Stikur og bönd voru tekin niður af afmörkuðu svæði umhverfis fornminjar í Ingólfsfirði í fyrrinótt. Verkefnastjóri Minjastofnunar telur líklegt að lömb eða rollur hafi verið þar að verki.
Stikur og bönd voru tekin niður af afmörkuðu svæði umhverfis fornminjar í Ingólfsfirði í fyrrinótt. Verkefnastjóri Minjastofnunar telur líklegt að lömb eða rollur hafi verið þar að verki.
Stikur og bönd voru tekin niður af afmörkuðu svæði umhverfis fornminjar í Ingólfsfirði í fyrrinótt. Verkefnastjóri Minjastofnunar telur líklegt að lömb eða rollur hafi verið þar að verki.
„Við vitum ekkert hver hefur gert þetta. Það var búið að fjarlægja stikurnar á heilum kafla og síðan var búið að fjarlægja bandið á einum stað og þar skilst mér að lamb hafi flækst í bandinu. Það fer þarna fornleifafræðingur á föstudaginn og hún ætlar að setja nýtt band sem minni líkur eru á að lamb flækist í,“ segir Inga og bætir við að líklega hafi ferðamaður losað lambið.
„Við hinar stikurnar eru engin bönd og ég veit ekki hver var þar að verki eða af hverju. Það gagnast engum. Þetta er mjög furðulegt. Það er kannski ólíklegt að kindur hafi velt öllum stikunum um koll þannig það hefur eflaust einhver farið og tekið þær upp en ekki fjarlægt þær, þær lágu bara þarna við hliðina á. Þetta gagnast hvorki andstæðingum né fylgjendum virkjunar,“ segir Inga.
Inga segir fornminjarnar sem afmarkaðar voru í Ingólfsfirði vera afar fjölbreyttar.
„Það eru þarna beitarhús, naust og rétt og ýmiskonar minjar. Þetta er á öllum mögulegum aldri. Það er þarna síldarsaltvinnustaður frá 1918 og svo eru beitarhús sem geta hafa verið þarna í margar aldir. Svo er þarna álagablettur sem fylgir gamalli þjóðsögu þannig að það eru þarna ýmsar fjölbreyttar minjar.“
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, talsmaður hluta landeigenda í Seljanesi við Ingólfsfjörð, telur líklegra að rollur hafi velt stikunum um koll en manneskjur.
Hann bendir þó á að merkingarnar hafi verið þess eðlis að einhverjir hafi geta haldið að um merkingar frá VesturVerki væri að ræða.
„Þetta eru gulir varúðarborðar og það sem mér dettur helst í hug að einhver sem hefur verið að fylgjast með framkvæmdum og átti leið þarna um hafi haldið að þetta væru merkingar frá verktökunum og ætlað að sýna borgaralega óhlýðni með því að taka þessar merkingar sem þeir héldu að tilheyrðu verktökunum. Annars veit ég ekki til þess að það hafi orðið nokkrir árekstrar.“
„Ég veit allavega að þessir verktakar myndu aldrei haga sér svona, allt mikið sómafólk. Ég veit að þeir myndu aldrei nokkurn tímann láta sér detta í hug að taka þetta upp. Ef að einhver manneskja hefur tekið þetta upp hefði það verið í þessum tilgangi en þetta var bara á einum stað þannig mér finnst líklegra að þetta hafi verið eitthvað annað. Það er mikið af sauðfé þarna í hlíðinni. Það er ekkert ósennilegt að þessir hælar sem féllu hafi bara verið sauðfé. Ég held að það sé bara málið,“ segir Guðmundur.
Friðrik Friðriksson, talsmaður Vesturverks, segir framkvæmdir við Ófeigsfjarðarveg ganga vel. Þá segist hann ekki hafa orðið var við nokkurskonar mótmæli virkjunarandstæðinga.
„Framkvæmdir ganga bara samkvæmt áætlun. Það hefur allt saman gengið bara snurðulaust fyrir sig. Við reiknum bara með því að fólk sé löghlýðið og fari bara eftir því sem lögreglan segir til um. Við höfum heyrt af fólki sem ætlar að gera eitthvað en við bara reiknum með því besta og vinnum eingöngu innan veghelgunarsvæðisins,“ segir Friðrik.
Guðmundur Hrafn segist vera í góðu sambandi við fólk á svæðinu sem fylgist grannt með framkvæmdunum.
„Það var fólk að mæla upp framkvæmdirnar á fjórum stöðum í gær og það kom í ljós að verktakinn hefur farið út fyrir heimildir sínar. Það stendur í framkvæmdarlýsingu að þeir haldi sig við 6 metra frá miðlínu vegar. Þeir eru komnir nú tæplega 10 metra frá miðlínu inn í landið samkvæmt þessum mælingum, þvert á sínar eigin framkvæmdarlýsingar. Ég held að það sé um 3,6 metrar sem þeir fara umfram áætlunina. Eftirlit með framkvæmdunum er mjög ábótavant,“ segir Guðmundur.
Aðspurður sagðist Friðrik ekkert vita um fullyrðingar Guðmundar.