Hluti landeigenda í Seljanesi í Ingólfsfirði segjast ætla að reyna allar lagalegar leiðir til að koma í veg fyrir frekari framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi áður en gripið verður til annarskonar aðgerða. Hafa því engin mótmæli orðið á vettvangi framkvæmdanna og vonast talsmaður landeiganda til að svo verði áfram.
Hluti landeigenda í Seljanesi í Ingólfsfirði segjast ætla að reyna allar lagalegar leiðir til að koma í veg fyrir frekari framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi áður en gripið verður til annarskonar aðgerða. Hafa því engin mótmæli orðið á vettvangi framkvæmdanna og vonast talsmaður landeiganda til að svo verði áfram.
Hluti landeigenda í Seljanesi í Ingólfsfirði segjast ætla að reyna allar lagalegar leiðir til að koma í veg fyrir frekari framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi áður en gripið verður til annarskonar aðgerða. Hafa því engin mótmæli orðið á vettvangi framkvæmdanna og vonast talsmaður landeiganda til að svo verði áfram.
„Við ætlum að láta reyna á lagabókstafinn og allar þær heimildir sem eru fyrir hendi áður en við grípum til einhverra aðgerða. Við viljum sýna gott fordæmi, það er þannig sem þetta á að virka. Við æðum ekki bara af stað með einhverjar framkvæmdir sem eru byggðar á veikum grunni og það mega sumir taka sér til fyrirmyndar,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, talsmaður hluta landeiganda í Seljanesi.
Framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi er fyrsti hluti framkvæmda við fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Framkvæmdarleyfi sem Árneshreppur veitti VesturVerki til umræddra framkvæmda hefur þótt afar umdeilt. Hafa bæði landeigendur á svæðinu sem og ýmis náttúruverndarsamtök kært leyfið til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og meðal annars borið fyrir sig meinta lagalega vankanta á meðferð málsins.
„Við erum búin að vera að funda með lögfræðingum í allan morgun. Það var verið að fara yfir málin og hvað sé fyrir hendi frá Vegagerðinni og Hreppsnefndinni og hvernig að þessari yfirfærslu vegarins var að staðið,“ segir Guðmundur, en Vegagerðin framseldi veghald á Ófeigsfjarðarvegi til VesturVerks.
„Við erum að kanna hvort að samningurinn sem Vegagerðin gerði við VesturVerk haldi vatni og með þeim ákvæðum sem eru tiltekin í samningnum. Vegagerðin framselur ákveðið vald til VesturVerks og við viljum kanna lögmæti þess,“ segir Guðmundur.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni í dag kemur fram að Vegagerðin telji sig hafa fullt forræði yfir Ófeigsfjarðarvegi og að sem veghaldari megi Vegagerðin framselja veghald á grundvelli vegalaga. Þá segir einnig í tilkynningunni að dómafordæmi bendi til þess að þjóðvegir sem haldið hefur verið við með almannafé tilheyri íslenska ríkinu þó að formleg skjalfest eignarheimild liggi ekki fyrir.
Guðmundur segir landeigendur vera ósátta við þetta þar sem þeir hafi ekki vitað að Ófeigsfjarðarvegur hafi verið skráður landsvegur í vegaskrá Vegagerðarinnar árið 2004.
„Vegagerðin hefur svarað okkur áður en þeir telja sig hafa heimild til þess að gera þetta og að þetta hafi verið gert athugasemdalaust. Það eru ekki röksemdir sem halda vatni. Þú skráir ekkert eigur einhvers í gagnagrunn hjá þér að honum óforspurðum og segir svo fimmtán árum seinna að það hafi ekki verið gerðar athugasemdir við þetta. Við getum náttúrulega ekki gert athugasemdir við eitthvað sem við vitum ekki af,“ segir Guðmundur.
Guðmundur segir landeigendur umfram allt vilja vinna úr málinu á lagalegum grundvelli svo að ekki þurfi að koma til mótmælaaðgerða.
„Við erum að kanna sögu Vegagerðarinnar þarna og af hverjum, hvernig og hvenær eitthvað var gert af Vegagerðinni á svæðinu til að sjá hvort að það hafi verið Vegagerðin eða heimamenn sem hafi viðhaldið veginum. Það er verið að kanna þetta allt saman og við höfum lögfræðinga sem eru að grandskoða allar heimildir varðandi lögsögu Vegagerðarinnar með þennan vegslóða og heimildir Vegagerðarinnar til að framselja þetta vald sem fylgir veghaldi. Við bara bíðum á meðan.“
Guðmundur telur líklegt að framkvæmdirnar færist inn á land í Seljanesi á næstu dögum. Ef ekki finnist lausn á málinu fyrir þann tíma segir hann landeigendur ekki ætla að sitja hjá.
„Við tökum okkur stöðu þegar þeir nálgast landið okkar og við ætlum að sjá til þess að það verði ekki farið inn á okkar land nema allar heimildir séu fyrir hendi og þær eru það ekki núna.
„Það er fólk þarna á staðnum núna sem er að fylgjast með framkvæmdunum og fylgja því eftir að framkvæmdaraðilinn sé að halda sig innan þess vegsvæðis sem hann tilgreinir sjálfur í sínum framkvæmdarlýsingum, segir Guðmundur.
„Þau halda sig bara til hlés og fylgjast með. Við högum okkur bara eins og siðað fólk. Við göngum úr skugga um að allt lögmæti sé fyrir hendi áður en við grípum til aðgerða. Það mættu VesturVerk og Árneshreppur taka sér til fyrirmyndar.“