„Ég vil sem minnst gefa upp, en þetta skal aldrei verða,“ segir Hrafn Jökulsson umhverfissinni um fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Framkvæmdir vegna virkjunarinnar hófust í dag á Ófeigsfjarðarvegi og segir Hrafn von á aðgerðum í vikunni.
„Ég vil sem minnst gefa upp, en þetta skal aldrei verða,“ segir Hrafn Jökulsson umhverfissinni um fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Framkvæmdir vegna virkjunarinnar hófust í dag á Ófeigsfjarðarvegi og segir Hrafn von á aðgerðum í vikunni.
„Ég vil sem minnst gefa upp, en þetta skal aldrei verða,“ segir Hrafn Jökulsson umhverfissinni um fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Framkvæmdir vegna virkjunarinnar hófust í dag á Ófeigsfjarðarvegi og segir Hrafn von á aðgerðum í vikunni.
Fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur verið gríðarlega umdeild í Árneshreppi og víðar. Fyrir liggja sjö kærur hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna framkvæmdarleyfis sem hreppsnefnd Árneshrepps veitti VesturVerki í byrjun sumars.
Hafa bæði landeigendur á svæðinu sem og ýmis náttúruverndarsamtök kært framkvæmdarleyfið og meðal annars borið fyrir sig meinta lagalega vankanta á meðferð málsins.
Hrafn segir mikla samstöðu vera á meðal fólks um að koma í veg fyrir framkvæmdirnar.
„Þau skaðræði sem eru að gerast á Ströndum núna verða stöðvuð. Það eru mjög margir einstaklingar, félagasamtök og aðrir aðilar í sambandi vegna þessa. Mér þykir satt að segja hörmulegt að umhverfisráðherra og stjórnvöld skuli ekki hafa gripið inn í þegar ótal kærur hafa verið settar fram vegna þessarar meintu virkjunar,“ segir Hrafn í samtali við mbl.is.
„Málinu er ekki lokið og það má búast við aðgerðum síðar í vikunni. Við ætlum ekki að mótmæla, við ætlum að koma í veg fyrir þetta.“
„VesturVerk má mín vegna alveg bæta veginn til Ófeigsfjarðar. En þeir munu aldrei drösla 40 tonna túrbínum um þann veg. Við munum koma í veg fyrir það með margra góðra manna hjálp. Það er stórkostlegt að fólk skuli loksins vera að vakna til vitundar um þessi hermdarverk sem eru í uppsiglingu í Strandasýslu,“ segir Hrafn.
„Þetta mál er eitt allsherjar hneyksli frá upphafi til enda. Kærumálin sjö liggja fyrir og þau ber að afgreiða áður en VesturVerk og HS Orka fá að halda áfram sínum skaðræðisverkum fyrir norðan. Þessi meinta virkjun hefur ekkert sér til gildis annað en það að tryggja hinum erlendu eigendum HS Orku rafmagn til þess að standa undir einu gagnaveri eða svo.
Hún skilar engu fyrir Árneshrepp, engu fyrir Vestfirði og engu fyrir Ísland.“
Þá telur Hrafn friðlýsingu svæðisins geta orðið arðbærari en virkjun Hvalár og nefnir hann í því samhengi álit Skipulagsstofnunar og skýrslu Environice.
„Að sjálfsögðu eigum við að standa vörð um stærstu ósnortnu víðerni Íslands. Við eigum að skila Íslandi til framtíðarkynslóða með mannsæmandi hætti en ekki láta gróðrarsjónarmið vera aflvaki þess sem þarna er á bakvið. Ég veit að þetta verður stöðvað.“
Hrafn vill ekki segja hvers eðlis fyrirhugaðar aðgerðir þeirra sem mótfallnir eru virkjuninni séu.
„Ég vil gefa sem minnst upp, en þetta skal aldrei verða. Það eru margir á leiðinni norður. Við tökum þennan slag með bros á vör og sjáum til þess að okkar ástkæra Árneshreppi verði bjargað frá erlendum auðkýfingum.“