppgötvaði ég að mín sjálfsvirðing hefur ALDREI byggst á mínu sjálfi. Heldur vinnu og einhverju sem ég hef gert.
Ég hef fundið sjálfan mig. Er bara ágætur.
Aldrei verið þakklátari. Þó mín sjálfshjálp hafi hjálpað mér mest hefur fullt af fólki stutt við bakið á mér. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Mun aldrei gleyma hverjir reyndu sannir vinir á raunastund. Þeir sem hlupu í burtu. Vonandi líður ykkur vel.
Síðasti pistill heitir „Valdi á milli að lifa eða deyja“. Ég valdi að lifa. Þetta er árangurinn.
Ást og friður.